Epi-Tight – verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

21.10.2019

Yfir stuðningstímann hefur EpiEndo Pharmaceuticals komið á sambandi við aðila úr frumlyfjaþróunariðnaðnum í Skandinavíu, Evrópu og víðar, skapað sér tengslanet og myndað bæði stjórnunar- og ráðgjafateymi sem samstanda af innlendum forsvarsmönnum félagsins sem og erlendum fagaðilum með leiðandi sérþekkingu og reynslu í málaflokknum. 

Hið íslenska frumlyfjaþróunarfyrirtæki, EpiEndo Phamaceuticals, hefur lokið við forklíníska þróun á nýju lyfjaefni sem fyrirhugað er að nota til að meðhöndla öndunarvegasjúkdóma í mönnum. Vísindalegar frumforsendur þróunar EpiEndo eru byltingakenndar innan sviðs öndunarfærasjúkdóma og mun lyfjalausn EpiEndo geta valdið straumhvörfum í meðferð þeirra með því að ná fram verulega aukinni sjúkdómsbót miðað við þau lyf sem fyrir eru á markaði með ódýrari og skilvirkari hætti. Nánast öll lyf á markaði við öndunarvegavandamálum eru á formi innöndunarlyfja en lyf EpiEndo verður gefið á töfluformi til inntöku um munn án raunmikillar áhættu á hamlandi aukaverkunum en lyf á töfluformi eru umtalsvert ódýrari í framleiðslu og mun einfaldari í notkun fyrir neytendur heldur en lyf á innöndunarformi. Stefna lyfjaþróunar EpiEndo er að koma lyfinu í gegnum fyrstu sjúklingarannsóknir frumlyfjaþróunarinnar eða svokallaðar annars fasa klínískar rannsóknir á næstu 5 árum eða fyrir lok árs 2024.

Fyrirtækið var stofnað árið 2014 og hefur notið stuðnings Tækniþróunarsjóðs frá því fljótlega eftir stofnun þess. Fyrst gegnum Frumkvöðlastyrk en síðar gegnum verkefnastyrki til innri verkefna og styrk til hagnýtra rannsóknarverkefna milli iðnaðarins og háskólanna. Að öðru leyti hefur fyrirtækið aflað sér þróunarfjár með sölu hlutabréfa til einkafjárfesta sem og að fjárfestingasjóðir hafa einnig haft aðkomu að fjármögnun félagsins. Yfir stuðningstímann hefur EpiEndo Pharmaceuticals komið á sambandi við aðila úr frumlyfjaþróunariðnaðnum í Skandinavíu, Evrópu og víðar, skapað sér tengslanet og myndað bæði stjórnunar- og ráðgjafateymi sem samstanda af innlendum forsvarsmönnum félagsins sem og erlendum fagaðilum með leiðandi sérþekkingu og reynslu í málaflokknum.

Þennan mikla árangur íslenskra lækna og vísindafólks í vöruþróun fyrir einn af stærstu fjölþjóðamörkuðum heims ber ekki síst að þakka stuðning Tækniþróunarsjóðs og Rannís og hefur styrkfé numið tæpum þriðjungi af fjármögnun félagsins fram til þessa. Hefur stuðningurinn gert það að verkum að frumkvöðull og annað upphafsfólk hafa haldið sinni stöðu sem leiðtogar félagsins og geta stýrt af frelsi forklínískum rannsóknum þvert á hefðir og ríkjandi kenningar. Enn fremur hefur forsvarsfólk félagsins hannað fyrirhugaðar klínískar prófanir í sjúklingum í samráði við leiðandi álitsgjafa þannig að vegferðin öll ber skírt með sér sérstæði hinnar læknisfræðilegu nýsköpunarhugsjónar sem skapað hefur EpiEndo brautargengi til þessa dags og grundvallað væntingar um velgengni þess til framtíðar.

Heiti verkefnis: Epi-Tight
Verkefnisstjóri: Jón Birgir Magnússon
Styrkþegi: EPI-ENDO Pharmaceuticals ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Fjöldi styrkára: 3
Fjárhæð styrks: 45 millj. kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica