Ein af lykilstoðum framúrskarandi árangurs í vísindum og rannsóknartengdri nýsköpun er gott aðgengi að rannsóknarinnviðum. Mikil fjárfesting felst oft í rannsóknarinnviðum og rekstri þeirra yfir lengri tíma. Mikilvægt er að slík fjárfesting byggi á faglegri ákvarðanatöku, heildarsýn og stefnu. Í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs vinnur stjórn Innviðasjóðs að útgáfu vegvísis um rannsóknarinnviði á Íslandi. Vegvísar (e. roadmaps) um rannsóknarinnviði hafa verið gefnir út í mörgum ríkjum Evrópu, þá má finna á vefsíðu evrópsku nefndarinnar um stefnumótun um rannsóknarinnviði - ESFRI - (e. the European Strategy Forum on Research Infrastructures). Stjórn Innviðasjóðs mun hafa hliðsjón af vegvísum annarra ríkja við gerð vegvísis fyrir Ísland. Aðdragandi útgáfu vegvísis um rannsóknarinnviði á Íslandi er nokkuð langur og má finna upplýsingar um ferlið í skýrslunum Drög að ferli vegvísis (2019) og Uppbygging rannsóknarinnviða á Íslandi til framtíðar (2017).
Óskað var eftir tillögum um innviði á vegvísi fyrir 10. júní 2020, tillögurnar má finna hér.
Umsóknarfrestur fyrir verkefni á vegvísi um rannsóknarinnviði verður 2. nóvember 2020.
Stjórn Innviðasjóðs vinnur að undirbúningi á útfærslu og auglýsingu um innviðaverkefni á vegvísinn. Til að fá hugmynd um þörf og umfang þeirra verkefna sem gætu átt heima á vegvísi voru væntanlegir umsækjendur hvattir til að senda inn tillögur að innviðaverkefnum ásamt stuttri verkefnislýsingu fyrir 10. júní 2020. Ekki er gerð krafa um að umsækjendur hafi sent inn tillögur til að mega senda inn fulla umsókn, en þær tillögur sem bárust verða leiðbeinandi við gerð auglýsingar fyrir vegvísinn.
Tillögurnar sem bárust hafa verið birtar á heimasíðu Innviðasjóðs. Þannig getur vísindasamfélagið kynnt sér tillögurnar og tekið upp samtal um þær. Með slíku gegnsæi í ferlinu geta umsækjendur náð til fleiri mögulegra notenda og því styrkt umsóknir sínar. Í einhverjum tilvikum gætu verið tækifæri í því falin að sameina umsóknir og mynda þannig sterkari innviðakjarna.
Upplýsingafundur var haldinn sem fjarfundur fimmtudaginn 7. maí 2020 þar sem ferlið var kynnt og umsækjendur gátu varpað fram spurningum og tekið þátt í samtali um að móta fyrsta íslenska vegvísinn um rannsóknarinnviði.
Frekari upplýsingar um vinnuna veitir Steinunn S. Jakobsdóttir
Á Vegvísi verða tilgreindir viðamiklir innviðir og innviðakjarnar sem uppfylla kröfur um að styðja við gæði í rannsóknum og samræmast áherslum Vísinda- og tækniráðs. Með innviðakjarna er átt við rannsóknarinnviði sem nýtast vel saman í rekstri og starfsemi. Með því að skilgreina slíka kjarna og huga að uppbyggingu til framtíðar er markmiðið að sækja fram og auka nýtingu og áhrif þeirra rannsóknarinnviða sem byggðir eru upp með styrkjum frá Innviðasjóði. Hvatt er til þess að umsækjendur hugsi stórt í því hverju hægt er að áorka með bættri aðstöðu til rannsókna og skipuleggi samtímis framtíðaruppbyggingu á raunhæfan hátt með samnýtingu og samvinnu að leiðarljósi. Verkefni sem verða tilgreind á vegvísi munu njóta forgangs við úthlutun stórra styrkja úr Innviðasjóði.
Með útgáfu vegvísis er ætlunin að efla rannsóknarinnviði og mynda heildarstefnu í uppbyggingu rannsóknarinnviða á Íslandi. Með því að efla aðgengi vísindamanna að hágæða rannsóknarinnviðum bæði innanlands og erlendis er markmiðið að:
Til þess að ná fram markmiðunum verður sérstök áhersla lögð á eftirfarandi atriði við mat á vegvísaverkefnum:
Eitt af markmiðum vegvísis er að bæta aðgengi íslenskra vísindamanna að rannsóknarinnviðum erlendis og efla samstarf um nýtingu rannsóknarinnviða, meðal annars með þátttöku í ESFRI verkefnum. ESFRI styður við stefnumótun um uppbyggingu rannsóknarinnviða í Evrópu og stuðlar að samhæfingu í stefnum ólíkra landa. Markmið ESFRI er ennfremur að efla samstarf um uppbyggingu og nýtingu rannsóknarinnviða. Í ESFRI sitja fulltrúar Evrópusambandslandanna og samstarfslanda, þar með talið Íslands.
Sumir stórir rannsóknarinnviðir í Evrópu falla undir lög um Samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC e. European Research Infrastructure Consortium). ERIC er samstarfsform um rekstur á rannsóknarinnviðum í Evrópu og eru samtökin stofnuð um rannsóknarinnviði sem eru af þeirri stærðargráðu að ekkert eitt ríki hefur bolmagn til þess að reka þá. Lög um ERIC samtök voru samþykkt á Alþingi vorið 2019. Aðeins ríki geta gerst aðilar að ERIC samtökum. Þeim sem hafa áhuga á að kanna möguleika á þátttöku Íslands í innviðum undir hatti ERIC samtaka er bent á að hafa samband við stjórn Innviðasjóðs (innvidasjodur@rannis.is) eða viðeigandi ráðuneyti.
Við mat á Vegvísisumsóknum verður horft til eftirfarandi viðmiða. Stjórnin áskilur sér þó rétt til að gera breytingar á viðmiðunum í takti við þær tillögur sem berast í júní 2020 (sjá hér að neðan).
1) Alþjóðlega samkeppnishæft rannsóknaumhverfi á Íslandi
2) Tekist á við samfélagslegar áskoranir
3) Opið aðgengi og samstarf
4) Uppbygging og rekstur innviðarins til framtíðar