Sidekick Health hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2022

  • B93A6021_1698408738598

Nýsköpunarverðlaun Íslands 2022 voru afhent á Nýsköpunarþingi í Grósku. Sidekick Health hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2022.

Tryggvi Þorgeirsson, læknir og forstjóri Sidekick Health veittI verðlaununum viðtöku úr hendi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Nýsköpunarþingið var haldið í Grósku undir yfirskriftinni Hugvitið út – hvernig verður hugvit stærsta útflutningsgrein Íslands?

Sidekick Health þróar og markaðssetur stafrænar heilbrigðismeðferðir í samstarfi við stærstu lyfja- og sjúkratryggingafélög í Evrópu og Bandaríkjunum. Þar á meðal eru alþjóðlegu lyfjafyrirtækin Pfizer, Bayer og Eli Lilly auk Elevance Health, sem er annað stærsta sjúkratryggingafélag Bandaríkjanna. Markmið félagsins er að styðja við sjúklinga utan veggja heilbrigðiskerfisins, draga úr álagi á heilbrigðisstarfsfólk og auka virkni hefðbundinna heilbrigðismeðferða. Sidekick vinnur einnig að rannsóknarverkefnum í nánu samstarfi við heilbrigðisstofnanir hérlendis og erlendis.

Rökstuðningur dómnefndar:

Sidekick Health er nýsköpunarfyrirtæki sem einbeitir sér að nýsköpun sem leiðir til mikils samfélagslegs ávinnings í gegnum bætta heilsu fólks. Nálgun þeirra hefur sýnt árangur og vakið athygli stórra aðila sem hafa unnið með fyrirtækinu og þannig tryggt grundvöll þess. Félagið býr að mikill þekkingu og reynslu sem hefur leitt af sér öflugt þróunarstarf innanlands.

Sidekick Health er fyrirtæki sem hefur vaxið hratt undanfarin ár en árið 2019 störfuðu 10 manns hjá félaginu en í dag starfa tæplega 190 manns hjá fyrirtækinu. Framundan er áframhaldandi þróun á lausninni hér á landi í samstarfi við erlenda og innlenda aðila. Framtíð fyrirtækisins er björt með frekari vexti og fjölgun sérhæfðra starfa.

Félagið mun áfram sinna mikilvægu þróunarstarfi hérlendis og vinna að þróun lausnarinnar til að styðja við sjúklinga með langvinna sjúkdóma, sem kosta heilbrigðiskerfi heimsins mestu fjármunina.

Það er mat dómnefndar að Sidekick Health sé verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Íslands árið 2022 og framundan séu spennandi tímar hjá fyrirtækinu, sem munu skila sér bæði í enn öflugra fyrirtæki og bættum lífsgæðum þeirra sem nota afurðir fyrirtækisins.

Nýsköpunarverðlaun Íslands

Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Hugverkastofunni og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.

Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica