Evrópumerkið / European Language Label

Fyrir hverja?

Fyrir tungumálakennara og / eða aðra sem koma að nýsköpun og tækniþróun tungumálakennslu.

Til hvers?

Menntamálaráðuneytið og Rannís veita viðurkenningu fyrir nýbreytniverkefni á sviði tungumálanáms og kennslu. Tilbúin tungumálaverkefni geta sóst eftir Evrópumerkinu sem er gæðastimpill á verkefnið.

Umsóknarfrestur

Lokað er fyrir umsóknir.

Sjá auglýsingu um umsóknarfrest 2021.

Forgangsatriði 2021-2022.

Um Evrópumerkið

Menntamálaráðuneyti tekur þátt í samstarfi á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um European Language Label eða Evrópumerkið, sem er viðurkenning fyrir nýbreytniverkefni á sviði tungumálanáms og kennslu. Veiting Evrópumerkisins er í samræmi við stefnumörkun Hvítbókar Evrópusambandsins um menntamál (Teaching and Learning, Towards the Learning Society) þar sem áhersla er meðal annars lögð á mikilvægi tungumálakunnáttu fyrir íbúa í löndum Evrópusambandsins og færni í þremur tungumálum sett fram sem markmið.

Viðurkenningunni er ætlað að beina athygli að frumlegum og árangursríkum verkefnum í kennslu og námi erlendra tungumála og hvetja til þess að aðferðir sem þar er beitt, nýtist sem flestum. Lögð er áhersla á að verkefnin feli í sér nýbreytni sem aðrir geti lært af og að þau séu liður í símenntun einstaklingsins.

Þátttökulönd

Eingöngu tungumál ríkja Evrópusambandsins koma til álita við veitingu viðurkenningar fyrir verkefni. Gert er ráð fyrir að undirbúningur verkefna sem sótt er um viðurkenningu fyrir sé a.m.k. á lokastigi, en almennt er þó gengið út frá því að framkvæmd þeirra sé hafin.

Að sækja um Evrópumerkið

Umsóknum er skilað rafrænt til Rannís. 

Auglýst er eftir umsóknum um Evrópumerkið á vordögum annað hvert ár. Umsóknirnar eru svo teknar til umfjöllunar af nefnd sérfræðinga í tungumálakennslu, sem síðan velja bestu verkefnin. Verðlaunaafhendingin fer fram um haust sama ár. 

Hér á landi er bæði unnt að sækja um Evrópumerkið fyrir verkefni sem unnið er að innan opinbera skólakerfisins og utan þess, s.s. í námsflokkum, málaskólum, endurmenntunarstofnunum og hjá fræðslusamtökum. 

Evrópsk viðmið sem sett hafa verið fyrir veitingu Evrópumerkisins eru eftirfarandi:

  • Verkefnið sé heildstætt, þ.e. að það beinist ekki að einum afmörkuðum þætti í námi eða kennslu heldur nái til allra þátta og feli í sér víðtæka þátttöku, nýtingu efnis og tengsl við nýja aðila.
  • Verkefnið skapi virðisauka" í hverju landi, bæði með því að auka gæði kennslu og náms og fjölda þeirra tungumála sem lögð er stund á.
  • Verkefnið sé þátttakendum hvatning til tungumálanáms.
  • Verkefnið sé frumlegt og skapandi nýbreytniverkefni.
  • Verkefnið feli í sér "Evrópuvíddina" (European dimension), þ.e. byggi á vitund um Evrópusambandið og tungumál innan þess og efli skilning á menningu viðkomandi landa.
  • Verkefnið feli í sér nýjungar í tungumálakennslu sem unnt sé að yfirfæra á aðrar aðstæður, t.d. þegar um er að ræða nám í öðrum tungumálum eða aldurshópum.

Mat umsókna og úthlutun

Í hverju þátttökulandi starfar innlend dómnefnd sem metur umsóknir og ákveður hvaða verkefni skuli hljóta Evrópumerkið. Veiting Evrópumerkisins kom að fullu til framkvæmda árið 2000. Almennt má gera ráð fyrir að annað hvert ár geti eitt íslenskt verkefni hlotið viðurkenninguna. Verðlaunahafi fær sérstakt viðurkenningarskjal ESB og verðlaunagrip frá menntamálaráðuneytinu.

Listi yfir úthlutun Evrópumerkisins frá 1999

Hlutverk Rannís

Veiting Evrópumerkisins er í höndum hvers þátttökulands en ákveðinni samræmingu hefur verið komið á um framkvæmd, svo sem um sameiginleg evrópsk viðmið og innlenda dómnefnd. Menntamálaráðuneytið hefur falið Rannís framkvæmd hér á landi.

 

Kynningarmyndband

Nánari upplýsingar
Þetta vefsvæði byggir á Eplica