Rafsegulrafall - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

30.9.2020

Laki Power var stofnað árið 2015 með það að markmiði að umbylta eftirliti raforkukerfa. 

Logo tækniþróunarsjóðs

Flutnings- og dreifikerfi raforku á heimsvísu eru milljónir kílómetra að lengd. Aðgangur að rafmagni frá rafveitu er hins vegar víðast hvar takmarkaður. Rekstraraðilar flutnings- og dreifikerfa þurfa að fylgjast náið með ástandi háspennulína og þurfa að aflfæða þann eftirlitsbúnað sem notaður er. Þær lausnir sem standa þeim til boða eru rafstöðvar sem nota jarðefnaeldsneyti, vindmyllur, sólarsellur eða raffæðing um langar leiðir frá lágspennu rafdreifikerfi. Fjölmargir annmarkar eru á notkun þessara lausna, t.d. varðandi umhverfismál. Þar að auki eru kostnaðar- og rekstrarlegir þættir sem valda því að þær eru notaðar í afar takmörkuðum mæli.  

Laki Power hefur þróað eftirlitskerfi, LKX-201, sem er einstakt og byggir á PowerGRAB-tækni félagsins sem vinnur raforku frá háspennulínum án þess að tengjast þeim beint raffræðilega. Það er gert með því að nýta sterkt rafsegulsvið sem umlykur háspennulínur. Tæknin er afar vistvæn og skilar nægu afli svo aflfæða megi hverskyns tæki og búnað, t.d. fjarskipta- og eftirlitsbúnað. Aflið sem PowerGRAB-tæknin skilar er allt að 100 sinnum meira en aðrar samanburðarhæfar lausnir á markaði.

Tækniþróunarsjóður hefur styrkt Laka Power í þróun og prófunum á PowerGRAB-tækninni sem og LKX-201 eftirlitskerfinu og í dag eru tvær frumgerðir kerfisins í notkun í íslenska raforkukerfinu. Kerfið býður uppá áður óþekkta möguleika í rauntímaeftirliti sem hafa í för með sér lægri rekstrarkostnað, betri nýtingu innviða og aukið rekstraröryggi.

Nánari upplýsingar er að finna á www.lakipower.com

Heiti verkefnis: Rafsegulrafall 
Verkefnisstjóri: Sigurjón Magnússon
Styrkþegi: Laki Power ehf.
Tegund styrks: styrkur: Vöxtur

Fjöldi styrkára: 2 
Fjárhæð styrks: 50 millj. kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica