Hvernig er sótt um?

Leiðbeiningar til umsækjenda Rannsóknasjóðs

Allar umsóknir og umsóknagögn skulu vera á ensku án undan­tekninga. Aðeins er hægt að skila umsóknum á rafrænu formi gegnum umsóknakerfi Rannís. Ófullgerðum umsóknum verður vísað frá. 


Styrkhæfi

Verkefnisstjórar þurfa að hafa lokið rannsóknartengdu framhaldsnámi við viðurkenndan háskóla (á ekki við um umsækjendur um doktorsnemastyrki). 

Umsækjendur um rannsóknastöðustyrki verða að hafa fengið doktorsnafnbót í mesta lagi sjö árum áður en umsóknarfrestur rennur út. Afrit af útskriftarskírteini skal fylgja umsókn eða skilað í síðasta lagi 1. desember eftir umsóknarfrest. Tekið er tillit til hlés sem hefur orðið á rannsóknaferli vegna foreldraleyfis eða veikindaleyfis sé slíkt útskýrt í ferilskrá.

Umsækjendur um doktorsnemastyrki verða að hafa verið samþykktir inn í doktorsnám við íslenskan háskóla og skal vottorð þess efnis frá Nemendaskrá Háskóla Íslands, eða sambærilegum skrifstofum í öðrum íslenskum háskólum, fylgja umsókn.

Hvatt er til alþjóðlegs samstarfs í umsóknum. Styrkir eru hins vegar aðeins greiddir inn á reikning íslenskra stofnana eða fyrirtækja. 

Styrki Rannsóknasjóðs má nota til að samfjármagna alþjóðlega styrkt verkefni með svipað viðfangsefni.

Umsóknir þurfa að uppfylla öll skilyrði um styrkhæfi til að fá faglegt mat. Ef í ljós kemur meðan á matsferli stendur að eitt eða fleiri skilyrði eru óuppfyllt verður umsókn tekin úr matsferli.

Tímasetningar

Umsóknarfrestur fyrir umsóknir í Rannsóknasjóð er auglýstur með a.m.k. 6 vikna fyrirvara. Áætlaðar tímasetningar fyrir umsýsluferli umsókna fyrir styrkárið má sjá í töflu 1.

15. júní
Umsóknarfresti lýkur
Ágúst-desember Fagráðsvinna
Janúar (eftir umsóknarfrest) Styrkúthlutun

Tafla 1. Áætlaðar tímasetningar fyrir styrkárið.  

Styrktegundir

Boðið er upp á fjórar styrktegundir; verkefnisstyrki, öndvegisstyrki, rannsóknastöðustyrki og doktorsnemastyrki (tafla 2) og eru styrkirnir veittir í allt að 36 mánuði. 

Leyfilegt er að skörun sé á milli verkefna sem sótt er um í mismunandi styrkflokka að því gefnu að samræmi sé á milli umfangs og kostnaðar.

Því er hægt að sækja um verkefnisstyrk fyrir verkefni með markmið sem skarast við markmið öndvegisverkefnis að því gefnu að samræmi sé á milli umfangs og kostnaðar. Ekki er veittur styrkur til fleiri en eins verkefnis með markmiðum sem skarast. 

Styrktegund Hámarkslengd (mánuðir) Hámarksupp-hæð (ISK)
Öndvegisstyrkur 36 120.000.000
Verkefnisstyrkur 36 45.000.000
Rannsóknastöðustyrkur 36 24.000.000
Doktorsnemastyrkur 36 16.000.000

Tafla 2. Styrktegundir, hámarkslengd og hámarksupphæð styrkja (án samreksturs og aðstöðu).    

Gert er ráð fyrir tiltölulega jafnri dreifingu kostnaðar milli ára. 

Verkefnisstyrkir

Verkefnisstyrkir eru ætlaðir fyrir rannsóknarverkefni. Styrkupphæð til verkefnis getur að hámarki verið 45 milljónir króna fyrir 36 mánaða verkefni, 30 milljónir fyrir 24 mánaða verkefni og 15 milljónir fyrir 12 mánaða verkefni. Styrkurinn úr Rannsóknasjóði nemur að hámarki 85% af heildarkostnaði verkefnis.

Öndvegisstyrkir

Öndvegisstyrkir eru ætlaðir til umfangsmikilla rannsóknarverkefna sem eru líkleg til að skila íslenskum rannsóknum í fremstu röð á alþjóðavettvangi. Öndvegisstyrkir eru ætlaðir rannsóknarhópum og gert er ráð fyrir að auk eins eða fleiri verkefnisstjóra séu einnig meðumsækjendur og aðrir þátttakendur á slíkum umsóknum. Gert er ráð fyrir þjálfun ungra vísindamanna í öndvegisverkefnum með þátttöku framhaldsnema og/eða nýdoktora. Staðfest samstarf við erlenda vísindamenn og stofnanir styrkir umsóknina.  Öndvegisstyrkir eru veittir í allt að 36 mánuði. Styrkupphæð til verkefnis getur að hámarki verið 120 milljónir króna fyrir 36 mánaða verkefni, 80 milljónir fyrir 24 mánaða verkefni og 40 milljónir fyrir 12 mánaða verkefni. Styrkurinn úr Rannsóknasjóði nemur að hámarki 85% af kostnaði verkefnis.

Rannsóknastöðustyrkir

Rannsóknastöðustyrkir eru ætlaðir til uppbyggingar starfsframa ungra vísindamanna (sjá kafla 2.1 um styrkhæfi) innan rannsóknasamfélagsins. Staðfesting frá gestgjafastofnun verður að liggja fyrir og telst það umsækjendum til tekna að sækja um rannsóknastöðu við aðra stofnun en veitti doktorsgráðu. Styrkupphæð til verkefnis getur að hámarki verið 24 milljónir króna fyrir 36 mánaða verkefni, 16 milljónir fyrir 24 mánaða verkefni og 8 milljónir fyrir 12 mánaða verkefni. Styrkurinn úr Rannsóknasjóði nemur allt að 100% af heildarkostnaði verkefnis. Umsækjandi skal gera grein fyrir samhengi verkefnisins við fyrri rannsóknir, hvernig verkefnið muni stuðla að starfsframa og segja frá framtíðaráætlunum í rannsóknum. Ef styrkþegi fær ráðningu í aðra stöðu á tímabilinu fellur styrkurinn niður frá þeim tíma þegar ráðningin tekur gildi.

Doktorsnemastyrkir

Styrkir ætlaðir doktorsnemum sem sækja um í eigin nafni. Styrkirnir fjármagna laun nemans og allt að 300.000 kr. í ferðakostnað á ári. Annar verkefnistengdur kostnaður fellur á leiðbeinanda eða stofnun viðkomandi. Doktorsnemastyrkir eru veittir í allt að 36 mánuði. Styrkupphæð getur að hámarki verið 16 milljónir króna fyrir 36 mánaða verkefni, 10,6 milljónir fyrir 24 mánaða verkefni og 5,3 milljónir fyrir 12 mánaða verkefni. Styrkurinn úr Rannsóknasjóði nemur allt að 100% af heildarkostnaði verkefnis. Hægt er að sækja um laun doktorsnema í verkefnisstyrkjum og öndvegisstyrkjum en sami nemi getur ekki fengið hærri styrk en sem nemur 12 mannmánuðum samtals á ári. Doktorsgráðan skal vera veitt frá íslenskum háskóla en möguleiki er á sameiginlegri gráðu með erlendum háskóla. Styrkirnir eru til 3 ára með möguleika á eins árs framlengingu. Veittir verða allt að 15 doktorsnemastyrkir.

Samþykktur kostnaður

Laun

Rannsóknasjóður styrkir laun vísindamanna, framhaldsnema og rannsóknamanna.  Ekki þurfa allir þátttakendur að vera nafngreindir þegar umsóknarfrestur rennur út en vinnuframlag allra þátttakenda verður að vera skilgreint í umsókn sé sótt um laun fyrir þá. Rannsóknasjóður styrkir hvorki greiðslu á yfirvinnu vegna rannsókna né greiðslu launa til þeirra sem eru jafnframt á fullum launum í öðrum störfum (þ.m.t. lífeyrisþega). 

Rekstrarkostnaður

Í töflunni undir þessum lið skal taka saman kostnað vegna nauðsynlegra aðfanga fyrir verkefnið, en þó ekki liði sem falla undir samrekstur og aðstöðu þar með talinn almennur skrifstofubúnaður svo sem tölvur. Gera þarf grein fyrir öllum rekstrarkostnaði og kostnaði vegna tækjakaupa sundurliðað í reitnum fyrir neðan töfluna. Tilboð frá seljanda/ framleiðanda vegna tækjakaupa skal fylgja umsókn. Óútskýrður kostnaður verður ekki samþykktur. 

Heimilt er að færa kostnað vegna kaupa á tækjum og búnaði sem rekstrarkostnað, allt að 2 milljónum króna fyrir hverja umsókn. Umsóknum um dýrari tæki og búnað skal skila í Innviðasjóð. Vakin er athygli á að lágmarksupphæð sem hægt er að sækja um í Innviðasjóð er 2 milljónir króna. 

Ferðakostnaður

Hér skal færa samtölu kostnaðar vegna ferða sem eru nauðsynlegar fyrir framgang verkefnisins. Í skýringum skal færa rök fyrir öllum ferðum og á hvern hátt þær tengjast verkefninu 

Aðkeypt þjónusta

Undir þennan lið fellur vinna sem ekki er unnin af þátttakendum í verkefninu, en er nauðsynleg fyrir framgang þess. Hægt er að sækja um allt að 500 þúsund krónur vegna birtingarkostnaðar fyrir verkefnis- og rannsóknastöðustyrki og allt að 1 milljón króna fyrir öndvegisstyrki og skal það vera undir þessum lið. Gera þarf grein fyrir öllum kostnaði vegna aðkeyptrar þjónustu sundurliðað í reitnum fyrir neðan töfluna. 

Tilboð vegna aðkeyptrar þjónustu skal fylgja umsókn. Ekki er hægt að sækja um fjármögnun samrekstrar og aðstöðu vegna aðkeyptrar þjónustu. 

Samrekstur og aðstaða

Hægt er að sækja um allt að 25% af sóttum styrk, að aðkeyptri þjónustu undanskilinni, til að fjármagna samrekstur og aðstöðu. Um er um að ræða kostnað vegna skrifstofu- og rannsóknaraðstöðu svo sem leigu, hita, rafmagn, stjórnun rekstrareininga, bóka- og tímaritakaup, kaup og rekstur á tölvubúnaði o. fl. Upphæðin leggst ofan á sóttan styrk og því getur heildartalan orðið hærri en það sem gefið er upp sem hámarksstyrkur.

Hvað á umsókn að innihalda?

Til að teljast gild verður umsókn að innihalda verkefnislýsingu og ferilskrá (viðaukar A og B). Viðaukar C-G verða að fylgja þar sem það á við. Eyðublað með gefnu sniðmáti fyrir verkefnislýsingu er aðgengilegt í umsóknarkerfi.

Faglegt mat á umsókn byggir eingöngu á þeim upplýsingum sem gefnar eru í umsókn og tilheyrandi viðaukum. Ekki er tekið við gögnum eftir að umsóknarfrestur rennur út. Umsóknum þar sem ekki er notast við rétt sniðmát fyrir viðauka A verður vísað frá mati. Slíkt getur átt sér stað hvenær sem er í matsferlinu. 

Eingöngu er tekið við umsóknum í gegnum rafrænt umsóknakerfi Rannís. 

Viðauki A. Verkefnislýsing

Nota skal sniðmát það sem finna má slóð á inni í umsóknakerfinu þegar umsóknin er opnuð í fyrsta sinn. Slóð á sniðmátið má alltaf finna með því að velja „Home“ neðst á vefsíðunni í umsóknarkerfinu. Til að gæta jafnræðis allra umsækjenda er umsóknum þar sem ekki er notað rétt eyðublað og sniðmát vísað frá.

Eyðublaðinu er skipt upp í fyrirfram skilgreinda kafla sem ekki má breyta. Áður en verkefnislýsingunni er hlaðið inn í umsóknarkerfið er heimildaskráin tekin frá og sett í sér skjal. Þessum tveimur skjölum er hlaðið inn hvoru fyrir sig sem pdf-skrám. Umsóknarkerfið telur blaðsíðufjölda í verkefnislýsingunni og er hámarksfjöldi 20 síður fyrir öndvegisstyrki, 15 síður fyrir verkefnisstyrki, 12 síður fyrir rannsóknastöðustyrki og 5 síður fyrir doktorsnemastyrki. Við þetta bætast titilsíða og leiðbeiningasíða. Ekkert hámark er á lengd heimildaskrár.

Til að auðvelda faglegt mat á umsókninni er mikilvægt að verkefnislýsingin sé vönduð. Sjá má þættina sem hafðir eru til hliðsjónar við matið í leiðbeiningum fyrir ytri matsmenn. Hafa skal eftirfarandi atriði í huga:

  • Mikilvægt er að verkefnið hafi vel skilgreindar rannsóknaspurningar/tilgátur og markmið og sé skipt í vel afmarkaða verkþætti.
  • Lýsa þarf hverjum verkþætti fyrir sig, tengingum við aðra verkþætti í verkefninu og áætla tíma sem fer í hvern verkþátt.
  • Gera verður grein fyrir þeim rannsóknaraðferðum sem notaðar eru og af hverju þær eru notaðar í hverju tilfelli. Aðferðafræði við söfnun upplýsinga og mat á gögnum þarf að liggja fyrir.
  • Lýsa skal helstu vörðum í verk- og tímaáætlun sem marka skil á milli áfanga í verkefninu. Þegar um er að ræða verkefni, þar sem sótt er um styrk til tveggja eða þriggja ára, skal skilgreina og lýsa vörðum í lok fyrsta, annars og þriðja styrkárs.
  • Gera skal grein fyrir samstarfi innan verkefnis, bæði milli ólíkra vísindamanna og rannsóknarmanna, sem og hvort um virkt samstarf milli háskóla, fræðasviða stofnana og fyrirtækja sé að ræða. Lýsa skal sérstaklega alþjóðlegu samstarfi í verkefninu.
  • Upplýsingar ef við á um hvaða hlutar verkefnisins eru doktors- eða meistaraverkefni, við hvaða skóla og deild nemarnir leggja stund á námið og í hverju framlag þeirra er fólgið í verkefninu.
  • Gera skal grein fyrir og færa rök fyrir áætluðum ávinningi af nýtingu niðurstaðna verkefnisins. Ávinningur getur verið þekkingarlegur, umhverfislegur, hagrænn, félagslegur o.s.frv. Afrakstur verkefna eru mælanlegar „einingar“ sem koma út úr verkefninu. Dæmi um afrakstur eru: birtar vísindagreinar, ritverk, háskólagráður, hugbúnaður, gagnagrunnar, frumgerðir, framleiðsluaðferðir, ný framleiðsluefni, einkaleyfi, líkön, rannsóknaraðferðir, staðfestar vísindakenningar o.fl.
  • Gera skal grein fyrir hvernig staðið verður að kynningu niðurstaðna og birtingu þeirra í fagritum, skýrslum, ráðstefnum, o.s.frv., og hvort og þá hvernig eignarréttur niðurstaðna verður verndaður. Gera skal grein fyrir hvernig lögum um opið aðgengi að niðurstöðum verður framfylgt.
  • Gera skal grein fyrir siðfræðilegum álitamálum ef við á.

Viðauki B. Ferilskrá

Ferilskrá skal innihalda upplýsingar um núverandi stöðu auk upplýsinga um menntun og þjálfun, leiðbeiningu framhaldsnema, fyrri stöður og viðurkenningar, lista yfir birtingar og slóð á gagnagrunn með upplýsingum um h-index eða sambærilegt. Gera skal grein fyrir hléum sem orðið hafa á ferli vegna foreldraleyfis, veikindaleyfis eða annars. 

Viðauki C. Samstarfsyfirlýsing

Undirrituð staðfesting þeirra sem skráðir eru sem “other participants” í umsókn, þar sem tilgreina skal í hverju þátttaka þeirra í verkefninu felst. Meðumsækjendur (“co-proposers”) þurfa ekki að senda inn slíka staðfestingu enda fylgir ferilskrá þeirra umsókn og þeir fá tilkynningu þegar umsóknin er send inn. 

Viðauki D. Yfirlýsing gestgjafastofnunar (vegna umsókna um rannsóknastöðustyrki).

Yfirlýsing frá gestgjafastofnun um að umsækjandi muni hafa starfsaðstöðu þar verði styrkur veittur. 

Viðauki E. Doktorsskírteini (vegna umsókna um rannsóknastöðustyrki).

Viðauki F. Staðfesting á inntöku doktorsnema (vegna umsókna um doktorsnemastyrki).

Staðfesting frá Nemendaskrá HÍ, eða sambærilegri skrifstofu í öðrum íslenskum háskólum, um að umsækjandi hafi verið samþykktur inn í doktorsnám. 

Viðauki G. Verðtilboð

Sé sótt um styrk fyrir tækjakaupum skal staðfesta sótta upphæð með verðtilboði frá framleiðanda.

Mat á nýjum umsóknum

Umsækjendur eru hvattir til að lesa Matsferli umsókna , Leiðbeiningar til fagráðsmanna og Leiðbeiningar til ytri matsmanna þar sem matsviðmið sem fagráð og ytri matsmenn styðjast við eru útlistuð.

Fagráð og fagsvið

Sjö fagráð munu fjalla um umsóknir styrkársins  (tafla 3). Sjö virkir vísindamenn skipa hvert fagráð og eru þeir valdir vegna sérfræðiþekkingar á viðkomandi sviði. Umsækjendur velja fagráð sem þeir vilja að umsóknir séu metnar í. Starfsfólk Rannís getur stungið upp á öðru fagráði en umsækjandi hefur valið, séu efnisleg rök fyrir því. Umsóknir eru ekki fluttar milli fagráða án samþykkis verkefnisstjóra. Frekari upplýsingar um vinnu fagráða má finna í leiðbeiningum til fagráðsmanna.

Fagráð Fagsvið
Raunvísindi og stærðfræði

Eðlisfræði, efnafræði, jarðvísindi, stærðfræði, nano-tækni.

Verkfræði og tæknivísindi

Verkfræði, tölvunarfræði, tæknivísindi.

Náttúruvísindi og umhverfisvísindi   

Almenn líffræði og afleiddar greinar, önnur náttúruvísindi (nema jarðvísindi)

Lífvísindi

Grunngreinar læknisfræði, dýrasjúkdómafræði, sameinda – og frumulíffræði og skyldar greinar.

Klínískar rannsóknir og lýðheilsa

Lýðheilsa, heilbrigðisvísindi, önnur læknavísindi.

Félagsvísindi og menntavísindi

Félagsvísindi (félagsfræði, stjórnmálafræði, mannfræði, þjóðfræði, hagfræði og viðskiptafræði, sálfræði (önnur en klínisk/lífeðlisfræðileg), mannvistarlandfræði, ferðamálafræði), lögfræði, menntavísindi.

Hugvísindi og listir

Heimspeki, siðfræði og trúarbragðafræði, listir (myndlist, listasaga, sviðslistir, tónlist) og hönnun, málvísindi og bókmenntir, sagnfræði og fornleifafræði, önnur hugvísindi.

Tafla 3. Fagráð Rannsóknasjóðs.

Spurningum varðandi einstök fagráð og fagsvið skal beint til starfsfólks Rannís. Umsækjendur mega ekki undir neinum kringumstæðum hafa samband við fagráðsmenn meðan á matsferli stendur.

Fjölfaglegar umsóknir

Fjölfagleg verkefni samþætta viðfangsefni, kenningar og/eða rannsóknaraðferðir frá fleirum en einu fræðasviði. Þegar sótt er um styrk fyrir fjölfaglegt verkefni velur umsækjandi það fagráð sem hann telur að best henti til að fjalla um umsóknina, en merkir einnig við önnur viðeigandi fræðasvið sem höfð verða til hliðsjónar við val á ytri matsmönnum. Forsenda þess að verkefni sé metið sem fjölfaglegt er að umsækjendur komi frá öllum þeim fræðasviðum sem tiltekin eru í umsókn.

Tilkynning til rannsóknastjóra

Þegar umsókn er skilað inn í umsóknarkerfið fær viðkomandi rannsóknastjóri, eða sá sem tilgreindur er í hans stað, upplýsingar um nafn og númer umsóknar ásamt nafni verkefnisstjóra.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica