Úthlutun úr Sviðslistasjóði 2022

28.2.2022

Umsóknarfrestur í Sviðslistasjóð rann út 4. október 2021, alls bárust 149 umsóknir. Sótt var um ríflega 891 milljón króna og að auki 1.789 mánuði til listamannalauna.

Sviðslistasjóður veitir 160 milljónum króna til 23 atvinnusviðslistahópa leikárið 2022/23 og fylgja þeim 170 listamannalaunamánuðir. 20 mánuðir voru veittir einstaklingum utan sviðslistahópa.

Sviðslistaráði þykir miður að úthlutun seinkaði. Töf má má rekja til viðspyrnuaðgerða ríkisstjórnar sem auglýstar voru í lok janúar. Sviðslistaráð óskaði eftir að viðbótarframlag yrði nýtt til að hækka þessa úthlutun, og var það gert að hluta.

Auka umsóknarfrestur í Sviðslistasjóð og launasjóð sviðslistafólks vegna viðspyrnuaðgerða ríkisstjórnar verður tilkynntur á vormánuðum. Þá verða til úthlutunar 25 milljónir úr Sviðslistasjóði og 50 mánuðir úr launasjóði sviðslistafólks með áherslu á umsóknir frá ungu sviðslistfólki, 35 ára og yngra.

Hæsti styrkur að þessu sinni rennur til Lab Loka kr. 12 milljónir. Í sýningunni taka þátt 20 leikarar, söngvarar og hljóðfæraleikarar á aldrinum 70-90 ára.

Sviðslistaráð gerði 2 ára samning við Gaflaraleikhúsið árið 2021 að upphæð 20 milljónir króna, með því skilyrði að Hafnarfjarðarbær legði fram sambærilegt framlag til leikhússins.

Skipting úthlutunar eftir flokkum samkvæmt sviðslistaráði:

  • 3 barnaverk (Caravan, Skemmtilegt er myrkrið (tónleikhús), Tindátarnir)
  • 3 brúðu-/trúðaverk (Hríma, Missir, Stroke)
  • 5 dansverk (Hringrás, Molta, Ó, ljúfa líf, SUND, Til hamingju með að vera mannleg)
  • 5 leikverk (Dagur í lífi öryrkja, Djöfulsins snillingar, Hvíta tígrisdýrið, Marat/Sade, Urbania)
  • 2 óperuverkefni (Síminn e. Carlo Menotti, Spunakonur - ópera)
  • 1 rannsókn (Stigmögnun)
  • 3 samsköpunarverk (Ég lifi enn, Nýr heimur, Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar)
  • 1 samstarfsverkefni (Gaflaraleikhúsið)

Eftirtalin verkefni hlutu styrk úr Sviðslistasjóði*

Einnig er tilgreindur fjöldi listamannalauna, sem verkefnið hlýtur úr launasjóði sviðslistafólks.

Styrkþegi Verkefni Úthlutun úr sviðslista- sjóði Lista manna laun. Mán-uðir Tegund samkvæmt umsókn Forsvars-maður
Aldís Gyða Davíðsdóttir Hríma. Húmorísk og í senn átakanleg físísk brúðusýning fyrir fullorðna sem fjallar um einbúan og eldri borgarann Hrímu sem býr lengst upp til fjalla í pínu litlu koti þar sem hana skortir ekkert nema mat og nauðsynjar. 6.000.000 kr 10 Leiklist / Brúðuleikhús Aldís Gyða Davíðsdóttir
Alltaf í boltanum Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar er nýtt íslenskt sviðsverk sem segir frá vinum um þrítugt sem vikulega hittast í sófanum heima hjá eldri bróður eins þeirra til að horfa á enska boltann. Eina kvöldstund á meðan knattleiknum stendur hoppar sagan í tíma og rúmi og kryfur þessa ólíku karlmenn. Verkið skoðar sambönd karlmanna, eitraða klefastemningu og löngun þeirra til að vera í friði frá umheiminum. 8.210.000 kr   Leiklist / Handrit Viktoría Blöndal
Ágústa Skúladóttir og Undur og stórmerki slf. Dagur í lífi öryrkja. Líf íslenskra öryrkja er ekki til umfjöllunar á leikhúsfjölum hér á landi dags daglega. En Elva Dögg lætur það ekki á sig fá. Hún fjallar af hispursleysi um sjálfa sig og hversdagslíf sitt og hvernig alvarleg fötlun er henni bæði uppspretta sorgar og (já, ótrúlegt en satt) hláturs og gáska. 2.320.000 kr   Leiklist Karl Ágúst Úlfsson
Blautir Búkar Sund. Sviðsverkið SUND er samsköpunarsýning unnin út frá sundlaugarmenningu Íslands. Verkið verður sjónrænt og er listrænt staðsett á milli dansverks og leikverks þar sem gjörðir í rými og leikur með vatnið er í forgrunni. 9.920.000 kr   Leiklist / Dansverk Birnir Jón Sigurðsson
Dansfélagið Lúxus Ó ljúfa líf. Verkefnið Ó, ljúfa líf er óður til danslistarinnar, ástríðunnar að dansa, gleðinnar að lifa og fá að eldast. 7.000.000 kr 12 Listdans Valgerður Rúnarsdóttir
EG studio ehf. Hringrás. Verk sem heiðrar líkama konunnar á öllum stigum ferlisins að eignast barn. Dansverk sem samtvinnar myndlist, tónlist og dans í eina heild. Verkið er unnið í samstarfi við Íslenska dansflokkinn. 9.430.000 kr   Listdans Þyrí Huld Árnadóttir
Elín Gunnlaugsdóttir og tónleikhúshópurinn Töfrar Skemmtilegt er myrkrið hefst á því að söguhetjan, hin 10 ára Ása Signý, rekst á yfirnáttúrulegan loftanda í húsi Jóns Árna frænda síns. Þau fara að ræða það sín á milli hvort að draugar og annað yfirnáttúrlegt sé til í raun og veru. Ýmsar verur fara á kreik á meðan á þessum vangaveltum stendur en Jón Árni sem hefur grúskað mikið í gömlum bókum kann góð ráð til að þagga niður í þeim. Ása Signý efast þó allt til enda. 1.850.000 kr 13 Leiklist / Barnaleikhús Elín Gunnlaugs- dóttir
Gaflaraleikhúsið, félagasamtök Samstarfssamningur. Fleiri en eitt verkefni. 10.000.000 kr 20 Barnaleikhús / brúðuleikhús Lárus Vilhjálmsson
Gríma Kristjánsdóttir Missir. Að missa er óumflýjanlegur hluti þess að elska. Eftir missi förum við ósjálfrátt að líta til baka og gera upp fortíðina. Hverju viljum við muna eftir? 3.100.000 kr 9 Leiklist Gríma Kristjánsdóttir
Handbendi Brúðuleikhús Moetivi Caravan is an original site-specific performance for small audiences, set in a specially designed and adapted camper-van. 2.200.000 kr 10 Leiklist / Barnaleikhús / Brúðuleikhús / Handritsgerð Greta Clough
Heimsleikhúsið ehf. Djöfulsins snillingur er tragíkómískur farsi og sálfræðitryllir eftir Pálínu Jónsdóttur leikstjóra í samsköpun með fjölþjóðlegu sviðslistafólki Reykjavík Ensemble og flóttafólki á Íslandi. Verkið er um flóttakonu af erlendum uppruna sem gædd er óvenjulegum hæfileikum sem hún vill leggja af mörkum í þökk og þágu landsins sem bjargaði lífi hennar. 10.000.000 kr 11 Leiklist Pálína Jónsdóttir
Hilmir Jensson Megaturo. Rannsókn á sviðslegu gildi endurtekninga og stigmögnunar. 2.800.000 kr   Rannsókn Hilmir Jensson
Kómedíuleikhúsið, áhugamannfélag Tindátarnir. Hér verður eitt eftirtektarverðasta ljóðaævintýri hinnar íslensku ljóðasögu sögð og túlkuð með töfrum leikhússins. 8.420.000 kr   Barnaleikhús / brúðuleikhús Elfar Logi Hannesson
Lab Loki Marat/Sade, eða Ofsóknin og morðið á Jean Paul Marat sýnt af vistmönnum geðveikrahælisins í Charenton undir stjórn De Sade markgreifa. Elstu sviðslistamenn landsins sýna eitt af öndvegisverkum 20. aldarinnar Marat/Sade eftir Peter Weiss. 20 leikarar, söngvarar og hljóðfæraleikarar á aldrinum 70-90 ára glíma við þetta margslungna og stórbrotna verk með ungæðislegum ærslum og æskuþrótti ellinnar. 12.000.000 kr 17 Leiklist Rúnar Guðbrandsson
Menningarfélagið Tvíeind Molta. Hvað sprettur upp úr rústunum þegar loftslagsváin hefur eytt lífi á jörðinni eins og við þekkjum það? Í verkinu MOLTA stígur þú inn í heim þar sem hamfarir eru nýafstaðnar. Þar myndast molta; frjósamur jarðvegur þar sem eitthvað nýtt getur fæðst. 8.500.000 kr 8 Listdans Rósa Ómarsdóttir
Níelsdætur sf. Til hamingju með að vera mannleg er byggt á textum sem Sigga Soffía skrifaði þegar hún gekk í gegnum harða krabbameinsmeðferð í heimsfaraldri. 6.000.000 kr 11 Leiklist / Listdans / Rannsókn Sigríður Soffí Níelsdóttir
Rebekka A. Ingimundardóttir Ég lifi enn. Sönn saga. 10.160.000 kr      
Sambandið óperukompaní Síminn eftir Gian Carlo Menotti. Óperufélagið Sambandið setur upp óperuna The Telephone á Óperudögum 5.720.000 kr   Ópera Hallveig Rúnarsdóttir
Slembilukka, félagasamtök Hvíta tígrisdýrið er myrkt, táknrænt fjölskylduævintýri um andlegt heimilisofbeldi. Um það að vera innilokuð og minni máttar. 4.500.000 kr 11 Leiklist / barnaleikhús Bryndís Ósk Þ Ingvarsdóttir
Svartur jakki, félagasamtök Óperan Spunakonur er fyrir kvenrödd, klarinett, hörpu og slagverk. Hún byggir á Grimmsævintýrinu Spunakonurnar þrjár og fjallar m.a. um tengsl sjálfsmyndar og sjálfsmats kvenna við afköst í vinnu, yfirboðarahollustu og áhrif þess að vinna sér til húðar. 10.000.000 kr 13 Ópera Ragnheiður Maísól Sturludóttir
Trigger Warning, félagasamtök Stroke er nýtt heimildaverk eftir Virginiu Gillard í samstarfi við sviðslistahópinn Trigger Warning. Virginia er atvinnutrúður og vann um árabil á sjúkrahúsum með börnum og sjúklingum. Fimmtug fékk hún sjálf heilablóðfall og varð fyrir mál- og verkstoli sem kollvarpaði tilvistinni svo nú er hún hinumegin við borðið. 8.000.000 kr 13 Leiklist Kara Hergils Valdimars- dóttir
Unnur Elísabet Gunnarsdóttir Nýr heimur ÉG BÝÐ MIG FRAM er röð óhefðbundinna örverkasýninga sem stuðla að fjölbreytni innan sviðslista umhverfis Íslands. Með því að bjóða listamönnum úr ólíkum áttum til samstarfs verður til ný reynsla með samþættingu hreyfingar, tónlistar, leikhúss og myndlistar. Útkoman er suðupottur nýrra hugmynda, eins konar smáréttaveisla fyrir áhorfendur. Þetta er í fjórða sinn sem hátíðin er sett upp og að þessu sinni býður Unnur Elísabet sjö ólíkum listamönnum í dúett. Útgangspunktur dúettanna er “Nýr heimur”. 4.500.000 kr 12 Leiklist / listdans Unnur Elísabet Gunnarsdóttir
Urbania ehf Aspas eftir Gianinu Carbunariu í þýðingu og leikstjórn Guðrúnar S. Gisladóttur fjallar um mismunun og fordóma, mannleg samskipti og geymsluþol grænmetis í skugga verslunar og viðskipta á öld þjóðflutninga. 9.370.000 kr   Leiklist / rannsókn Filippía Ingibjörg Elísdóttir

Sviðslistaráð starfar samkvæmt ákvæði 15. gr laga nr. 165/2019 um sviðslistir. Hlutverk sviðslistasjóðs er að efla íslenskar sviðslistir og standa straum af öðrum verkefnum sem falla undir hlutverk og starfsemi á sviði sviðslista með úthlutun fjár úr sjóðnum til atvinnuhópa.

Sviðslistaráð skipa: Hrefna Hallgrímsdóttir formaður, án tilnefningar, Vigdís Másdóttir, tilnefnd af SAFAS og Agnar Jón Egilsson, tilnefndur af SAFAS

*Birt með fyrirvara um villur.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica