Úthlutanir 2023 - október

Hér má sjá stutt ágrip þeirra verkefna sem hlutu styrki úr Loftslagssjóði í október 2023. Fyrst eru listuð upp nýsköpunarverkefni og þar fyrir neðan eru kynningar- og fræðsluverkefni. Er verkefnum hvors flokks fyrir sig raðað í stafrófsröð eftir heiti verkefnis. 

Nýsköpunarverkefni

Alþjóðleg vottun kolefniseininga með endurheimt votlendis - Efla hf.

Talið er að ávinningur þess að endurheimta votlendi er um 19t CO2 ígildi/ha/ári. Á Íslandi er áætlað að um 70% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum sé vegna framræsts votlendis og er því er endurheimt votlendis viðurkennd og nauðsynleg mótvægisaðgerð gagnvart hlýnun loftlags á Íslandi. Talið er að eingöngu 10-15% þessa framræsta votlendis sé nú nýtt sem ræktarland, en þá standa eftir 85% sem ekki eru nýtt sem slík og rík ástæða er til að endurheimta til fyrra ástands. Þrátt fyrir metnaðarfull markmið ríkisstjórnar og aðra aðila að endurheimta votlendi á Íslandi þá er hraði endurheimtar ekki í neinu samræmi við þessi markmið. Markmið verkefnisins er að móta verklag sem uppfyllir kröfur VCS staðalsins VM0036 og er hluti verkefnisins að vinna að umsóknum um vottun fyrir þær jarðir sem Votlendissjóður hefur nú þegar hafist handa við að endurheimta framræst votlendi. Unnið er að öflun nauðsynlegra gagna frá Votlendissjóði og Landgræðslunni með þeim tilgangi að leitast við að hljóta vottun. Um fordæmisgefandi verkefni er að ræða sem nauðsynlegt er að vinna að til að afla tiltrú á kerfi kolefniseininga, hvetja jarðareigendur til þess að ráðast í endurheimt sinna jarða, flýta fyrir endurheimt votlendis á landsvísu og draga þar með fyrr úr losun Íslands og nýta reynslu í þágu þróunar á innlendum stöðlum eða innlendu vottunarkerfi.

BioBuilding - innleiðing lífrænna efna í íslenskan byggingariðnað - Lúdika arkitektar slf.

BioBuilding er tilrauna- og þróunarverkefni þar sem þróaðar eru aðferðir við að nota iðnaðarhamp sem lífrænt byggingarefni aðlagað að íslenskum aðstæðum. Markmið verkefnisins og framtíðarsýn er íslenskur byggingariðnaður sem er sjálfbærari og umhverfisvænn. BioBuilding verkefnið er þannig margþætt langtímaverkefni sem sameinar rannsóknir og þróun, krefst samvinnu á milli margra sérgreina, kostnaðar- og lífsferilsgreiningar, landnotkunar- og ræktunarmöguleika en fyrst og fremst: prófun á hampsteypu við íslenskar aðstæður. Hluti af ferlinu er að framkvæma ýmiss konar rannsóknir til að sjá hvernig hampsteypan bregst við, bæði á rannsóknarstofu og í því umhverfi sem hún mun verða útsett fyrir í mismunandi landshlutum. Lykilhluti þess er að athuga hvernig efnið bregst við sem útveggur í húsbyggingu en það er hlutverk Frumgerðar 01 sem byrjað er að reisa. Annar hluti verkefnisins er að sýna fram á notkunarmöguleika staðbundinna lífrænna byggingarefna svo sem þara og kynna verkefnið og niðurstöður þess með hnitmiðuðum hætti til að vekja athygli á losun byggingariðnaðarins og lausnunum sem felast í lífrænum byggingarefnum. Helsti kostur verkefnisins er að sýna fram á hvernig hægt er að stuðla að lækkun kolefnisfótspors í byggingariðnaði og vera fordæmisgefandi. Langtímamarkmið verkefnisins er að leysa skort á valkostum til að byggja með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti á eyju sem er algjörlega háð kolefnisfrekum efnisinnflutningi.

