Öryggiskrossinn – Merkingar fyrir flugbrautir - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

5.8.2021

Öryggiskrossinn (e. The Safety Kross) er ný tegund merkinga til að loka flugbrautum og akbrautum flugvalla tímabundið. Varan er hönnuð og handunnin hér á landi úr nýstárlegum en gamalreyndum efnivið – neti sem venjulega er notað til fiskveiða. Einkaleyfi hefur fengist fyrir vörunni hér á landi og er einkaleyfisumsókn fyrir Bandaríkjamarkað í ferli. 

Mikil þörf er fyrir vöru sem þessa á flugvöllum um allan heim enda gríðarleg aukning í flugsamgöngum á síðustu áratugum sem kallar á stöðugar endurbætur flug- og akbrauta. Slíkar endurbætur þurfa að uppfylla ströng skilyrði sem alþjóðlegar flugreglugerðir kveða á um, en erfitt hefur verið að uppfylla með þeim lausnum sem eru á markaði. Oftast eru merkingarnar málaðar á flugbrautirnar en því fylgir sá ókostur að það þarf að mála og fjarlægja málninguna endurtekið á meðan framkvæmdum stendur. Það er bæði mengandi fyrir umhverfið og styttir endingartíma brautanna. Öryggiskrossinn uppfyllir ákvæði reglugerða, er umhverfisvænn, margnota og einfaldur í notkun. Logo tækniþróunarsjóðs

Nú með stuðningi frá Tækniþróunarsjóði hafa verið gerðar víðtækar prófanir á vörunni og endanleg hönnun hennar þróuð. Í ljósi þeirra aðstæðna sem varan er notuð í, var nauðsynlegt að kanna og sýna fram á öryggi hennar við mismunandi veðurskilyrði. Efniviðurinn er í eðli sínu mjög þungur og möskvaður svo ólíklegt þótti að hann tæki í sig vind, en þó ekki hægt að fullyrða um það án prófana. Þær prófanir sem gerðar voru á Öryggiskrossinum leiddu í ljós að hann tekur alls ekki í sig vind, jafnvel þó að vindstyrkur fari yfir 30 m/sek. Það var auk þess sýnt fram á það með prófunum hversu einfalt og fljótlegt er að koma Öryggiskrossinum fyrir og taka hann saman aftur, jafnvel þó að hann sé bæði stór og þungur, en einn kross er um 140 fermetrar og tæp 200 kg. Tveir menn geta lagt krossinn út og komið honum fyrir með handafli á innan við 30 mínútum.

Allar þær prófanir sem gerðar voru sýna fram á kosti Öryggiskrossins í samanburði við aðrar lausnir á markaði. Hér á landi og víða annarsstaðar hafa merkingarnar verið málaðar og miðað við að um 10 merkingar gæti þurft til að loka einni flugbraut, er gríðarlegur tímasparnaður í því að nota Öryggiskrossinn til þess, frekar en málningarvinnu sem dæmi sem er tímafrek. Þá á eftir að líta til þess hversu umhverfisvæn varan er og hversu jákvæð áhrif hún hefur á slitlag flug- og akbrauta, því með notkun hennar er dregið úr þörf á viðhaldsframkvæmdum, á meðan slík þörf eykst gjarnan með öðrum lausnum. Krafan um umhverfisvernd er að aukast í sífellu, í flugrekstri sem og annarsstaðar, og styður Öryggiskrossinn mjög vel við þá þróun.

Endanleg hönnun Öryggiskrossins er tilbúin og næst stendur til að koma honum á markað erlendis. Það er stuðningur Tækniþróunarsjóðs við verkefnið, niðurstöður þess og afrakstur sem gera það mögulegt að hefja markaðssetningu, sölu og framleiðslu á Öryggiskrossinum sem á vonandi eftir að verða ein af útflutningsvörum Íslands, þekkt um allan heim.

HEITI VERKEFNIS: Öryggiskrossinn – Merkingar fyrir flugbrautir 

Verkefnisstjóri: Hanna María Kristjánsdóttir

Styrkþegi: Mannvirki og malbik ehf.

Tegund styrks: Sproti

Fjöldi styrkára: 1

Fjárhæð styrks: 10.000.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica