Fyrir hverja?
Um er að ræða styrki til íslenskukennslu fyrir útlendinga sem búsettir eru hér á landi, og skráðir eru með lögheimili í Þjóðskrá. Hælisleitendur eru undanþegnir kröfu um skráningu í Þjóðskrá meðan málefni þeirra eru til skoðunar hjá stjórnvöldum.
Veittir eru styrkir til fræðsluaðila og fyrirtækja og stofnana er bjóða nám í íslensku sem ekki er hluti af almennu námi á grunn- eða framhaldsskólastigi.
Lokað hefur verið fyrir umsóknir vegna 2024. Umsóknarfrestur var 5. desember 2023 kl. 15:00.
Markmiðið með styrkjunum er að gefa öllum sem búsettir eru hér á landi og skráðir eru með lögheimili í Þjóðskrá, tækifæri á að öðlast nauðsynlega færni í íslensku til að þeir geti orðið virkir samfélagsþegnar á Íslandi.
Rétt til að sækja um styrk eiga viðurkenndir framhaldsfræðsluaðilar sem bjóða námskeið í íslensku fyrir útlendinga sem búsettir eru hér á landi og fyrirtæki og stofnanir sem bjóða starfsmönnum sínum upp á skipulagða kennslu í íslensku. Fyrirtæki eða stofnanir sem eru á fyrirtækjaskrá og ekki eru viðurkenndir fræðsluaðilar, þurfa að hafa samning við hæfan viðurkenndan fræðsluaðila er annast kennsluna.
Styrkurinn gildir aðeins fyrir nám í íslensku sem ekki er hluti af almennu námi á grunn- eða framhaldsskólastigi.
Umsækjandi skal senda inn umsókn í rafrænu umsóknakerfi Rannís og veita Rannís upplýsingar um fjölda námskeiða, kennslustundafjölda fjölda námskeiðsstunda, nemendafjölda, kennslutíma, tengingu við Evrópska tungumálarammann, um námskeiðskostnað og fjármögnun. Fyrir lokauppgjör skal umsækjandi einnig skila upplýsingum um framkvæmd námskeiðs til Rannís samkvæmt þeim reglum sem gerðar eru um gagnaskil.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti úthlutar styrkjunum. Rannís annast umsýslu og afgreiðslu styrkumsókna fyrir hönd ráðuneytisins.