Creative Europe sumarfréttir 2018

5.7.2018

MEDIA: 75 milljónir í styrki til íslenskra fyrirtækja. 

Menning: Íslenskt fyrirtæki þátttakandi í stóru samstarfsverkefni.

Creative Europe - MEDIA

Velgengni íslenskra kvikmynda í MEDIA áætluninni heldur áfram á árinu 2018. Það sem af er ári hafa ellefu íslenskar umsóknir verið sendar inn og fjórar þeirra fengið brautargengi (36% árangurshlutfall). Alls var úthlutað um 75 milljónum króna til þessara umsókna. 

Styrkir til dreifingar

Undir trénu fær 67.7 milljónir í dreifingarstyrk

Af árangri íslenskra kvikmynda ber hæst dreifingarstyrkur til kvikmyndarinnar Undir trénu, í leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar. Myndin fékk úthlutað 547.400 evrur eða 67,7 milljónir króna til dreifingar í 29 löndum. Þetta er frábær árangur þar sem aðeins sjö kvikmyndum var úthlutað dreifingarstyrkjum að þessu sinni. 

Styrkurinn er meðal þeirra stærstu sem íslenskar kvikmyndir hafa fengið til dreifingar erlendis frá því að Íslendingar hófu þátttöku í MEDIA árið 1992.

Styrkir til dreifingar á evrópskum kvikmyndum

Fjórar íslenskir umsækjendur sóttu um styrki til dreifingar á evrópskum kvikmyndum.Tveir þeirra fengu úthlutun: Bíó Paradís fyrir kvikmyndirnar  L'Apparition og L'Atelier, samtals 4.400 evrur.  

Styrkir til framleiðenda 

Styrkir til undirbúnings og framleiðslu kvikmynda til íslenskra fyrirtækja

Á fyrsta skilafresti voru  fjórar íslenskar umsóknir til undirbúnings kvikmynda sendar  inn og fékk ein þeirra úthlutun. Það var Kvikmyndafélag Íslands ehf. sem fékk úthlutað 50.000 evrur fyrir tónlistarmynd fyrir börn Abbababb

Styrkir til framleiðenda til framleiðslu á sjónvarpsefni

Ein umsókn var send inn til framleiðslu á sjónvarpsefni en fékk ekki úthlutun.  Styrkir til kvikmyndahátíða Á fyrsta skilafresti var ein íslensk umsókn send inn en fékk því miður ekki úthlutun.

Creative Europe - Menning

Samstarfsverkefni á sviði menningararfs

Menningarfyrirtækið Einkofi Productions er þátttakandi í stóru verkefniÍ verkefninu, NATUR: North Atlantic Tales, verður leitast við að skoða sameiginlega sögu Íslands, Noregs, Danmerkur og Bretlands. Listafólk tekur þátt, rannsakaðir munir, skjalasöfn og bækur í hverju landi fyrir sig og dreginn af því innblástur til sköpunar á nýjum verkum. Verkefnið mun skoða þjóðsögur, tungumál, verslunarhætti, fiskveiðar, iðnvæðingu, átök, olíu, sögu kvenna og rafræna framtíð. Verkefnið snýst um að tengja saman fortíð og nútíð þessara landa á listrænan hátt.

Upphaf verkefnisins má rekja til þess að árið 2018 er tileinkað menningararfi Evrópu. Markmið ársins er að koma á framfæri menningararfi Evrópu.

Verkefninu stýrir SICC Productions Ltd UK en þátttakendur eru: Einkofi Productions ehf. frá Íslandi, Erfjordgt.8 AS frá Noregi, Samskab Kunst og Kulturprodutioner ApS frá Danmörku. Samstarfið er til tveggja ára, 2018-2020, og nemur styrkur til verkefnis 200.000 evrum.

Nánari upplýsingar eru að finna: www.naturproject.org  

Bókmenntaþýðingar

Tvær umsóknir bárust frá íslenskum útgefanda en niðurstaða hefur ekki verið birt.  

Creative Europe, kvikmynda- og menningaráætlun ESB, skiptist í tvo hluta, MEDIA og Menningu. MEDIA styður evrópska kvikmyndagerð og margmiðlun með styrkjum til þróunar, dreifingar og kynningar á kvikmyndum og tölvuleikjum. Áætlunin styður verkefni með evrópska og alþjóðlega skírskotun og notkun á nýrri tækni. Menning styrkir bókmenntaþýðingar og gerir listamönnum og fagmönnum í menningargeiranum kleift að koma verkum sínum á framfæri á alþjóðavettvangi auk þess sem hún styður við bakið á hundruðum evrópskra samstarfsverkefna á menningarsviðinu og ýmsum umræðu- og tengslanetum. 

Fréttabréfsútgáfa
Þetta vefsvæði byggir á Eplica