Upplýsingar til styrkþega

Greiðslur, umsýsla og skýrsluskil

Dreifing árlegra greiðslna styrktra verkefna

  • Fyrsta greiðsla (40%) greiðist við undirritun samnings. 
  • Önnur greiðsla (40%) greiðist 1. september. 
  • Lokagreiðsla (20%) er greidd út þegar ársskýrsla/lokaskýrsla hefur verið samþykkt .

Þegar ársskýrsla hefur verið samþykkt er samningur næsta árs sendur verkefnisstjórum. Starfsfólk Rannís fer yfir ársskýrslur og lokaskýrslur og kemur tilmælum um áframhaldandi styrk til stjórnar Rannsóknasjóðs. Stjórn sjóðsins og starfsfólki Rannís er heimilt að fara fram á viðbótargögn frá styrkþegum ef nauðsyn þykir. Stjórn Rannsóknasjóðs og starfsfólk Rannís getur falið viðeigandi fagráði yfirferð framvinduskýrslu.

Umsýsla og skýrsluskil

Verkefnisstjóri er ábyrgur fyrir skilum á ársskýrslu fyrir 1. febrúar eftir að styrkári lýkur. Lokaskýrslu skal skila fyrir 15. febrúar ári eftir að lokastyrkári lýkur. Skýrslurnar eru yfirfarnar af starfsfólki Rannís sem gerir tillögur við stjórn Rannsóknasjóðs um hvernig áframhaldandi stuðningi við verkefnið skuli háttað. Starfsfólk sjóðsins getur farið fram á frekari upplýsingar og skýringar frá styrkþegum og ráðfært sig við viðkomandi fagráð ef þörf krefur. Lokagreiðslan, 20%, er greidd við samþykkt skýrslunnar. Sé skýrsla ekki samþykkt getur stjórn sjóðsins rift samningi við styrkþega og farið fram á endurgreiðslu styrkfjár. Sniðmát fyrir ársskýrslur og lokaskýrslur má finna hér á síðunni. Einnig má finna dæmi um sundurliðað kostnaðaryfirlit sem nota má með lokaskýrslu, en verkefnisstjóri getur eins notað eigið form.

Ársskýrslur

Í ársskýrslu skal gera grein fyrir áföllnum kostnaði og fjármögnun viðkomandi styrkárs og áætluðum kostnaði og fjármögnun komandi styrkárs. Allar meiriháttar breytingar á verkefninu (þ.m.t. foreldraorlof eða veikindaleyfi þátttakenda) skulu útskýrðar og breytingar á rannsóknaáætlun rökstuddar. Samþykktar stjórnar er krafist fyrir flutningi á meira en 20% heildarupphæðar styrks milli mismunandi kostnaðarliða.

Ársskýslu ásamt sundurliðuðu kostnaðaryfirliti (sjá skýrslueyðublöð hér á síðunni) og hreyfingalista skal skila fyrir 1. febrúar

Lokaskýrslur

Í lokaskýrslu skal gera grein fyrir framvindu verkefnisins, lokaniðurstöðum og ályktunum auk fréttatilkynningar á íslensku. Sundurliðað kostnaðaryfirlit (sjá skýrslueyðublöð hér á síðunni) og nákvæmur hreyfingalisti skulu fylgja skýrslu og gerð grein fyrir frávikum frá upphaflegri áætlun. Eyðublaðinu, sem finna má hér á síðunni sem dæmi um sundurliðað kostnaðaryfirlit, er skipt í þrjá liði. Fyrsta taflan fyllist sjálfkrafa þegar fyllt er í töflurnar í 2. lið. Alls staðar þar sem talan 0 kemur fyrir í töflunum er að finna sjálfvirka samlagningu. Í töfluna í 3. lið má setja inn upplýsingar úr umsókn eða samningum.

Lokaskýrslu skal skila fyrir 15. febrúar ári eftir að lokastyrkári lýkur en styrkár miðast við almanaksárið. Ekki þarf að skila ársskýrslu fyrir lokastyrkárið.  Lokagreiðsla er greidd eftir að lokaskýrsla hefur verið samþykkt. 

Birting á niðurstöðum

Samkvæmt lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir nr. 3/2003 með áorðnum breytingum, skal birta niðurstöður rannsókna sem fjármagnaðar eru með opinberu fé í opnu aðgengi. Styrkþegar Rannsóknasjóðs skulu tryggja að niðurstöður verði aðgengilegar í opnu aðgengi með því að annars vegar birta í tímaritum sem gefin eru út í opnu aðgengi eða í rafrænu varðveislusafni samhliða birtingu í hefðbundnu áskriftartímariti. Lokaútgáfa ritrýnds handrits skal send varðveislusafni um leið og greinin hefur verið samþykkt til birtingar. Ef tímaritið fer fram á biðtíma áður en greinin verður aðgengileg í opnu aðgengi verður hún birt sjálfkrafa að þeim tíma loknum. Vinsamlegast kynnið ykkur reglur Rannís um varðveislusöfn. 

Opinvisindi.is sér um varðveislusafn fyrir íslenska háskóla.

Lög um opið aðgengi eiga aðeins við um birtingar niðurstaðna í ritrýndum vísindatímaritum.

Í allri umfjöllun um niðurstöður verkefnisins skal tilgreina að verkefnið hafi verið stutt af Rannsóknasjóði, á ensku The Icelandic Research Fund, og tilgreina styrknúmer verkefnisins. Sjá eftirfarandi dæmi: 

Rannsóknin var styrkt af Rannsóknasjóði, styrknúmer... 

The present study was supported by the Icelandic Research Fund (grant number...) 

This work was supported by the Icelandic Research Fund (grant number...)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica