Memaxi Central – rafræn samskiptamiðstöð – verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

25.2.2020

Memaxi er bylting í samskiptum og skipulagi þar sem snjalltækni er nýtt til hins ýtrasta og öllum hlutaðeigandi er haldið upplýstum hvar og hvenær sem er. 

Memaxi ehf. er nýsköpunarfyrirtæki í velferðarþjónustu og hefur undanfarin ár unnið að þróun samskipta- og skipulagslausnar í velferðarþjónustu. Notendur Memaxi eru þjónustuþegar sem njóta langtímaaðstoðar og umönnunar, aðstandendur þeirra og þjónustuveitendur frá sveitarfélögum og ríki. Memaxi er bylting í samskiptum og skipulagi þar sem snjalltækni er nýtt til hins ýtrasta og öllum hlutaðeigandi er haldið upplýstum hvar og hvenær sem er. Nauðsynlegar upplýsingar eru aðgengilegar þegar aðstoðin er veitt sem eykur gæði, skilvirkni og samfellu.

Memaxi hefur tvívegis hlotið hæsta styrk Tækniþróunarsjóðs Rannís. Árin 2014-2017 var unnið að Memaxi HOME fyrir fjölskyldur og 2017-2019 var sjónum beint að þjónustuveitendum í velferðarþjónustu. Vinnuumhverfi þeirra og samskipti voru kortlögð með því markmiði að láta af gömlu verklagi á pappír, veita starfsfólki betra og fljótlegra aðgengi að upplýsingum, stytta boðleiðir milli þjónustuveitenda og samtengja sérhæfð hugbúnaðarkerfi. Memaxi CENTRAL, miðstöð skipulags og samskipta í velferðarþjónustu, hefur nú litið dagsins ljós og hefur verið innleidd á fjölda starfsstöðva, s.s. í dagþjálfunum eldri borgara og fatlaðra, búsetukjörnum, á hjúkrunarheimilum, vernduðum vinnustöðum og í heimahjúkrun sem nota myndsamtöl Memaxi til að auka samskipti við skjólstæðinga.

Eigendur og starfsmenn Memaxi hafa mikla reynslu af umönnun ástvina og byggir hugmyndin á þeim hindrunum og áskorunum sem slík umönnun hefur í för með sér. Leiðarljós Memaxi hefur ávallt verið að þjónustuþeginn sé í forgrunni og vel upplýstur um gang mála með einföldum upplýsingaskjá, að aðstandendur séu virkir þátttakendur og að þjónustuveitendur veiti samþætta, skilvirka og persónumiðaða þjónustu svo þjónustuþegar geti verið sem lengst í sjálfstæðri búsetu eða í sem hagkvæmustu búsetuúrræðum.

Næstu skref Memaxi eru markaðssetning og sala Memaxi Central lausnarinnar til starfsstöðva og stofnana í velferðarþjónustu á Íslandi og á erlendum mörkuðum ásamt áframhaldandi þróun í nánu samstarfi við notendur.

Nánari upplýsingar er að finna á www.memaxi.is

Heiti verkefnis: Memaxi Central - rafræn samskiptamiðstöð
Verkefnisstjóri: Ingunn Ingimarsdóttir
Styrkþegi: Memaxi ehf.
Tegund styrks: Vöxtur
Fjöldi styrkára: 2
Fjárhæð styrks: 50 millj. kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica