Tækniþróunarsjóður úthlutar 3,3 milljörðum til nýrra verkefna á árinu

8.12.2021

Haustúthlutunin fer fram í beinni útsendingu frá Grósku fimmtudaginn 9. desember nk. kl. 15:00-15:30.

Stjórn Tækniþróunarsjóðs hefur lokið síðari úthlutun ársins til nýsköpunarverkefna einstaklinga, fyrirtækja og háskóla. Alls hefur sjóðurinn ákveðið að ganga til samninga við 146 verkefni á árinu fyrir tæplega 3,1 milljarð króna. Auk þess styrkir sjóðurinn íslenska þátttakendur í 6 alþjóðlegum verkefnum þannig að heildarupphæðin er rúmlega 3,3 milljarðar króna. Stuðningur sjóðsins til verkefnanna getur verið frá einu ári til allt að þriggja ára. Árangurshlutfall styrktra verkefna af heildarfjölda umsókna hefur aukist verulega frá síðasta ári og fer úr 15% í 19%.

Í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs var framlag til sjóðsins á síðustu fjárlögum aukin um tæplega 60% frá fjárlögum 2020 sem gerir sjóðnum kleift að styðja enn betur við þá miklu grósku sem er í nýsköpun á landinu. Úthlutun ársins er sú langstærsta í sögu sjóðsins.

Tækniþróunarsjóður heldur uppskeruhátíð í Grósku 9. desember nk. til að fagna haustúthlutun sjóðsins þar sem nýir styrkþegar eru boðnir velkomnir til samstarfs við sjóðinn. 

Dagskrá:

  • Ágúst Hjörtur Ingþórsson fundarstjóri, sviðsstjóri rannsókna- og nýsköpunarsviðs Rannís, býður gesti velkomna
  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra vísinda, iðnaðar og nýsköpunar ávarpar fundinn 
  • Tryggvi Þorgeirsson, formaður stjórnar Tækniþróunarsjóðs gerir grein fyrir haustúthlutun
  • Kynning á tveimur fyrirtækjum sem hljóta styrk
  • Að ná langt með aðstoð Tækniþróunarsjóðs:
    • Kynning á DAFNA sem veitir stuðning við verkefni sem fá styrk til að hjálpa þeim til við að dafna

Streymi frá Grósku








Þetta vefsvæði byggir á Eplica