Leiðbeiningar vegna umsókna
Umsóknarfrestir og umsóknarkerfi Rannís
Umsóknarfrestur er einu sinni á ári, í kringum mánaðamótin mars-apríl, og er sótt um í gegnum umsóknarkerfi Rannís (sjá leiðbeiningar). Sjá upplýsingar um næsta umsóknarfrest hér.
Almennt um umsóknir
- Í umsóknareyðublaðinu skal gera greinargóða lýsingu á aðstandendum verksins, verkinu sjálfu og kostnaðaráætlun fyrir verkið (sjá leiðbeiningar hér fyrir neðan). Ef um einstakling er að ræða þá fylgi upplýsingar um starfsferil, faglegan og listrænan bakgrunn viðkomandi.
- Í verkáætlun skal gera grein fyrir öllum þáttum verkefnisins, til dæmis æfingum, viðburðahaldi, eða hverju því sem verkefnið samanstendur af. Í tímaáætlun á að setja upp tímaás hvenær verkhlutar verða framkvæmdir.
- Aðeins er tekið við umsóknum og fylgiskjölum rafrænt í gegnum umsóknarkerfi Rannís (sjá leiðbeiningar).
- Umsóknir og fylgigögn sem berast eftir að umsóknarfrestur er liðinn eru ógildar og ekki teknar til umfjöllunar í sjóðnum.
- Sjá nánar um mat umsókna hér .
Hvað er styrkt?
- Fjölbreytt verkefni og starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi.
- Sérstakt vægi hafa verkefni sem auk ofangreindra þátta stuðla einnig að lýðræðislegri virkni barna í samfélaginu eða taka að öðru leyti mið af inntaki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
- Einnig verður horft til verkefna sem efnt er til í samstarfi aðila, svo sem menningarstofnana, skóla, listafólks og félagasamtaka. Sérstaklega er hvatt til þess að samstarfsverkefni séu unnin í samstarfi ólíkra aðila, t.d. að stofnanir leiti samstarfs við grasrót skapandi fólks fremur en við aðrar stofnanir.
- Ekkert er því til fyrirstöðu að verkefni taki yfir fleiri en eitt almanaksár.
Sjá nánar reglur Barnamenningarsjóðs.
Hvað er ekki styrkt?
- Ekki eru veittir styrkir til kjarnastarfsemi eða reglubundins rekstrar stofnana eða samtaka.
- Tækjakaup eða uppbygging aðstöðu, s.s. húsnæðis, eru ekki styrkt.
- Stakir ferðastyrkir eru ekki veittir.
- Ekki eru veittir styrkir til endurtekinna viðburða, s.s. hátíða, nema til komi afgerandi nýbreytni í inntaki, formi eða efnisvali.
- Verkefni sem ljóst þykir að eigi frekar heima í í verkefnasjóðum einstakra listgreina eða launasjóðum listamanna þar sem Barnamenningarsjóður er tímabundið átak til að efla barnamenningu og leysir ekki aðra sjóði undan þeirri ábyrgð að styðja við verkefni af vettvangi barnamenningar.
Sjá nánar reglur Barnamenningarsjóðs.
Umsóknir fyrri styrkþega Barnamenningarsjóðs
- Hafi umsækjandi fengið styrk áður verður verkefninu að vera lokið, jafnframt því að lokaskýrslu hafi verið skilað; annars verður ný umsókn ekki tekin til greina.
- Undantekning frá þessu er þegar sótt er um framhald fyrra verkefnis, þ.e. að um nýjan fasa eða framþróun sé að ræða. Þá er hægt að sækja um þrátt fyrir að fyrra verkefni sé ólokið, að því gefnu að framvinduskýrslu hafi verið skilað.
- Ath. að ekki eru veittir styrkir til endurtekinna viðburða, s.s. hátíða, nema til komi afgerandi nýbreytni í inntaki, formi eða efnisvali.