Nýsköpunarverðlaun Íslands 2010

Nox Medical hlaut Nýsköpunarverðlaun Rannís, Útflutningsráðs og Nýsköpunarmiðstöðvar fyrir árið 2010.

""Verðlaunin voru veitt á Nýsköpunarþingi 2010 sem haldið var 24. mars á Grand Hótel í Reykjavík. Nox Medical sérhæfir sig í hönnun svefngreiningarlausna sem henta börnum jafnt sem fullorðnum. Framkvæmdastjóri Nox Medical er Sveinbjörn Höskuldsson sem tók við verðlaununum úr hendi iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur.

Nox Medical var stofnað í júní 2006 eftir að lækningavörufyrirtækið Embla, sem áður hét Flaga, flutti starfsemi sína frá Íslandi á hátindi þenslu og vaxtaskeiðs síðustu ára. Starfsmenn fyrirtækisins sem höfðu mikla og farsæla reynslu af hönnun, skráningu og framleiðslu búnaðar til svefngreininga og svefnrannsókna urðu því að finna starfskröftum sínum og þekkingu nýjan farveg. Fyrirtækið nýtti stuðningskerfi frumkvöðla og var hýst á frumkvöðlasetri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands frá stofnun þess ásamt því sem fyrirtækið fékk öndvegisstyrk frá Tækniþróunarsjóði haustið 2006.

Fyrirtækið hafði frá upphafi skýr markmið og tímaramma. Ásamt því að hanna vöruna hóf það strax markaðssetningu til stórra dreifingaraðila og samstarf við viðurkennda framleiðendur lækningavara. Með þessum aðferðum náðist strax á vormánuðum 2008 sá áfangi að frumgerðir vörunnar voru tilbúnar og stóðust ytri vottanir eftirlitsaðila. Um mitt ár 2008 fékkst síðan söluleyfi í Evrópu og í nóvember sama ár í Bandaríkjunum.

Nú starfa átta starfsmenn hjá fyrirtæknu og fóru tekjur fyrirtækisins af tækjasölunni strax yfir 170 milljónir íslenskra króna á fyrsta söluári sem gerði fyrirtækið sjálfbært. Stefnir fyrirtækið á tvöfalda þá upphæð og gott betur á þessu ári. Fyrirtækið hefur því náð þeim árangri á skömmum tíma að þroskast frá engu öðru en hugviti og reynslu starfsmanna til arðbærs lækningavöruframleiðenda með vörur sem seldar eru á alþjóðlegum markað. Nox Medical hefur aðsetur hjá Kím sem er frumkvöðlasetur fyrir fyrirtæki í heilbrigðistækni og skyldum greinum. Að Kími stendur Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við iðnaðarráðuneytið, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Summit ehf.

Nýsköpunarverðlaun Íslands

Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og nú einnig Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og vísindastarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna, sem voru fyrst viett árið 1994, er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.

Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica