Um Rannís

  • RA-Skipurit

Hlutverk Rannís er að treysta stoðir íslensks þekkingarsamfélags með stuðningi við rannsóknir, nýsköpun, menntun og menningu. 

Rannís er náinn samstarfsaðili Vísinda- og tækniráðs og veitir faglega aðstoð og þjónustu við undirbúning og framkvæmd stefnu þess. Rannís stuðlar að þróun þekkingarsamfélagsins með rekstri samkeppnissjóða, aðstoð og kynningu á alþjóðlegum sóknarfærum og samstarfs­möguleikum auk þess að greina og kynna áhrif rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar á þjóðarhag. 

Rannís hefur umsjón með innlendum samkeppnissjóðum og sér um samstarfsáætlanir Evrópusambandsins á málefnasviðum stofnunarinnar, s.s. Horizon 2020 rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB, Erasmus+ á sviði menntunar, æskulýðsstarfs og íþrótta og Creative Europe kvikmynda- og menningaráætlun ESB.

Rannís fær framlög á fjárlögum til rekstrarins (sjá í ársskýrslu 2018, s. 51). Mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi Rannís fjárveitingarbréf, dags 10 mars 2017, varðandi fjárveitingar og áherslur sem hafa skal að leiðarljósi í starfsemi Rannís á árinu 2017. Í samræmi við lög hefur Rannís mótað sér stefnu fyrir málefnasvið og markmið í málaflokkum til þriggja ára og hefur ráðuneytið staðfest ársáætlun og stefnu stofnunarinnar. 

Rannís heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og starfar á grundvelli  laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir nr. 3/2003. Í árslok 2018 voru starfsmenn hjá Rannís 49 talsins í 47,25 stöðugildum. Forstöðumaður Rannís er Hallgrímur Jónasson.

Fagsvið

Starfsemi Rannís skiptist í þrjú fagsvið; rannsókna- og nýsköpunarsvið, alþjóðasvið og mennta- og menningarsvið. Þvert á fagsviðin gengur rekstrarsvið með stuðningi við starfsemi þeirra.

Sameiginlegt markmið sviðanna er að efla samstarf stjórnvalda og hagsmunaaðila við undirbúning og framkvæmd opinberrar vísinda- og tæknistefnu og styðja við rannsóknir og nýsköpun, menntun, menningu og þróun mannauðs. 

Skipurit Rannís

Kynningarstarf

Markmiðin nást því aðeins að kynningarstarf á rannsóknastarfseminni sé umfangsmikið. Rannís leggur áherslu á öfluga vefsíðu ásamt því að annast kynningu og ráðgjöf fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki um möguleika á styrkjum og stuðla að samvinnu innan lands og utan.

Til að styðja við kynningarstarf á rannsóknum og nýsköpun og gera áhrif vísindarannsókna sýnileg, stendur Rannís fyrir ýmsum viðburðum eins og  RannsóknaþingiHaustþingi og  Nýsköpunarþingi, að ógleymdri Vísindavöku og  Vísindakaffi. Einnig á Rannís þátt í að hvetja vísindafólk til frekari dáða með viðurkenningum á borð við  Hvatningarverðlaun  Vísinda- og tækniráðs í samvinnu við ráðið og  Nýsköpunarverðlaun Íslands  í samvinnu við ÍslandsstofuNýsköpunarmiðstöð Íslands og  Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

Alþjóðasamstarf

Evrópskt og norrænt samstarf er umfangsmikið í starfsemi Rannís sem er helsta þjónustustofnun á Íslandi á þessu sviði. Alþjóðasvið Rannís hefur umsjón með fjölmörgum evrópskum og norrænum styrkjaáætlunum og verkefnum sem miða að því að styðja við alþjóðlegt samstarf íslensks vísindasamfélags. Stærsta einstaka verkefni sviðsins er Horizon 2020, rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins (ESB) og hefur Rannís umsjón með starfi stjórnar-nefndarfulltrúa og landstengiliða áætlunarinnar fyrir Íslands hönd. Mennta- og menningarsvið Rannís hefur umsjón með Erasmus+ mennta- og æskulýðsáætlun Evrópusambandsins og Creative Europe kvikmynda- og menningaráætlun Evrópusambandsins. 

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica