Reglur um úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands

REGLUR
um úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands.


1. gr.

Tilgangur.

Í samræmi við gildandi fjármálaáætlun og fjárlög er starfræktur Jafnréttissjóður Íslands. Til­gangur sjóðsins er að fjármagna eða styrkja verkefni, þ. á m. rannsóknarverkefni, sem miða að því að stuðla að jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu.

2. gr.

Stjórn og skipulag.

Ráðherra jafnréttismála skipar sjóðstjórn, þrjá aðalmenn og þrjá til vara. Einn skal tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, einn af Jafnréttisstofu og einn skal skipaður án tilnefningar sem jafnframt er formaður sjóðsins. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

Sjóðstjórn annast mat á umsóknum um styrki. Stjórnin setur sér starfsreglur eftir því sem þurfa þykir.

Stjórnsýsla Jafnréttissjóðs Íslands, þ.m.t. varsla sjóðsins og dagleg umsýsla hans, er hjá Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands.

Sérfræðingur í ráðuneyti jafnréttismála er tengiliður við stjórn sjóðsins og Rannís vegna starf­semi sjóðsins.

3. gr.

Fjármunir og greiðsluáætlun.

Gera þarf ráð fyrir fjárveitingu til sjóðsins í fjármálaáætlun og tilgreina þar hvaða ár úthlutun eigi að fara fram á hverju fimm ára tímabili en gert er ráð fyrir úthlutun á tveggja ára fresti. Sjóð­stjórn semur greiðsluáætlun fyrir sjóðinn þar sem gerð er grein fyrir kostnaði við umsýslu hans, fjölda styrkveitinga og fjárhæð þeirra. Kostnaður vegna starfsemi sjóðsins er greiddur úr honum.

4. gr.

Styrkveitingar.

Þau ár sem úthlutun fer fram skulu styrkir Jafnréttissjóðs Íslands vera veittir 19. júní eða sem næst þeirri dagsetningu ef 19. júní ber upp á helgi. Sjóðstjórn ákveður fjölda styrkja og að megin­stefnu til skulu styrkirnir veittir til verkefna sem miða að:

 1. samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins,
 2. jöfnum áhrifum kvenna og karla í samfélaginu,
 3. bættri stöðu kvenna og auknum möguleikum þeirra í samfélaginu,
 4. afnámi launamisréttis og annarrar mismununar á grundvelli kyns á vinnumarkaði,
 5. eflingu fræðslu um jafnréttismál,
 6. greiningu tölfræðiupplýsinga eftir kyni,
 7. eflingu rannsókna í kynja- og jafnréttisfræðum,
 8. vinnu gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni, þ. á m. heild­rænni fræðslu, forvarnastarfi og samræmdum viðbrögðum,
 9. breytingu á hefðbundnum kynjaímyndum og vinnu gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla,
 10. því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf,
 11. því að gæta sérstaklega að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá,
 12. vinnu gegn fjölþættri mismunun.

5. gr.

Auglýsing um styrkveitingar.

Stjórn Jafnréttissjóðs Íslands skal auglýsa eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum. Í auglýsingu skal tilgreina þær kröfur sem gerðar eru til umsókna og fyrir hvaða tíma þær skuli berast sjóðnum. Í starfsreglum stjórnar Jafnréttissjóðs Íslands er kveðið nánar á um efni auglýsingar.

6. gr.

Skyldur styrkþega.

Styrkþegar skulu gera grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari reglum sjóðstjórnar.

Verði breyting á framvindu verkefnis skal styrkþegi tilkynna sjóðstjórn skriflega þar um. Stjórnin tekur afstöðu til þess hvort breyting á framvindu hafi áhrif á styrkveitingu verkefnis eða rannsóknar. Verði misbrestur á eða önnur skilyrði stjórnar fyrir styrkveitingu ekki uppfyllt er heimilt að fara fram á endurgreiðslu styrksins. Sé styrks ekki vitjað innan tveggja ára frá dagsetningu tilkynn­ingar fellur hann niður.

Niðurstöður verkefna og rannsókna sem hlotið hafa styrk samkvæmt reglum þessum skulu birtar almenningi samkvæmt nánari fyrirmælum sjóðstjórnar.

7. gr.

Meðferð umsókna.

Farið er með allar umsóknir og fylgigögn sem trúnaðarmál. Upplýsingar um verkefni og reikn­inga skulu undanþegnar trúnaðarskyldu nema trúnaðar sé sérstaklega óskað og sjóðstjórn samþykki. Öllum umsóknum skal svarað skriflega.

8. gr.

Reikningar og endurskoðun.

Reikningsár Jafnréttissjóðs Íslands er almanaksárið. Ríkisendurskoðun endurskoðar reikninga sjóðsins.

9. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 144/2021 um úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands.

Forsætisráðuneytinu, 19. febrúar 2024.

Katrín Jakobsdóttir.

Bryndís Hlöðversdóttir.


B deild - Útgáfud.: 4. mars 2024Þetta vefsvæði byggir á Eplica