Creative Europe sumarfréttir 2017

26.6.2017

Yfirlit yfir úthlutanir til íslenskra aðila frá Creative Europe á fyrri hluta ársins.

MEDIA


Íslenskum kvikmyndafyrirtækjum hefur gengið vel það sem af er árinu. Úthlutað hefur verið ríflega 25 milljónum króna til verkefna úr MEDIA, kvikmyndahluta Creative Europe. Í heild voru 17 umsóknir sendar inn á fyrsta hluta ársins 2017 og fengu níu þeirra (53%) úthlutanir að upphæð samtals 228.000 evrur. Það er frábær árangur hjá íslenskum fyrirtækjum að meira en helmingur innsendra umsókna skuli vera samþykktur, þar sem árangurshlutfall á evrópskum mælikvarða er mun lægra. Styrkirnir skiptust á eftirfarandi hátt:

Styrkir til framleiðenda

Styrkir til íslenskra fyrirtækja til undirbúnings kvikmynda: 
Á fyrsta skilafresti umsókna sóttu sjö íslenskir aðilar um og fengu þrír þeirra úthlutun: 

  • Tvíeyki ehf. fékk úthlutað 50.000 evrum fyrir kvikmyndina Una. 
  • Pegasus ehf. fékk úthlutað 50.000 evrum fyrir sjónvarpsþáttaröðina Hjarnið.
  • Netop ehf. fékk úthlutað 50.000 evrum fyrir kvikmyndina The County. 

Styrkir til framleiðenda til framleiðslu á sjónvarpsefni:
Á fyrsta skilafresti umsókna 2017 var ein íslensk umsókn send inn en fékk hún því miður ekki úthlutun.

Lán og styrkir til dreifingar á evrópskum kvikmyndum

Valkerfið
Á fyrsta skilafresti umsókna voru sjö íslenskar umsóknir sendar inn og fengu fimm þeirra úthlutun. Bíó Paradís fékk dreifingarstyrk vegna fimm kvikmynda eða 3.000 evrur fyrir hverja þeirra. Kvikmyndirnar eru: La Sage Femme, Frantz, Hymyileva Mies, Slava og Toivon Tuolla Puolen.

Styrkir til kvikmyndahátíða

Á fyrsta skilafresti umsókna voru tvær íslenskar umsóknir sendar inn og fékk önnur þeirra úthlutun. Fyrirtækið Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík fékk úthlutað 63.000 evrum fyrir RIFF 2017.

MENNING

Smærri samstarfsverkefni

Smærri samstarfsverkefni byggja á samstarfi a.m.k. þriggja Evrópulanda og þar geta styrkir verið allt að 200.000 evrur. Einn íslenskur verkefnisstjóri sendi inn umsókn en hún var ekki samþykkt. Að auki voru sjö íslenskir aðilar meðumsækjendur í smærri samstarfsverkefnum. Einungis eitt þeirra fékk úthlutun, verkefnið Keychange sem er stýrt af Performing Right Society Foundation í Stóra-Bretlandi. Iceland Airwaves tekur þátt í verkefninu, en aðrir þátttakendur eru Inferno Events GMBH & CO KG í Þýskalandi, Lastur Bookin SL á Spáni, Musiccase OU í Eistlandi og Musikcentrum Öst í Svíþjóð.

Stærri samstarfsverkefni

Í stærri verkefnaflokki samstarfsverkefna eiga þátttökulönd að vera a.m.k. sex og hægt er að sækja um allt að 2.000.000 evra. Einn íslenskur verkefnisstjóri sótti um fyrir síðasta umsóknarfrest og átta íslenskir aðilar voru meðumsækjendur í samstarfsumsóknum. Því miður hlaut engin þeirra brautargengi.

Næstu umsóknarfrestir í Menningu

  • Umsóknarfrestur evrópskra bókmenntaþýðinga er 25. júlí 2017. Bókaútgefendur geta sótt um styrk til þýðingar á 3–10 bókmenntaverkum úr evrópsku tungumáli yfir á íslensku. 
  • Umsóknarfrestur evrópskra samstarfsverkefna er áætlaður í nóvember 2017.

Creative Europe, kvikmynda- og menningaráætlun ESB, skiptist í tvo hluta, MEDIA og Menningu. MEDIA styður evrópska kvikmyndagerð og margmiðlun með styrkjum til þróunar, dreifingar og kynningar á kvikmyndum og tölvuleikjum. Áætlunin styður verkefni með evrópska og alþjóðlega skírskotun og notkun á nýrri tækni. Menning styrkir bókmenntaþýðingar og gerir listamönnum og fagmönnum í menningargeiranum kleift að koma verkum sínum á framfæri á alþjóðavettvangi auk þess sem hún styður við bakið á hundruðum evrópskra samstarfsverkefna á menningarsviðinu og ýmsum umræðu- og tengslanetum.

 

Hlekkur á fréttabréfsútgáfu
Þetta vefsvæði byggir á Eplica