CircleFeed: Íblöndun rauðþörunga í fóður til að draga úr metanlosun mjólkurkúa - Bændasamtök Íslands

Um helmingur losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði stafar af metanlosun hjarðdýra. Þetta verkefni snýst um að rækta rauðþörunga og nota þá sem íblöndunarefni í nautgripafóður með það að markmiði að stórlækka metanlosun gripanna. Slíkt hefur verið gert erlendis með sérdeilis framúrskarandi árangri, en niðurstöður erlendra rannsókna hafa staðfest allt að 90% samdrátt í losun metans frá mjólkurkúm sem hafa fengið þörungabætt fóður. Takist slíkt hið sama hér mætti þannig lækka kolefnisspor hjarðdýraræktar í íslenskum landbúnaði gríðarlega og ljóst að grettistaki verður lyft hvað varðar markmið stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði.

Endurnýttar rafbílarafhlöður sem blendingskerfi til rafmagnsframleiðslu - ALOR ehf.

Í þessu einstaka verkefni mun Alor þróa nýtt blendingskerfi (hybrid) sem nýtt verður í rafmagnsframleiðslu í því skyni að draga úr olíunotkun, kostnaði og minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Sérstaða kerfisins lýtur að því að kerfið samanstendur af notuðum rafbílarafhlöðum sem öðlast framhaldslíf auk þess sem innleiddar verða sólarsellur og vindtúrbínur í því skyni að draga enn frekar úr olíunotkun. Þegar rýmd rafbílarafhlaðna fellur niður fyrir 70-80% er þeim almennt skipt út. Þegar það er gert þá má nýta þær sem orkugeymslur þar sem minni aflkrafa er gerð til þeirra. Þær eru vel til þess fallnar að geyma rafmagn þar til þörf er á því, s.s. sem framleitt er með vindi og sól. Auk þess má nýta þær sem orkugeymslur samhliða olíuknúnum rafstöðvum. Þær drifrafhlöður sem seldar eru í dag mun verða skipt út eftir 10-15 ára notkun. Stutt er í að fyrstu rafhlöðunum verður skipt út og því mikilvægt að vinna að lausn áður en vandamálið verður mjög stórt. Talið er að viðbótar líftími rafhlaðna sem fá annað líf geti verið á bilinu 6-30 ár. Í verkefninu verður hinum olíuknúnu rafstöðvum ekki skipt út heldur lausnunum bætt við þannig að unnt sé að hefja orkuskipti í rafmagnsframleiðslu í skrefum án þeirrar áhættu sem getur fylgt því að skipta alfarið um kerfi í einu vetfangi. Heimurinn þarf að róa að því öllum árum að hraða orkuskiptum og kann blendingskerfi sem felur í sér hagkvæma lausn í anda hringrásarhagkerfis að spila lykilhlutverk í orkuskiptum við rafmagnsframleiðslu.

Hin vanmetna loftslagslausn: Menntun stúlkna í lágtekjuríkjum - SoGreen ehf.

SoGreen kynnir til sögunnar nýja tegund kolefniseininga á heimsvísu: Kolefniseiningar sem myndast við það að tryggja stúlkum í lágtekjuríkjum menntun. SoGreen vinnur með þarlendum hjálparsamtökum sem hafa mikla reynslu og sérfræðiþekkingu á því að tryggja menntun berskjaldaðra stúlkna. Vottun er undirstaða þess að tryggja gæði kolefniseininga á hinum alþjóðlega kolefnismarkaði og vinnur SoGreen að undirbúningi fyrir vottun kolefniseininganna skv. tækniforskrift ÍST TS 92:2022 (og skráningu í loftslagsskrá ICR). Þar sem um er að ræða fyrsta loftslagverkefni sinnar tegundar í heimi krefst slíkt mikillar vinnu sérfræðinga og kostnaðar. Kolefniseiningar SoGreen eru einstakar á heimsvísu vegna þeirra samfélagslegu áhrifa sem þær hafa í för með sér. Sem dæmi má nefna að menntun stúlkna er í senn mótvægisaðgerð vegna þess samdráttar í losun sem hún veldur og aðlögunaraðgerð því aukið menntunarstig berskjaldaðra samfélaga eykur getu þeirra til að takast á við loftslagsvána. Ólíkt öllum öðrum kolefniseiningum er grunnurinn að að framleiðslu kolefniseininga SoGreen efling mannréttinda, nánar tiltekið rétts stúlkna til menntunar og rétts þeirra til að vera hvorki giftar né þungaðar á barnsaldri. Þá vinna kolefniseiningarnar að fjölmörgum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: 3. Heilsa og vellíðan, 4. Menntun fyrir öll, 5. Jafnrétti kynjanna, 8. Góð atvinna og hagvöxtur, 10. Aukinn jöfnuður og 13. Aðgerðir í loftslagsmálum.

Liggur lausnin að lágmörkun losunar frá lífrænum leiðindaúrgangi í lífkolun? - Bændasamtök Íslands

Með lögum sem tóku gildi 1. janúar 2023 var innleitt fortakslaust bann við urðun lífræns úrgangs á Íslandi. Til vandræða horfir þar sem engar nýjar lausnir hafa komið fram sem leysa vandann sem felst í meðferð og förgun dýrahræja og sláturúrgangs á landsvísu. Þessu verkefni er ætlað að fýsileikagreina nýja leið til förgunar lífræns úrgangs, með það fyrir augum að koma í veg fyrir losun losun gróðurhúsalofttegunda frá kolabrennslu dýrahræja og sláturúrgangs. Takist vel til eru möguleikarnir í samdrætti á losun gífurlegir. Ætlunin er að nýta tækni sem hefur verið að ryðja sér til rúms á meginlandi Evrópu síðastliðin misseri, og allar rannsóknir benda eindregið til þess að hér sé um að ræða aðferð sem ekki bara fargar lífrænum úrgangi sem annars myndi valda umtalsverðri losun, heldur sé beinlínis þeim eiginleikum gædd að binda allar gróðurhúsalofttegundir í ferlinu. Reynist raunhæft að nýta þessa tækni til förgunar dýrahræja og sláturúrgangs er ljóst að gríðarlegur samdráttur verður í losun gróðurhúsalofttegunda frá þessum úrgangsflokkum, og mikið magns kolefnis bundið í hinum nýju ferlum sem um ræðir.

Lífgas til orkuskipta í húshitun á Vestfjörðum - Ýmir technologies ehf.

ÝMIR hyggst koma á fót gasgerð nærri upprunanum úr hliðarafurðum frá laxeldi í sjókvíum sem nú eru sóttar og fluttar út til sömu nota á meginlandi Evrópu. Í meðalári eru afföll um 6.500 tonn, sem varlega áætlað geta gefið af sér um 1,5 milljónir Nm3 af hauggasi á ári með brennslugildi alls 33 TJ eða 8,9 GWst. Verður þetta gert sem "pilot" verkefni í upphafi og fjármagnað fyrst og fremst með styrknum og eigin framlagi ÝMIS. Fiskeldisfyrirtækin geta látið í té skemmu undir starfsemina og tankar, hakkari, færibönd, liðléttingu, gufuketill o.fl. eru þegar í eigu ÝMIS sem flytja má vestur. Stærsta fjárfestingin gæti verið fólgin í því að flytja tanka undir laxameltu milli byggðarlaga, sem nú eru staðsettir t.d. á Tálknafirði. Verkefninu verður í framhaldinu auðvelt að breyta í varanlega innviði með langtímasamningum við Orkubú Vestfjarða (OV). OV lýsir því yfir í inngangi ársskýrslu sinnar fyrir árið 2022, að fjárfestingar í innviðum sjálfbærrar orkuöflunar á Vestfjörðum sé forgangatriði og verði söluandvirði hlutar í Landsneti varið til þess. Á verkefni þetta vel heima í orkuöflunarportfólíói OV. Í framhaldi af þessu mun ÝMIR vinna að því að einnig verði framleiddur lífdísill úr þessum úrgangi, og kolvetnatapið sem því fylgir bætt upp með margvíslegum úrgangi úr jurtaríkinu sem annars væri fluttur til Reykjavíkur, t.d. flokkuðum matarúrgangi, garðaúrgangi og heyfyrningum, auk mykju, en frálag frá gasgerðinni er talvert betri áburður en mykjan og yrði því veitt þangað.

Lífgasver í Líforkugörðum við Eyjafjörð - EIMUR

Markmið verkefnisins er að undirbúa byggingu lífgasvers í Eyjafirði. Lífgas getur leikið mun stærra hlutverk í orkuskiptum en ráða má af umræðunni í samfélaginu. Með byggingu lífgasverssins myndi koma til samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur rúmu 1% af þeim samdrætti sem Ísland hefur skuldbundið sig til að ná fyrir árið 2040. Í verinu verður framleitt metangas úr mykju sem safnað verður af nálægum kúa- og svínabúum og það má nýta á samgöngutæki. Með framleiðslu metans í Eyjafirðir verður afhendingaröryggi metans á Akureyri tryggt, sem gerir metan að raunverulegum valkosti sem orkugjafa fyrir farartæki sem ganga títt milli Akureyrar og Reykjavíkur, einnar helstu flutningaleiðar landsins.

Niðurdæling koltvísýrings á Grundartanga - Þróunarfélag Grundartanga ehf.

Verkefnið er tvíþætt. Annars vegar að kanna fýsileika þess að fanga CO2 frá starfsemi Elkem með aðferð sem norska fyrirtækið Aker Carbon Capture hefur þróað í samstarfi við Elkem og Carbfix og hins vegar að dæla niður CO2, sem fangað er, ofan í berggrunninn á Grundartanga með Carbfix-aðferðinni. Styrkur Loftslagssjóðs verður til þess að hrinda í framkvæmd borun tilraunaborholu á Grundartanga til niðurdælingar á koltvísýringi frá Elkem, til förgunar koltvísýringsins í bergrunninum með aðferð Carbfix. Með verkefninu verður mögulegt að fanga og farga allt að 90% losunar frá framleiðsluferli Elkem. Í dag er ekki til aðferð til að draga úr losun frá framleiðsluferlinu svo hér er um afar mikilvægt frumkvæðisverkefni að ræða til að binda og farga losun koltvísýrings með viðurkenndri aðferð Carbfix. Heildarverkefnið er unnið í samstarfi Þróunarfélags Grundartanga, Anker Carbon Capture, Elkem, Carbfix, ÍSOR og Mannvits.

Notkun plastúrgangs í stað jarðefnaeldsneytis í kísilmálms- og málmblendiframleiðslu - Gerosion ehf.

Verkefnið felst í frekari þróun á kögglunartækni með áherslu á að endurnýta plastefnisúrgang yfir í afoxara fyrir kísilmálmiðnað, þar sem forrannsóknir sýndu að binding CH keðja í kögglamatrixu þýðir að þessi úrgangur getur umbreyst í aðgengilegt kolefni í háhitaumhverfi ljósbogaofna. Þessir efnaferlar verða rannsakaðir og mun verkefnið geta dregið verulega úr þörf á jarðefnaeldsneyti sem afoxara í kísilmálmsframleiðslu. Verkefnið byggir á margra ára R&Þ vinnu hópsins sem snúist hefur um að endurnýta efni sem falla til við kísilmálmframleiðslu og úr margskonar öðrum iðnaði með því að köggla þau og nota sem hráefni í framleiðsluna. Ljóst er að ef ná á kolefnismarkmiðum stóriðju, iðnaðar og íslenska ríkisins, þarf að bæta verulega nýtingu úrgangs alls framleiðsluiðnaðar. Ef vel til tekst verður hægt að draga verulega úr uppsöfnun og flutningi á plastúrgangi (oft úr landi) og hægt verður að draga verulega úr notkun og á flutningi á jarðefnaeldsneytis til landsins þar sem plastúrgangurinn mun nýtast sem afoxari í stað kola. Með endurnýtingu á plasti á þennan hátt verður mögulega hægt að koma í veg fyrir töluverða óþarfa útlosun gróðurhúsaloftegunda en á sama tíma stuðla að verðmætasköpun og minni notkun jarðefnaeldsneytis í þessum geirum. Einnig getur bestun á efnaferlum framleiðslunnar leitt til minni CO2 losunar. Ekki er nóg að bara beisla CO2 útlosun. Allra best er að stuðla að minni CO2 útlosun en nokkur prósent í útlosunarminnkun í stóriðju er heilmikið á heildina litið.

Orkuskipti í skipaflutningum með rafeldsneyti - Verkís hf.

Í verkefninu verða þróaðar og prófaðar tæknilausnir um borð í tankskipi í millilandaflutningum við raunaðstæður á sjó, sem lúta að því minnka olíunotkun skipsins umtalsvert með því að nota rafeldsneytiskerfi í stað núverandi hjálparvéla skipsins sem nota olíu. Meginmarkmiðin eru að sýna fram á örugga samþættingu rafræns eldsneytis og eldsneytiskerfa með 1) umbreytingu lífmetanóls í vetni með gufuumbreytingu (e. steam reforming), 2) umbreytingu ammoníaks í vetni með sundrun (e. cracker technology) og 3) umbreytingu þess vetnis sem framleitt er um borð í skipinu í rafmagn með efnarafal (e. 1 MW PEM fuel cell). Þetta kerfi verður notað í stað núverandi kerfis sem brennur olíu á hjálparvélum skipsins. Verkefnið hefur bein áhrif á koltvíoxíð losun skipsins, en reiknað er með að spara 4 tonn af koltvíoxíði á dag og 23,6% af daglegri olíunotkun skipsins. Þar sem millilandaflutningar í skipum valda allt að 2,5% af útblæstri gróðurhúsalofttegunda í öllum heiminum, þá má sjá að jákvæð loftlagsáhrif verkefnisins verða gríðarlega mikil. Verkefnið hefur þannig mikið nýnæmi og einnig bein áhrif á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Um er að ræða samfjármögnun loftlagssjóðs vegna alþjóðlega styrkt verkefnis í Horizon Europe, verkefnis sem heitir GAMMA og er heildarkostnaður þess verkefnis um 2,5 milljarðar króna.

Segulhitarar sem lausn við olíunotkun til húshitunar - Blámi, félagasamtök

Markmið verkefnisins felst í því að sýna fram á virkni nýrrar og einfaldrar tækni til framleiðslu varma til húshitunar sem gæti leyst af hólmi bruna mikils magns jarðefnaeldsneytis, bætt lífsgæði samfélaga og lækka kostnað við hitun fyrir heimili og iðnað á köldum svæðum. Tæknin sem um ræðir byggir á einfaldri og þekktri hagnýtingu á lögmálum rafsegulfræðinnar með því að nota það sem kallst á ensku Eddy current til framleiðslu á varma beint úr hreyfiorku í umhverfinu (t.d. með vatnsorku eða vind). Með þessari tækni væri hægt að auðvelda mjög framleiðslu varma og lækka kostnað og þannig auka aðgengi samfélaga að slíkri orku og flýta orkuskiptum m.a. til húshitunar. Verkefnið getur dregið úr olíunotkun í húshitun og varaafli og þannig skila umtalsverðum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig getur verkefnið stuðlað að miklum efnahagslegum ábata, en samkvæmt fjárlögum íslenska ríkisins fyrir árið 2023 er áætlaður kostnaður við niðurgreiðslu raforku til húshitunar það árið tæpar 2400 milljónir króna. Aðgengi að varma frá endurnýjanlegum orkugjöfum er mikið hagsmunamál byggða á landsbyggðinni m.a. til að tryggja atvinnustarfsemi og rekstur samfélagslegra innviða eins og sundlauga sem oft er þungur baggi á litlum sveitarfélögum.

Stafrænar tunnur - Samtök sunnlenskra sveitarfélaga

SASS hefur síðastliðin þrjú ár staðið að undirbúningsvinnu við gerð Úrgangstorgs; gagnatorg sem tengist í gagnagrunn þjónustuaðila úrgangs og sækir magntölur og kostnaðartölur af fengnu samþykki viðkomandi sveitarfélags. Úrgangstorgið tekur við gögnunum og þýðir þau yfir á úrgangslista skv. Reglugerð um skrá yfir úrgang og mat á hættulegum eiginleikum úrgangs. Því næst eru gögnin tekin saman í fyrir fram ákveðin gröf eða töflur sem eru byggðar á þörfum sveitarfélaga að hverju sinni og kröfum um markmið um endurvinnslu og endurnýtingu. Sveitarfélög fá því í hendurnar úrgangsstjórnunartól sem heldur utan um alla úrgangs- og fjárhagsstrauma í tengslum við málaflokkinn. Þessar upplýsingar nýtast sem ákvörðunartól varðandi úrgangslausnir í hverju sveitafélagi. Helstu tækifæri í innleiðingu 4. Iðnbyltingunnar á sviði úrgangsmála er að koma á fót snjalllausnum í málaflokkinn. Til þess að það megi verða þarf að tengja tunnur, sorphirðubíla, vogar o.þ.h. við internetið. Þetta verkefni snýst um að tengja tunnur og sorphirðubíl við internetið og hanna og þróa kerfi sem byggir á „Pay as you throw“ (íslenska: Borgað þegar hent er, BÞHE) sem viðbót við Úrgangstorg. Sveitarfélög geta innleitt kerfið í sín samfélög og þannig uppfyllt kröfur í lagabreytingum um úrgangsmál sem áttu sér stað um áramót 2022/2023. Kerfið mun mæla hvern og einn úrgangsstraum frá hverri tunnu á söfnunarstað og þannig fást gögn sem hægt er að nýta í rekstur sveitarfélaga og til loftslagsáætlanagerða.

