Úthlutanir 2022

Hér má sjá stutt ágrip þeirra verkefna sem hlutu styrki úr Loftslagssjóði 2022. Fyrst eru listuð upp nýsköpunarverkefni og þar fyrir neðan eru kynningar- og fræðsluverkefni. Er verkefnum hvors flokks fyrir sig raðað í stafrófsröð eftir heiti verkefnis.

Nýsköpunarverkefni

AlSiment umhverfisvænn arftaki sements - Gerosion ehf.

Markmið verkefnisins er að koma á markað íslensku umhverfisvænu sementslausu AlSiment steinlími sem þjónar sama tilgangi og sement. AlSiment er ólífrænt bindiefni byggt á geopolymer tækni, en umhverfisáhrif þess eru ~70% lægri en sement (framleiðsla á tonni af losar u.þ.b. tonn af CO2). AlSiment getur þannig verið partur af baráttunni gegn loftslagsbreytingum þar sem Ísland flytur inn um 200.000 tonn af sementi árlega. Auk þess sem við þurfum að flytja allt sement til landsins í dag með tilheyrandi CO2 losun. Gerosion framkvæmdi nýlega stórskala tilraunaframleiðslu á steinlíminu í TÞS verkefninu "Binding úrgangsefna með umhverfisvænu sementslausu steinlími" sem vakti mikla athygli hjá iðnaðinum, þar sem þetta var fyrsta notkun á geopolymer sementslausu bindiefni utan tilraunastofu á Íslandi. Stefnir Gerosion á að viðhalda forskotinu með því að þróa 2 AlSiment bindiefnategundir úr íslenskum hráefnum, eina fyrir byggingariðnað og eina fyrir kögglun hráefna í orkufrekum iðnaði. Fyrir hvert prósent af sementi sem er skipt út fyrir AlSiment er hægt að draga úr CO2 losun Íslendinga um 1400 tonn. Möguleg áhrif verkefnisins á losun gróðurhúsalofttegunda eru því töluverð með því að draga verulega úr bæði umhverfisfótspori byggingariðnaðarins og stóriðjunnar.

Flæðibúr: Tæki til samfelldra mælinga á losun koltvísýrings úr jarðvegi - Ólafur Sigmar Andrésson

Markmið verkefnisins er að auka gæði mælinga á losun koltvísýrings úr lítt grónu og gróðurvana landi en hérlendis er slík losun talin nema á bilinu 1-8 milljónum tonna á ári. Síritandi mælibúrum sem nema flæði koltvísýrings samfellt um langan tíma (ólíkt þeim mælitækjum sem eru í almennri notkun) verður í samvinnu við Grólind og Landgræðsluna komið fyrir á a.m.k. 18 vöktunarreitum sem hafa litla eða enga gróðurhulu, en þar eru jafnframt gerðar reglulegar mælingar á ýmsum eðlis- og umhverfisbreytum sem hægt er að bera saman. Með flæðibúrum ætti mat á heildarlosun að verða betra, bæði hvað varðar vikmörk og nákvæmni. Þannig er líka betur hægt að uppfylla alþjóðlegar kröfur um loftslagsbókhald. Nýnæmið felst einkum í tvennu. Í fyrsta lagi að útbúa einfalda og ódýra gerð af mælibúri sem notar flæðihindrun (forced diffusion) til að meta losun koltvísýrings. Flæðibúr okkar er einfaldara en þau sem nú eru á markaði, þar sem tækið er úr ódýrum pörtum, án dælubúnaðar og rofa. Í öðru lagi verða mælingar yfir allt sumarið eða jafnvel allt árið sem gefa raunhæfari mynd af heildarlosun heldur en tiltölulega fáar punktmælingar með hefðbundnum hætti.

Innleiðing kolefnislausrar álframleiðslu - Arctus Aluminium ehf

Arctus Aluminium og Tæknisetur hafa undanfarin fimm ár unnið að þróun nýrrar álframleiðslutækni með lóðréttum málmblendi-forskautum og keramik-bakskautum sem eyðast lítið sem ekkert í 800 °C raflausn keranna. Við notum sem sagt ekki kolaskaut heldur málmblendi-forskaut og þess vegna myndast aðeins súrefni í stað koltvísýrings. Með notkun slíkra óvirkra rafskauta í álverunum hérlendis sem erlendis verður álframleiðslan mjög loftslagsvæn. Arctus og Tæknisetur hafa þegar sannreynt (proof of concept) framleiðslu hágæða áls og súrefnis í tilraunakerum í rannsóknar- og þróunarstarfi okkar. Arctus hefur gert samkomulag við þýska álframleiðandann Trimet Aluminium um að skala upp kerin með lóðréttu rafskautunum fyrir í tilraunaframleiðslu (pilot plant) svo í reyndarframleiðslu (demonstration plant) með það markmið að breyta fjórum álverum Trimet í þessa nýju kolefnislausu álframleiðslu. Markmið þessa eins árs verkefnisins er að gera fræðilega útreikninga á umhverfisvænleika og orkusparnaði kolefnislausrar álframleiðslu með lóðréttum eðal for- og bakskautum í kerum með lághita (800°C) raflausn svo á hitajafnvægi framleiðslukeranna. Niðurstöðurnar verða birtar sem vísindagrein á alþjóðlegri ráðstefnu um álframleiðslu svo og í tilheyrandi vísindaritum, sem verður áhugavert vísindalegt framlag okkar því aðeins hafa verið gerðir svipaðir útreikningar fyrir lárétt eðal forskaut sem skipt væri út fyrir kolaskaut.

Kerfisbundin innleiðing og notkun á matarsóunar forvarnartækni - GreenBytes ehf.

Frá loftlagsbreytingum til hungurs, matur er tenging alls neyðarástands sem jörðin glímir við. Það er gríðarlega mikilvægt að við framkvæmum og breiðum úr tækni sem bætir fæðukerfið okkar til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um allan heim. Ein slík úrlausn er GreenBytes, frumleg aðferð sem getur dregið úr um það bil 7.530 kg af koltvísýring á hverjum veitingastað hvert ár. GreenBytes notar vélrænan algóritma til að spá fyrir um komandi neyslu innan veitingastaða. Þessi tækni er nýtt til að stinga upp á hversu mikinn mat veitingastaður ætti að panta fyrir komandi daga og draga úr matarsóun. Algóritmi GreenBytes er breytilegur og þróast í takt við hvern og einn veitingastað. Næsta skref fyrir GreenBytes er að færa sig frá forstigi til framleiðslustigs. Markmið verkefnisins er að hafa þýðingarmikil áhrif með því að breiða úr úrlausn GreenBytes.

Það verður gert með:

 • Sjálfvirkri stýringu.
 • Því að bæta notendaupplifun.
 • Því að efla breytt viðhorfs til sjálfbærar hegðunar.

Kolefnisforði og CO2 flæði úr jarðvegi – þróun á vöktunarsamstarfi, aðferðum og tækjabúnaði - Náttúrustofa Suðausturlands ses.

Verkefnið er þróun á vöktunarsamstarfi, aðferðum og tækjabúnaði og er framhald á verkefni sem hlaut styrk í síðustu úthlutun frá Loftslagssjóð og byggir á mælingum á kolefnisforða og CO2 flæði úr þurrlendisjarðvegi valinna landgerða í Skaftárhreppi. Til að öðlast áreiðanlegri upplýsingar í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum er mikilvægt er að safna gögnum fyrir annað ár og vaxtatímabil gróðurs til að fá breytileika í losun á milli ára, og árferðis. Einnig verða aðferðir straumlínulagaðar og tækjabúnaður efldur ásamt því að bætt verður við mælingum á enn fleiri vistlendum innan úthaga-landflokks loftslagsbókhaldsins til að mæta kröfum um auknar mælingar á losun CO2 úr jarðvegi. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um 55% samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, og kolefnishlutleysi árið 2040. Landnotkun er einn af stærstu losunarþáttum gróðurhúsalofttegunda sem standa þarf skil á gagnvart Parísarsáttmálanum en rekja má um 65% losunar á Íslandi til landnotkunar. Stjórnvöld stefna á +515% aukningu á bindingu kolefnis vegna landnotkunar frá árinu 2005 til 2030 og því er aðkallandi að stórefla rannsóknir á umfangi þessa losunarflokks. Umfangsmesti landflokkurinn innan landnotkunar hér á landi er úthagi sem þekur um 36% þurrlendis. Veruleg óvissa ríkir þó um raunverulega losun frá landflokknum og er það mjög knýjandi að fá betri mynd af því sem þar á sér stað varðandi losun, eða bindingu, gróðurhúsalofttegunda.

Smáforrit gegn matarsóun - Humble ehf.

Smáforrit Humble er miðlægt markaðstorg sem spornar gegn matarsóun á sjálfbæran og arðbæran hátt. Matsöluaðilar geta nýtt sér smáforritið til þess að selja vörur sem nálgast síðasta söludag og boðið neytendum á lægra verði. Í smáforritinu sér notandinn yfirlit á þeim loftlagslega ábata sem það felur í sér að minnka matarsóun. Til viðbótar mun smáforritið nýtast aðilum sem þurfa á mataraðstoð að halda til að sækja sér matvæli á reisnarlegan hátt.

Kynningar- og fræðsluverkefni

Kolefnishlutlaust Ísafjarðardjúp - Blámi, félagasamtök

Markmið verkefnisins er að gera sjávartengda starfsemi í Ísafjarðardjúpi kolefnishlutlausa með því að byggja upp þekkingu á vistvænum orkugjöfum á Vestfjörðum og auka líkur á að koma af stað tilraunaverkefnum sem styðja við markmið verkefnisins. Ætlunin er að fá fyrirtæki, menntastofnanir og sveitarfélög við Ísafjarðardjúp til að hefja vinnu við að gera starfsemi í Ísafjarðardjúpi kolefnishlutlausa og nýta þá reynslu til að byggja þannig upp grunn að kolefnishlutleysi sjávartengdrar starfsemi á Íslandi. Alþingi hefur samþykkt áætlun um að hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í haftengdri starfsemi skuli vera 10% árið 2030 og árið 2050 á endurnýjanlegt eldsneyti að vera búið að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi. Í nýjum stjórnarsáttmála kemur fram sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030. Því er mikilvægt að stíga fyrstu skrefin í að þróa og prófa notkun á vistvænum orkugjöfum í sjávartengdri starfsemi. Til þess þarf að fræða stjórnendur fyrirtækja og undirbúa tæknimenntað fólk, undir að sinna eftirliti og viðhaldi á slíkum orkugjöfum.

Leggjum línurnar: Menntaverkefni á vef - Kópavogsbær

Leggjum línurnar er fjölþætt menntaverkefni sem ætlað er að efla vitund nemenda í efstu bekkjum grunnskóla um loftslagsbreytingar. Nemendur vinna úr veðurgögnum frá nærumhverfi sínu og setja í samhengi við umhverfi sitt. Í kjölfarið útvíkka þeir rannsóknarsviðið yfir á heimsvísu og vinna s.k. loftlagslínur (e. climate stripes) fyrir mismunandi lönd um heim allan, auk þess sem þeir rýna ýmsa félags-, efnahags- og umhverfislega þætti í rannsóknarlöndum sínum og tengja heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Meðal leiðarljósa verkefnisins eru greinargóð fræðsla um loftslagsmál, innsýn í vísindaleg vinnubrögð með fjölbreyttri verkefnavinnu byggðri á raunverulegum gögnum, ígrundun og lausnaleit nemenda. Verkefnið myndar því samfellt ferðalag frá hinum smáa skala nærumhverfisins yfir í hinn stóra hnattræna og gefur á þann hátt m.a. góða innsýn í muninn á veðri og loftslagi. Verkefnið var lagt fyrir á haustönn 2021 með þátttöku um 400 nemenda í grunnskólum í Kópavogi. Með þessari umsókn er ætlunin að aðlaga verkefnið að rafrænu formi, þar sem alla fræðslu, leiðbeiningar, verkefni og annað má nálgast á þar til gerðum fræðsluvef. Þannig er verkefnið opnað fyrir öllum skólum landsins, kennarar verða sjálfbærir um fyrirlagningu þess og geta unnið það á eigin forsendum hvað varðar tímaramma, hópastærðir og vinnslu verkefnahluta. Vöntun er á kennsluefni um loftslagsmál, sérstaklega efni sem inniheldur verkefnavinnu byggða á raunverulegum gögnum og í opnu aðgengi fyrir skóla.

Ljúffengur matur í samhljómi við loftslagið - þverfagleg aðgerðaáætlun - Bryndís Eva Birgisdóttir

Matur snertir líf okkar á margvíslegan hátt. Matvælaframleiðsla og matarsóun eiga meðal annars stóran þátt í útblæstri gróðurhúsalofttegunda og geta haft verulega neikvæð umhverfisáhrif. Á sama tíma er mataræði sá þáttur sem helst getur haft jákvæð áhrif á lýðheilsu. Það er því mikilvægt að allir sem vinna að framgangi lýðheilsu, fæðuöryggis, loftslags- og umhverfismála á Íslandi vinni saman að nýjum lausnum og raunhæfum aðgerðum um sjálfbær fæðukerfi til framtíðar með áherslu á neytendur og daglegt líf þeirra. Um er að ræða öflugt samstarf stofnana, fyrirtækja, félagasamtaka og neytenda að þverfaglegu aðgerðaplani með áherslu á nýsköpun, með það að markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands er umsækjandi.

Loftslagsvænt líf á Austurlandi: Fræðslumyndbönd fyrir almenning - Austurbrú ses.

Framleiddar verða þrjár stuttar kynningarmyndir sem fjalla munu um hvernig lifa megi loftslagsvænna lífi á Austurlandi. Tilgangurinn er að auka þekkingu og skilning á loftslagsbreytingum og hvetja almenning í landshlutanum til að taka upp loftslagsvæna hegðun og draga þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda. Megin þemu hverrar myndar eru eftirfarandi: 1) Matur og matarsóun 2) Umhverfisvænn ferðamáti og 3) Endurnýting. Í myndunum verður vakin athygli á matvælaframleiðslu í nærsamfélaginu, hollustuháttum og mikilvægi rekjanleika. Fjallað verður um hvernig draga megi úr notkun einkabílsins, þá umhverfisvænu valkosti sem í boði eru og hvernig endurnýta megi ýmsan neysluvarning og framlengja líf hans. Grunnstefið í öllum myndunum er spurningin um hvað við getum sjálf gert til að takast á við þessa helstu áskorun mannkynsins. Það er gríðarstórt verkefni að draga úr losun á heimsvísu en að okkar mati er mikilvægt að setja þetta í staðbundið samhengi og þannig undirstrika mikilvægi þess að allir axli ábyrgð og sýni ábyrgð í neyslu og annarri hegðun sem hefur áhrif á losun. Stefnt er að því að hefja gerð myndanna haustið 2022 og ljúka vinnunni sumarið 2023. Myndirnar yrðu teknar til opinberrar birtingar hjá helstu stofnunum og fyrirtækjum austfirsks samfélags , í menntastofnunum, á samfélagsmiðlum og á öllum þeim vettvöngum sem við getum nýtt okkur haustið 2023.

Matvælaframleiðsla á Íslandi - hvernig má draga úr losun? - UMÍS Umhverfisráðgjöf Ísl ehf

Matvælaframleiðsla á Íslandi er stór hluti af hagkerfinu. Innan hennar eru greinar eins og landbúnaður, sjávarútvegur, matvælaiðnaður og hluti ferðaþjónustunnar. Um 25 þúsund manns starfa við matvælaframleiðslu í þessum atvinnugreinum. Matvælaframleiðsla, svo sem landbúnaður og ýmis matvælaiðnaður, er mikilvæg uppspretta gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Jafnframt hafa loftslagsbreytingar mikil og vaxandi áhrif á þær atvinnugreinar þar sem stunduð er matvælaframleiðsla. Matvælageirinn mun gegna mikilvægu hlutverki í fyrirsjáanlegri framtíð við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda t.d. með breyttri orkunotkun og bættri nýtingu náttúruauðlinda og aðfanga. Verkefnið "Matvælaframleiðsla á Íslandi – leiðir til að draga úr losun" snýst um framleiðslu á vönduðu efni þar sem fjallað er um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í matvælaframleiðslu. Meginmarkmið verkefnisins er að gera upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda í matvælaframleiðslu á Íslandi aðgengilegar og koma með raunhæfar tillögur til að minnka losun hjá fyrirtækjum í matvælageiranum. Höfuðtilgangurinn er að framleiðendur geti hagnýtt upplýsingar og umræðu til þess að bregðast við vandanum.

Orkuskiptu.is - Kynning á orkuskiptalausnum fyrir atvinnubíla - RST Net ehf.

Það getur reynst flókið að skipta yfir í nýjan orkugjafa, sérstaklega ef um er að ræða stóran bílaflota. Þess vegna er mikilvægt að miðla öllum upplýsingum um þær lausnir sem eru í boði, eins og t.d. hvaða bílar eru í boði, hvað þarf til að koma upp hleðslubúnaði fyrir þá, hvernig kemur þetta út fjárhagslega, og hvaða styrki eða ívilnanir er hægt að nýta sér. Þetta verkefni miðar að því að hver og einn sem er að íhuga orkuskipti í sínum bílaflota þurfi ekki að ráðast í slíka rannsóknarvinnu heldur geti fengið þessar upplýsingar og aðstoð á einum stað án þess að þurfa greiða fyrir það. Fyrirmynd verkefnisins er Valley Fleet Support sem er staðsett í Kaliforníu og hjálpar rekstraraðilum stórra bílaflota að skipta yfir í vistvæna bíla. Markmið verkefnisins er að árið 2025 verði hlutfall nýskráðra sendibíla 50%, hópbifreiða 30% og vörubifreiða 20%. Þessu markmiði verður náð með því að: 

 1. Gera heimasíðu með öllum helstu upplýsingum um orkuskipti atvinnubíla, þar á meðal
  a. Framboð bíla
  b. Hleðslulausnir
  c. Samanburðar reiknivél þar sem borið er saman heildarkostnað bifreiða eftir orkugjafa á heildarlíftíma ökutækis og tekur mið af íslenskum aðstæðum, orkuverði og sköttum. 
 2. Kynna fyrir þeim sem reka bílaflota möguleika á að nýta vistvæna bíla í sínum rekstri
  a. Halda viðburð um orkuskipti stærri ökutækja og bjóða öllum sem eiga eða reka slíka bíla.
  b. Búa til útskýringarmyndband sem væri á heimasíðunni og koma því á framfæri t.d. á samfélagsmiðlum.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica