Mats- og úthlutunarferlið

Úthlutanir og fjárveiting

Fjárveiting sjóðsins er ákveðin á fjárlögum hvers árs. Íþróttasjóður hafði 17,9  milljónir króna til ráðstöfunar árið 2013. Umsóknarfrestur er einu sinni á ári. 

Íþróttanefnd, sem einnig er stjórn Íþróttasjóðs fer yfir allar umsóknir og metur þær. Gerir síðan tillögu um úthlutun sem lögð er fyrir menntamálaráðherra. Ráðherra tekur síðan formlega ákvörðun um úthlutun.

Mat umsókna

Mat á umsóknum skal einkum byggjast á eftirtöldum  sjónarmiðum skv.reglugerð nr. 803/2008:

 • Gildi og mikilvægi verkefnis með tilliti til þeirra markmiða sem Íþróttasjóði eru sett.
 • Líkum á því hægt sé að ná þeim markmiðum er verkefnið miðar að.

Stjórn íþróttasjóðsins fær til umfjöllunar allar umsóknir sem berast.
Umsóknir eru metnar samkvæmt matskvarða Íþróttasjóðs

Trúnaður og vanhæfi

Allir þeir aðilar sem koma að afgreiðslu og mati umsókna hjá Íþróttasjóði eru bundnir þagnarheiti. Enn fremur fylgir sjóðurinn almennum reglum um vanhæfi.

Styrkveitingar

Öllum umsækjendum er svarað með tölvupósti/bréfi. Útbúin er fréttatilkynning um úthlutun (hverjir hlutu styrk, nafn verkefnis og upphæð).

Almennir skilmálar styrks

Almennir skilmálar styrks sem gilda fyrir styrkveitingu á vegum menntamálaráðuneytisins sem Rannís hefur umsjón með: (útgáfa 2014)

 1. Skuldbinding styrkþega
  • Með því að taka á móti styrknum lýsir styrkþegi því yfir að hann ábyrgist að styrknum verði einungis varið til verkefnisins og þeirra markmiða sem lýst er í umsókn. Jafnframt skuldbindur hann sig til að skila greinargerð og fjárhagsuppgjöri og hlíta öðrum skilmálum styrksins.
 2. Upplýsingagjöf og skýrslur
  • Styrkþega er skylt að tilkynna Rannís tafarlaust ef upp koma aðstæður sem seinka verkefninu eða koma í veg fyrir að markmiðum eða skilyrðum fyrir styrkveitingu sé fullnægt.
  • Styrkþega ber ávallt að verða við beiðni Rannís um upplýsingar um stöðu verkefnisins og láta því í té allar upplýsingar og gögn um verkefnið, þar á meðal bókhaldsgögn.
  • Styrkþegi skal senda Rannís greinargerð um verkefnið og fjárhagsuppgjör vegna þess innan 60 daga frá því verkefninu lýkur. Greinargerðin skal staðfest af styrkþega og óháðum einstaklingi/skoðunarmanni eða endurskoðanda.
  • Ljúki verkefninu ekki á því ári sem styrkurinn er veittur, skal senda ráðuneytinu tölvupóst til að upplýsa um stöðu verkefnisins fyrir lok janúar árið eftir.
  • Eyðublað fyrir greinargerð fæst á heimasíðu sjóðsins
  • Styrkþegi ber ábyrgð á að skila skattyfirvöldum fjárhagsuppgjöri og að öll gögn sem uppgjör byggir á séu varðveitt í a.m.k. fimm ár. Um eftirlit Ríkisendurskoðunar gilda lög nr. 86/1997 um Ríkisendurskoðun.
 3. Styrktaraðili nefndur í kynningarefni
  • Á öllu útgefnu efni, auglýsingum o.s.frv. sem tengist hinu styrkta verkefni skal koma fram að það er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneyti.
 4. Endurkröfuréttur ráðuneytisins
  • Ef styrknum eða hluta hans er varið í annað en tilgreint er í umsókn eða skilmálar skv. lið 2 og 3 ekki uppfylltir, teljast forsendur styrkveitingar brostnar. Áskilur ráðuneytið sér þá rétt til að ógilda styrkveitinguna og krefja styrkþega um endurgreiðslu á greiddum styrk, að hluta til eða í heild sinni, ásamt kostnaði við innheimtu.
  • Reynist útgjöld vegna verkefnis samkvæmt umsókn lægri en útborguð styrkfjárhæð skal styrkþegi ótilkvaddur endurgreiða ofgreiddan styrk innan 30 daga frá því fjárhagsuppgjör verkefnis lá fyrir. Að öðrum kosti innheimtir ráðuneytið ofgreiddan styrk ásamt innheimtukostnaði.
  • Styrkur fellur niður hafi hann ekki verið sóttur innan eins árs frá dagsetningu styrkbréfs.
 5. Ágreiningur
  • Ágreiningi milli styrkþega og Rannís/mennta- og menningarmálaráðuneytis sem þessum aðilum tekst ekki að leysa skal vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur.
  • Framangreindir skilmálar gilda nema annað sé tekið fram í skeyti.

Um leið og styrkþegar samþykkja styrkveitinguna gangast þeir undir þessa skilmála.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica