Algengar spurningar

Á ég erindi í Horizon Europe?

Samkeppni í Horizon Europe er gríðarmikil og umsóknarferlið krefjandi. Við mælum með því að undirbúa sig vel áður en hafist er handa. Ýmis þjónusta er í boði hérlendis fyrir þá sem eru að undirbúa umsókn. 

Starfir þú við háskóla, rannsóknastofnun eða rannsóknamiðað fyrirtæki, athugaðu þá hvort starfandi sé rannsóknastjóri innan ykkar vébanda sem þekkir áætlunina og getur aðstoðað. 

Ef þú ert með fyrirtæki og telur þig eiga möguleika á að sækja um í áætlunina, er mælt með að hafa samband við Enterprise Europe Network varðandi næstu skref. Einnig er alltaf í boði að hafa samband við tengiliði Rannís vegna mismunandi málaflokka Horizon Europe.

Ef þú ert ekki viss um hvort þú eigir erindi í Horizon Europe bendum við á COST verkefni en tilgangur COST verkefna er að byggja upp samstarfsnet á ákveðnum rannsóknasviðum. COST verkefni hafa oft leitt til áframhaldandi samstarfs á milli þátttakenda sem hafa skilað styrkumsóknum í stærri rannsóknarverkefni innan Horizon Europe.

Hvenær birtast fyrstu auglýsingar eftir umsóknum í Horizon Europe

Á vefgátt Framkvæmdastjórnar ESB er hægt að leita eftir umsóknarfrestum (Calls for Proposals) í Horizon Europe. 

Finna umsóknarfresti í Horizon Europe

Hvernig veit ég hvort rannsóknar- eða nýsköpunarhugmyndin mín sé nógu sterk?

Gott er að byrja á að kortleggja rannsóknir sínar, styrkleika og sérstöðu. Ef þú ert reyndur vísindamaður með einstaka hugmynd, gætirðu skoðað tækifæri innan Evrópska rannsóknaráðsins (ERC). 

Ef þú ert framúrskarandi nýdoktor að leita að launaðri stöðu til að sinna rannsóknum þínum hjá stofnun eða fyrirtæki erlendis, gætirðu íhugað að sækja um MSCA Post-doctoral fellowship.

Hefurðu áhuga á að vinna að verkefnum í samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og háskóla frá öðrum löndum í að leysa tilteknar samfélagslegar áskoranir í gegnum rannsóknar- og nýsköpunarverkefni, er ágætt að byrja með því að skoða vinnuáætlanir í Horizon Europe og athuga hvort styrkleikar þínir og sérstaða gætu fallið að markmiðum þeirra.

Hvernig finn ég samstarfsaðila í Horizon Europe verkefni?

Alltaf er mælt með því fyrst að leita í eigið tengslanet, stofnanir sem þú hefur unnið með áður, samstarfsfólk í faginu o.s.fv. Einnig er mælt með því að taka reglulega þátt í COST verkefnum á því sviði, með það að markmiði að byggja upp tengslanet á þínu fagsviði. 

Ef rétt tengslanet er ekki til staðar fyrir umsóknina þína, eru til ýmsar leiðir til að komast í samstarf. Hægt er að sækja tengslaráðstefnur á vegum Enterprise Europe Network  og annarra verkefna þar sem þú kemst í kynni við mögulega samstarfsaðila sem eru að fara að sækja um Horizon verkefni. Rannís veitir ferðastyrki til að sækja tengslaráðstefnur og birtir upplýsingar um þær á vef sínum.

Get ég sótt um stuðning til að undirbúa umsókn í Horizon Europe

Að undirbúa umsókn í Horozon Europe getur verið tímafrekt ferli. Þú getur kynnt þér Sóknarstyrki sem Rannís hefur umsjón með en þar er meðal annars hægt að sækja um ferða- og umsóknarstyrki.

Sóknarstykir

Geta meistaranemar eða doktorsnemar sótt um í Horizon Europe?

Horizon Europe veitir enga smærri styrki til meistara- eða doktorsverkefna eða laun til slíks náms. Einu einstaklingsstyrkirnir sem eru í boði eru hinir rómuðu ERC og MSCA post-doctoral fellowships, fyrir lengra komið framúrskarandi vísindafólk. Ef þú ert að leita að styrk til að skrifa meistararitgerð eða doktorsritgerð er best að leita til þíns heimaháskóla eða fyrirtækis á þínu rannsóknasviði. Einnig er er hægt að skoða Euraxess vefgáttina til að leita sér að launaðri doktors- eða nýdoktorastöðu víðsvegar í Evrópu. 

Hvaða styrkir eru veittir til stakra fyrirtækja?

IC Accelerator styrkur er ætlaður stökum fyrirtækjum með verkefni sem felur í sér mikla nýsköpun og líkleg til vaxtar erlendis.

Hvers konar fyrirtæki geta sótt um í EIC Accelerator?

Styrkir eru ætlaðir litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem stunda framúrskarandi nýsköpun, eru þroskuð og eru líkleg til að vaxa á erlendum mörkuðum. Gagnlegt er að skoða yfirlit yfir þau fyrirtæki sem hafa fengið styrk á vefsíðu EIC Accelerator data Hub. Góður undirbúningur er mikilvægur ásamt því að þekkja reglur og skilyrði fyrir styrkveitingu. Einnig er hægt að hafa samband við Rannís sem veitir aðstoð.

Einnig bendum við á FAQ á umsóknagátt Horizon Europe (Funding & tenders)

Þessar síður eru uppfærðar með svörum við algengustu spurningum sem hafa verið sendar inn á hjálparborð Horizon Europe.

Opna FAQ
Þetta vefsvæði byggir á Eplica