Strandfóður - Úr sveitinni ehf.

Verkefnið Strandfóður hefur það að markmiði að þróa leið til að rækta sjálfbæra próteingjafa til fóðrunar með áherslu á krækling og aðrar ásætur. Tilgangurinn er að minnka þörf á innfluttu próteinfóðri í frumframleiðslu landbúnaðar og nýta í staðinn sjálfbærar lausnir.

Kynningar- og fræðsluverkefni

Alþjóðlegar loftslagsaðgerðir íslensku samhengi - Birna Sigrún Hallsdóttir

Í AR6 SYR er farið yfir vísindalega þekkingu á loftslagsbreytingum og veðurfari og fjallað um afleiðingar loftslagsbreytinga. Þá er fjallað um hvaða leiðir eru færar til að draga úr loftslagsbreytingum og settar fram fjölmargar aðgerðir í nokkrum yfirflokkum (t.d. samgöngur, iðnaður, landbúnaður og landnotkun). Skv. skýrslunni eru þetta aðgerðir sem grípa þarf til strax svo að forðast megi verstu afleiðingar loftslagsbreytinga. Markmið verkefnisins er að setja upp vefsíðu með fjórum köflum (1. Inngangur, 2. Tvíhliða mikilvægisgreining, 3. Loftslagsaðgerðir í íslensku samhengi, 4. Aðgerðir sem snúa að almenningi með áherslu á ungt fólk) á vefinn himinnoghaf.is. Í 1. kafla verður farið yfir helstu niðurstöður AR6 SYR varðandi loftslagsbreytingar. Í 2. kafla verður gerð tvíhliða mikilvægisgreining (double materiality) fyrir helstu atvinnugreinar hér á landi: s.s. orkugeirann, iðnað, sjávarútveg, landbúnað, ferðaþjónustu. Tvíhliða mikilvægisgreining hefur verið að ryðja sér til rúms m.a. í sjálfbærniregluverki ESB en í henni felst að fyrirtæki meti bæði áhrif sín á loftslagið og áhrif loftslagsbreytinga á starfsemina. Þessir kaflar eru til að undirstrika mikilvægi þess að grípa strax til aðgerða á öllum sviðum. Kaflar 3 og 4 fjalla svo um þær aðgerðir sem settar eru fram í AR6 SYR í íslensku samhengi, annars vegar í þeim flokkum sem snúa að fyrirtækjum og hins vegar að almenningi.

Loftslagsbreytingar á mannamáli - Veðurstofa Íslands

Um er að ræða herferð til íslenskra sveitarfélaga sem byggir á niðurstöðum nýjustu skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, IPCC (AR6) og skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar sem er í ritun og áætlað að komi út í lok sumars 2023. Í verkefninu eru áhrif loftslagsbreytinga og afleiðingar þeirra staðfærðar á íslenskt samfélag. Bent verður á hvaða aðgerðir leiði til sem hraðastrar minnkunar losunar á gróðurhúsalofttegundum hér á landi en ekki síður hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar til þess að undirbúa samfélagið undir óhjákvæmilegar afleiðingar. Fræðsluefnið verður sett fram á einföldu myndmáli, annars vegar stillimyndum með einföldum orðskýringum og hins vegar stuttum myndböndum. Þrátt fyrir að verkefnið sé miðað að sveitarfélögum verður um að ræða tímalaust efni sem mun geta nýst til kynningar og fræðslu víðsvegar um samfélagið til framtíðar. Tilgangur verkefnisins er að upplýsa stjórnendur og starfsfólk sveitarfélaga um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og afleiðingar þeirra. Auk þess sem útbúið verður aðgengilegt yfirlit yfir þær lausnir sem sveitarfélög geta nýtt til þess að bregðast við, draga úr losun og búa sig undir breyttan heim. Markmiðið er að tryggja að unnt sé að taka upplýstar ákvarðanir á sveitarstjórnarstigi sem leiða skilvirkari aðlögunar- og mótvægisaðgerðir með ávinning fyrir samfélagið allt.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica