Vistvænar kælipakkningar með sauðfjárull - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

26.10.2020

Árlega falla til hér á landi um 1000 tonn af sauðfjárull. Af fyrrgreindu ullarmagni flokkast um það bil 40-50% sem 1. flokks ull, er nýtist til framleiðslu á ullarbandi. Afgangurinn flokkast sem 2. flokks ull eða úrgangsull og selst annaðhvort á mjög lágu verði erlendis eða er fleygt. 

Verkefnið Vistvænar kælipakkningar með sauðfjárull er nú lokið og hefur markmiðum þess verið náð. Megin markmið verkefnisins var þróun einangrunarfóðringa úr 2. flokks- og úrgangs sauðfjárull til notkunar í vistvænar kælipakkningar til pökkunar á ferskum fiski sem þarfnast stöðugrar kælingar á flutningstíma. Undirmarkmið verkefnisins var að skapa nýja þekkingu varðandi nýtingarmöguleika sauðfjárullar og sýna fram á möguleika á virðisaukandi framleiðslu innan hringrásarhagkerfisins.Logo tækniþróunarsjóðs

Niðurstöður verkefnisins sýna fram á, að unnt er að nýta með virðisaukandi hætti alla þá sauðfjárull er fellur til hér á landi og ekki nýtist til ullarbandsframleiðslu, til framleiðslu á einangrunarfóðringum í umhverfisvænar pakkningar til útflutnings á t.d. ferskum fiski. Mælingar staðfesta að einangrunargildi ullarinnar uppfyllir öll skilyrði um viðhald hitastigs í flutningum, samhliða því sem mikil spörun á sér stað í notkun íss og þar með í flutningskostnaði. Nú vinnur Cool Wool ehf., styrkþegi verkefnisins, í samstarfi við þýsku rannsóknarstofnunina Fraunhaufer og nokkur íslensk og færeysk fiskeldisfyrirtæki, ásamt þýskum pökkunarfyrirtækjum að endanlegri þróun pakkninganna ásamt útfærslu á sjálfvirknivæðingu framleiðslunar.

Cool Wool ehf þakkar Tækniþróunarjóði fyrir veittan stuðning

Sjá nánar á:  https://cool-wool.com/

HEITI VERKEFNIS: Vistvænar kælipakkningar með sauðfjárull

Verkefnisstjóri: Anna María G. Pétursdóttir

Styrkþegi: Cool Wool

Tegund styrks: Sproti

Fjöldi styrkára: 2

Fjárhæð styrks: 19.779.000 IS kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica