Vandaðir starfshættir í vísindum

Það hefur lengi verið til umræðu á vettvangi Vísinda- og tækniráðs og í vísindasamfélaginu hér á landi að efla þurfi vitund um siðfræði rannsókna og styrkja ramma um siðferðilegar hliðar vísindarannsókna.

Háskólaráð Háskóla Íslands ályktaði árið 2006 að félög háskólakennara ásamt Rannís og fleiri samtökum mundu beita sér fyrir setningu siðareglna um góð vísindaleg vinnubrögð. Vísinda- og tækniráð tók einnig málið upp 2010 og starfshópi á vegum Rannís var falið að móta drög að siðareglum fyrir íslenskt vísindasamfélag. Í því ferli var haft víðtækt samráð við vísindasamfélagið.

Niðurstöður lágu fyrir 2011 og voru birtar á vef Rannís sem drög. Áhersla var lögð á sjálfseftirlit rannsakenda og stofnana, en jafnframt lagt til að sett yrði á laggirnar miðlæg nefnd sem hefði eftirlit með þeim. Nefndin hefði meðal annars það hlutverk að leiðbeina í einstökum málum og rannsaka mál að eigin frumkvæði. Einnig, ef málum væri vísað til hennar, að úrskurða um alvarleika brota og að fræða og upplýsa vísindasamfélagið, stjórnvöld og almenning.

Forsætisráðherra skipaði í júní 2018 starfshóp til að undirbúa lagasetningu um heilindi í vísindarannsóknum. Starfshópurinn skilaði áformum um lagasetningu til ráðuneytisins í desember 2018 og drögum að frumvarpi í febrúar 2019. 

Forsætisráðherra hefur skipað óháða nefnd um vandaða starfshætti í vísindum sbr. bréf ráðherra til Vísinda- tækniráðs frá 29. nóvember 2019.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica