Lauf Forks hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2021

  • B93A6025-1-

Nýsköpunarverðlaun Íslands fyrir árið 2021 voru veitt á Nýsköpunarþingi 2022 í Grósku þar sem ekkert Nýsköpunarþing var haldið 2021 vegna heimsfaraldurs

Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri Lauf Forks veitti verðlaununum viðtöku úr hendi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Nýsköpunarþingið var haldið í Grósku undir yfirskriftinni Hugvitið út – hvernig verður hugvit stærsta útflutningsgrein Íslands?

Nánar um verðlaunahafa

Lauf Forks var stofnað árið 2011 í kringum hugmynd að framúrstefnulegum fjöðrunargaffli fyrir reiðhjól sem var sérhannaður fyrir lítil högg. Fyrir á markaði voru einungis stífir gafflar (án fjöðrunar) og svo þungir og viðhaldsfrekir fjöðrunargafflar gerðir fyrir stærri högg og grófari fjallahjólreiðar. Þróunarvinna félagsins hefur leitt af sér fjöðrunartækni sem hefur sérstöðu á markaði og er einkaleyfisvarin. Í dag er helsta afurð félagsins hjól í flokki malarhjóla sem byggja á fjöðrunartækninni.

Rökstuðningur dómnefndar:

Lauf Forks er framúrskarandi fyrirtæki sem byrjaði sem hugmynd hjá ungum frumkvöðlum. Það tók félagið nokkur ár að öðlast viðurkenningu á markaði með tækni sína, en árið 2016 fékk það í fyrsta sinn einróma lof "í bransanum" fyrir tækni sína. Það var þá sem Laufforks tók skrefið inn í nýjan flokk malarhjóla, úr flokki fjallahjóla en malarhjól henta mjög vel fyrir fjöðrunartækni félagsins. Laufforks er með víðtækt og sterkt einkaleyfi á tækninni en tæknin hefur gert fyrirtækinu kleyft að selja heil hjól sem hafa sérstöðu gagnvart keppinautum. Fyrirtækið hefur náð góðum vexti með sölu tæknilega framúrskarandi malarhjólum og er markmið næstu ára að tryggja því markaðsleiðandi stöðu á þeim markaði.

Bandaríkin eru stærsti markaður Lauf Forks, með yfir 70% sölu fyrirtækisins. Mikil tækifæri eru fyrir félagið að vaxa bæði á bandaríkjamarkaði og annars staðar í heiminum. Jafnframt eru tækifæri til að auka við vöruframboð með áframhaldandi vöruþróun hjá félaginu.

Það er mat dómnefndar að Lauf Forks sé verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Íslands árið 2021. Það er mikil kraftur í starfsemi félagsins og tækifæri til vaxtar á markaði víða.

Nýsköpunarverðlaun Íslands

Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Hugverkastofunni og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.

Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica