Vinnustaða­náms­sjóður

vinnustadanamssjodur(hja)rannis.is

Fyrir hvern?

Fyrirtæki og stofnanir vegna vinnustaðanáms nema í iðnnámi eða öðru námi á framhaldsskólastigi þar sem vinnustaðanám og starfsþjálfun er skilgreindur hluti námsins.  Markmið sjóðsins er að hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að taka við nemendum og gera þeim kleift að ljúka tilskildu vinnustaðanámi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla.

Til hvers?

Að stuðla að eflingu vinnustaðanáms og fjölga tækifærum nema til starfsþjálfunar.

Lengri frestur var veittur til að senda inn umsóknir. Upphaflegur frestur var til 7. nóvember 2023 kl. 15:00 en nýr frestur var framlengdur til 10. nóvember kl. 15:00.
Hægt var að sækja um styrk fyrir nema vegna tímabilsins 1. janúar 2023 til 31. október 2023.

Senda fyrirspurn

Sjá nánar um úthlutunarferlið.

EN

 

Breytingar í úthlutun 2023

Á árinu 2023 verður sú breyting að ekki er styrkt fyrir vinnu nema allt árið eins og fyrri ár. Tímabilið sem nú verður hægt að sækja um er frá 1. janúar 2023 til 31. október 2023. Nóvember og desember verða til úthlutunar á árinu 2024. 

Hvert er markmiðið?

Vinnustaðanámssjóður er starfræktur samkvæmt lögum nr. 71/2012 um vinnustaðanámssjóð. Markmið styrkja til vinnustaðanáms eða starfsþjálfunar er að hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að taka við nemendum sem stunda vinnustaðanám sem hluta af námi á framhaldsskólastigi og gera þeim kleift að ljúka tilskildu vinnustaðanámi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Styrkir til vinnustaðanáms eru veittir á grundvelli ákvörðunar um framlög á fjárlögum hvers árs. 

Hverjir geta sótt um?

Rétt til að sækja um styrk eiga fyrirtæki og stofnanir sem uppfylla almenn skilyrði gildandi reglugerðar um námssamninga og starfsþjálfun um hæfi til þess að annast nemendur í starfsnámi. Þeir skulu hafa á að skipa hæfum tilsjónaraðila sem ber ábyrgð á námi nemanda á vinnustað.  

Aðeins eru veittir styrkir til náms- eða starfsþjálfunar í greinum á grundvelli aðalnámsskrár framhaldskóla. Um er að ræða löggiltar iðngreinar og heilbrigðis-, félags- og umönnunargreinar.

Hvað er styrkt?

Veittir eru styrkir til þeirra sem uppfylla skilyrði; grunngjald fyrir hverja viku sem nemandi er í vinnustaðanámi. Styrkur fyrir hvern nema er veittur að hámarki til 48 vikna fyrir árið allt, þó aldrei lengur en sem nemur þeim heildartíma sem krafist er í vinnustaðanámi fyrir viðkomandi nám.

Náms- eða starfsþjálfunarsamningur skal vera fyrirliggjandi fyrir hvern nema og skal í lok tímabils sýna fram á að nemar hafi sannanlega tekið þátt í vinnustaðanámi eða starfsþjálfun. 

Styrkir til vinnustaðanáms eru veittir á grundvelli ákvörðunar um framlög á fjárlögum hvers árs.  Fjárhæð styrkja ræðst því af framlögum á fjárlögum til málaflokksins og eftirspurn. Stjórn vinnustaðanámssjóðs tekur ákvörðun um veitingu styrkja og hefur eftirlit með nýtingu fjármuna sjóðsins.

Skilyrði úthlutunar

Almenn skilyrði gildandi reglugerðar um námssamninga og starfsþjálfun um hæfi til þess að annast nemendur í starfsnámi. Þeir skulu hafa á að skipa hæfum tilsjónaraðila með náminu og námssamningur og starfsþjálfunarsamningur skulu vera fyrirliggjandi. Sækja þarf um í gegnum umsóknarkerfi Rannís.

Nánari upplýsingar

  • Skúli Leifsson, s. 5155843
  • Tekið er á móti fyrirspurnum á vinnustadanamssjodur(hja)rannis.isÞetta vefsvæði byggir á Eplica