Skattfrádráttur rannsókna- og þróunarverkefna

Fyrir hverja?

Nýsköpunarfyrirtæki sem eru eigendur rannsókna- eða þróunarverkefna, sem þau bera sjálf fjárhagslega áhættu.

Öll fyrirtæki sem eru eigendur rannsóknar- eða þróunarverkefna sem, þau bera sjálf fjárhagslega áhættu af. Háskólar og stofnanir teljast ekki fyrirtæki í skilningi þessara laga (lög nr. 152/2009).

Sjá einnig skilgreiningu hér neðar á síðunni.

Til hvers?

Markmiðið er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja með því að veita þeim rétt til skattfrádráttar vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni.

Umsóknarfrestur: 

  • Umsóknarfrestur rennur út 1. október fyrir ný verkefni klukkan 23:59

  • Verður1. apríl fyrir framhaldsverkefni klukkan 23:59.

EN

Umsókn

Rannís ákvarðar hvort verkefni hlýtur staðfestingu samkvæmt skv. lögum nr. 152/2009.

Sækja skal um staðfestingu vegna nýrra verkefna til Rannís, til eins árs í senn, eigi síðar en 1. október. Nái verkefnið á milli ára má sækja um framhald þess eigi síðar en 1. apríl á næsta ári þar á eftir.
Sótt er um verkefni í umsóknarkerfi Rannís og skal umsókn afhent á því formi sem Rannís ákveður. Með umsókn skal fylgja greinargóð lýsing á verkefninu ásamt verk- og kostnaðaráætlun.Nauðsynlegt er að skila eftirfarandi umsóknargögnum með umsóknum:

Nauðsynlegt er að skila eftirfarandi umsóknargögnum með umsóknum:

  • Sjálfsmati með staðfestingu endurskoðanda fyrirtækisins á stærðaflokkun fyrirtækisins, ef um er að ræða lítið eða meðalstórt fyrirtæki sem er hluti af samstæðu, heyrir undir móðurfélag eða á eitt eða fleiri dótturfélög. (Sjá nánar undir hugtakið (SME) neðar á síðunni)
  • Síðasti ársreikningur (og tveggja síðustu ára sé fyrirtækið stórt).
  • Samstarfssamningi ef um samstarfsverkefni er að ræða.
  • Einnig er æskilegt eftir aðstæðum (t.d. flækjustigi) að skila inn myndum til skýringar á þeirri afurð sem verkefninu er ætlað á skila.

Skilyrði staðfestingar

Skilyrði þess að verkefni hljóti staðfestingu er að það teljist rannsóknar- eða þróunarverkefni samkvæmt lögum og einnig:

  1. að hugmynd að virðisaukandi vöru/þjónustu og viðskiptaáætlun sé vel skilgreind, og
  2. að fram komi töluleg markmið um áhrif á rekstrartekjur/ útflutning, störf og/eða annan virðisauka nýsköpunarfyrirtækis sem verði til vegna verkefnisins á líftíma afurða þess, ásamt áætlun um markaðssetningu og forsendum hennar, og
  3. starfsmenn nýsköpunarfyrirtækis hafi sérfræðimenntun, þjálfun eða reynslu á þeim fagsviðum sem hugmynd að virðisaukandi vöru, þjónustu eða framleiðsluaðferð byggist á.

Hvernig fer greiðsla fram?

Fyrirtæki sem hafa fengið staðfestingu Rannís á rannsókna- eða þróunarverkefni eiga rétt á frádrætti á tekjuskatti til eins árs í senn. Skilyrði frádráttar er að kostnaði vegna hvers rannsóknar- og þróunarverkefnis sé haldið aðgreindum frá öðrum útgjöldum nýsköpunarfyrirtækis og að gögn séu aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess, sbr. X. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Til þess að virkja rétt til frádráttar þarf fyrirtækið að gera grein fyrir kostnaði vegna rannsókna og þróunar í fylgiskjali með skattframtali á þann hátt sem ríkisskattstjóri ákveður (Eyðublað RSK 4.21). Kostnaðargreinargerð skal árituð af endurskoðanda, skoðunarmanni eða viðurkenndum bókara.

Sé álagður tekjuskattur lægri en ákvarðaður frádráttur, eða lögaðila ekki ákvarðaður tekjuskattur vegna skattalegs taps, þá er frádrátturinn greiddur út.

Endurgreiðsla skattfrádráttar rannsókna- og þróunarverkefnis við álagningu lögaðila, alla jafnan í byrjun nóvember ár hvert, eftir skil á skattskýrslu undangengis árs.  

Skilgreining á hugtakinu fyrirtæki (árétting)

Fjármálaráðuneytið hefur óskað eftir því við Rannís að árétta við umsækjendur í tengslum við lög nr. 152/2009 að: Tveir eða fleiri lögaðilar geta talist ein rekstrareining með tilliti til beitingar reglna um ríkisaðstoð og þegar þannig stendur á telst sú rekstrareining fyrirtækið sem horfa ber til. Mat á því hvort lögaðilar séu tengdir með þessum hætti er háð atriðum á borð við ráðandi eignarhlut og önnur rekstrarleg, fjárhagsleg og skipulagsleg tengsl eins og tilgreint er í viðauka við GBER sem vísað er til í lögunum.

Ekki er nóg að horfa til rekstrarforms aðila eins og ella mætti ráða af 3. tölul. 3. gr. laganna en í því ákvæði er vísað í lög um tekjuskatt, þ.e. 1. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. þeirra laga. Ríkisaðstoðarkerfið sækir stoð sína til Evrópuréttar líkt og kveðið er á um í lögskýringargögnum laganna og vísað er til í 1. mgr. 15. gr. Hugtakið fyrirtæki verður í samræmi við það að túlka sem rekstrareiningu / efnahagslega einingu (e. economic unit) þegar lagt er mat á hámarksfjárhæðir.

Sjá í þessu sambandi einnig leiðbeiningar frá framkvæmdastjórn ESB um veitingu aðstoðar á grundvelli GBER:

„In accordance with the case law, an undertaking is defined as a single economic entity having a common source of control. Therefore, as long as the group acts as a single economic unit, it shall be considered as one undertaking and the economic situation of all the legal persons part of the group shall be considered when granting aid under the GBER.“

Hugtakið lítið og meðalstórt fyrirtæki (SME) í tengslum við framangreind hámörk og endurgreiðsluhlutföll

Þegar hámörk og endurgreiðsluhlutföll eru ákvörðuð, er áréttað að horfa þarf til heildarsamstæðu og eignarhalds þess fyrirtækis sem sækir um og hvort önnur fyrirtæki innan sömu samstæðu sækja einnig um skattfrádrátt.

Rannís leggur til að umsækjendur fari í gegnum sjálfsmat/útreikninga til að sannreyna rétta stærðaflokkun fyrirtækisins. Hægt er að nálgast rétta skilgreiningu og verklag til staðfestingar á stærð fyrirtækisins, á neðangreindum veftenglum (kemur einnig sjálfvirkt fram í umsókn).

Skoða sjálfsmat/útreikninga

Einnig er vert að kynna sér vel skilgreiningu ESB/ESA á SME á vef ESB.

Skoða skilgreiningu ESB/ESA

Skilgreining á hugtakinu „fyrirtæki í fjárhagsvanda“ (skv. 2. gr. reglugerðar 758/2011)

Fyrirtæki telst eiga í fjárhagsvanda ef a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum er uppfyllt:

  1. Um er að ræða félag með takmarkaðri ábyrgð og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi. Þessi töluliður á ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt og starfsemi þess hefur staðið yfir í þrjú ár eða skemur.
  2. Um er að ræða félag þar sem a.m.k. einn aðili ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi. Þessi töluliður á ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt og starfsemi þess hefur staðið yfir í þrjú ár eða skemur.
  3. Um er að ræða fyrirtæki sem sætir gjaldþrotameðferð eða uppfyllir skilyrði um að vera tekið til gjaldþrotameðferðar að beiðni kröfuhafa..
  4. Um er að ræða fyrirtæki sem hefur fengið björgunaraðstoð í skilningi leiðbeinandi reglna ESA um björgun og endurskipulagningu fyrirtækja, og hefur enn ekki endurgreitt lánið eða aflétt ábyrgðinni eða hefur fengið aðstoð til endurskipulagningar og er því enn bundið af samþykktri áætlun um endurskipulagningu.
  5. Um er að ræða fyrirtæki sem hvorki er lítið né meðalstórt og hefur uppfyllt eftirtalin skilyrði síðustu tvö reikningsár:
    1. hlutfall milli bókfærðra skulda fyrirtækisins og eigin fjár hefur verið hærra en 7,5 og
    2. hagnaður fyrir afskriftir og vexti (EBITDA) nemur lægri fjárhæð en nettófjármagnskostnaður ársins.

Breytingar á lögum nr. 152/2009 og reglugerð nr. 758/2011 sem tóku gildi í árslok 2024

  1.  Lög nr. 152/2009 um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki gilda um fyrirtæki, sem eru lögaðilar skv. 1. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, stunda rannsóknir eða þróun samkvæmt lögum þessum og eru eigendur rannsóknar- eða þróunarverkefna, sem þau bera sjálf fjárhagslega áhættu af, sbr. 1. mg. 2. gr. og 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Í fjárhagslegri áhættu nýsköpunarfyrirtækis felst að fyrirtæki sem eigandi staðfests verkefnis eða ótengdir eigendur í samstarfsverkefni skulu bera fjárhagslega áhættu af verkefninu við fjármögnun þess, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1666/2024, um breytingu á reglugerð um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 758/2011.
  2. Skv. breytingu á 5. gr. laga nr. 152/2009 er óheimilt að framlengja umsókn um sama verkefni sem fengið hefur staðfestingu skv. 1. mgr. oftar en þrisvar. Ef sama verkefni hefur fengið framlengingu í þrígang getur umsækjandi sótt um staðfestingu á nýju verkefni sem byggist á fyrra verkefni ef sýnt er fram á að áfangamarkmiðum hafi sannanlega verið náð og nýtt verkefni byggist á þeim árangri.
  3. Skv. 2. gr. reglugerðar nr. 1666/2024 um breytingu á reglugerð um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 758/2011 skulu með umsókn fylgja gögn sem sýna fram á að starfsmenn nýsköpunarfyrirtækis hafi sérfræðimenntun, þjálfun eða reynslu á þeim fagsviðum sem hugmynd að virðisaukandi vöru, þjónustu eða framleiðsluaðferð byggist á.
  4. Eftir breytingu á 5. gr. laganna er gerð krafa um að fram komi töluleg markmið um áhrif á rekstrartekjur/ útflutning, störf og/eða annan virðisauka nýsköpunarfyrirtækis sem verði til vegna verkefnisins á líftíma afurða þess, ásamt áætlun um markaðssetningu og forsendum hennar.
  5. Skv. breytingum á 10. gr. laganna er frádráttur vegna aðkeyptrar þjónustu aðeins heimill þegar þjónusta vegna rannsóknar- og/eða þróunarverkefnis er keypt af fyrirtækjum á Evrópska efnahagssvæðinu eða í ríkjum sem Ísland hefur gert tvísköttunar- eða upplýsingaskiptasamning við.
  6. Til samanlagðs opinbers stuðnings teljast styrkir frá innlendum sem erlendum opinberum aðilum, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 1666/2024 um breytingu á reglugerð um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 758/2011.
  7. Skv. breytingum á 10. gr. laganna skal hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti vera samtals 1.100.000.000 kr. á rekstrarári, þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 20 hundraðshluta vegna aðkeyptrar rannsóknar- og/eða þróunarvinnu skv. 6. gr.
  8. Fyrirtæki telst eiga í fjárhagsvanda ef a.m.k. eitt af skilyrðum varðandi fjárhagsvanda er uppfyllt á umsóknardegi, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 758/2011 og g-liður 2. gr. reglugerðar nr. 1666/2024.
  9. Skv. 2. mgr. 8. gr. laganna er ríkisskattstjóra samkvæmt beiðni eða að eigin frumkvæði heimilt að veita Rannís tiltækar upplýsingar um umsækjanda sem skipta máli við afgreiðslu umsóknar. Sama á við um upplýsingar í tengslum við eftirfylgni með staðfestum verkefnum um hvort forsendur hafi breyst. 
  10. Skv. breytingum á 5. gr. laga nr. 152/2009 getur Rannís afturkallað staðfestingu skv. 1. mgr. ef umsókn um verkefni byggðist á röngum og villandi upplýsingum þannig að staðfesting hefði ekki verið veitt ef réttar upplýsingar hefðu legið fyrir. Afturköllun samþykkis getur tekið til yfirstandandi og síðustu tveggja tekjuára.
  11. Skv. f-lið 2. gr. reglugerðar nr. 1666/2024 um breytingu á reglugerð um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki nr. 758/2011 fylgi umsókn ekki fullnægjandi gögn eða upplýsingar samkvæmt reglugerð þessari og eftir atvikum leiðbeiningum Rannís skal hafna henni.
  12. Skv. breytingum á lögum nr. 152/2009 sé af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi talið rangt eða villandi fram í von um að nýsköpunarfyrirtæki fái notið skattfrádráttar skv. 10. gr. skal fara með slíkt brot skv. 8. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sbr. gr. 15.a. í IV. kafla Ýmis ákvæði. Sé framtalinn kostnaður byggður á tilhæfulausum eða fölsuðum gögnum sem myndað hafa grundvöll fyrir útgreiðslu skattfrádráttar skv. 2. málsl. 11. gr. skal fara með slík brot samkvæmt almennum hegningarlögum. Ákvæði 109. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, skulu að öðru leyti taka til brota á lögum þessum.

Kynningarmyndband

Kynning á skattfrádrætti








Þetta vefsvæði byggir á Eplica