Menning: Úthlutanir ársins 2017

21.12.2017

Í menningarhluta Creative Europe eru ÚTÓN – Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar og Nýsköpunarmiðstöð Íslands þátttakendur í tveimur evrópskum samstarfshópum og Iceland Airwaves tekur þátt í samstarfs­verkefninu Keychange.

Smærri samstarfsverkefni


Smærri samstarfsverkefni byggja á samstarfi a.m.k. þriggja Evrópulanda og þar geta styrkir verið allt að 200.000 evrur. Einn íslenskur verkefnisstjóri sendi inn umsókn en hún var ekki samþykkt. Að auki voru sjö íslenskir aðilar meðumsækjendur í smærri samstarfsverkefnum. Einungis eitt þeirra fékk úthlutun, verkefnið Keychange sem er stýrt af Performing Right Society Foundation í Stóra-Bretlandi. Iceland Airwaves tekur þátt í verkefninu, en aðrir þátttakendur eru Inferno Events GMBH & CO KG í Þýskalandi, Lastur Bookin SL á Spáni, Musiccase OU í Eistlandi og Musikcentrum Öst í Svíþjóð.

Stærri samstarfsverkefni


Í stærri verkefnaflokki samstarfsverkefna eiga þátttökulönd að vera a.m.k. sex og hægt er að sækja um allt að 2.000.000 evra. Einn íslenskur verkefnisstjóri sótti um fyrir síðasta umsóknarfrest og átta íslenskir aðilar voru meðumsækjendur í samstarfsumsóknum. Því miður hlaut engin þeirra brautargengi.

Evrópskir samstarfshópar


Evrópskir samstarfshópar miða að því að koma ungum upprennandi listamönnum og listsköpun þeirra á framfæri. Markmiðið er að greina nýjar stefnur og ný tækifæri í skapandi greinum til að fleiri njóti listar og menningar. Íslenskir aðilar tóku þátt í þremur umsóknum í þessum flokki og tvær umsóknir hlutu brautargengi.

ÚTÓN – Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar er þátttakandi í verkefninu European Talent Exchange Programme (www.etep.nl). Markmið verkefnisins er að auðvelda uppsetningu sýninga og auka ferðir listamanna landa á milli í Evrópu og ýta undir samvinnu fjölmiðla og evrópsks tónlistariðnaðar til að koma evrópskum tónlistarmönnum á framfæri.


Con Stichting Noorderslag (NL) stýrir verkefninu. Þær stofnanir sem taka þátt eru: Associação Empresarial WHY Portugal (PT), Bureau Export (FR), First Music Contact (IE), Fondazione Arezzo Wave Italia (IT), ÚTÓN – Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar (IS), Initiative Musik gGmbH (DE), Institut Catala De Les Empreses Culturals (ES), Kunstenpunt vzw - Flanders Arts Institute (BE), Music Estonia MTÜ (EE), Music Finland ry (FI), Music LX association sans But Lucratif (LU), Music Norway (NO), Musik Informations Centrum Austria (AT) og Wallone Bruxelles International (BE).

Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ) er þátttakandi í verkefninu Distributed Design Market Platform sem snýst um þróun á Fablabs.io, korti yfir rúmlega 1000 stafrænar smiðjur í 40 löndum. Smiðjurnar eru með meira en 10.000 skráða félaga sem eru listamenn, vísindamenn, verkfræðingar, kennarar, stúdentar o.fl. á aldrinum 5–75 ára. Með því að nýta sér kortið geta þátttakendur tengst og deilt þekkingu, tæknikunnáttu og nýsköpun. Hægt er að kynna sér stafrænu smiðjurnar á heimasíðunni www.fablab.is. Heildarstyrkur til verkefnisins er 500.000 evrur og NMÍ fær 25.000 evrur í sinn hlut.

Con Institut D‘Arquitectura avancada De Catalunya (ES), stýrir verkefninu. Þátttakendur eru: Artilect (FR), Dansk Design Center (DK), Fabrikációs Laboratórium Kft. (HU), Foreningen Maker (DK), HappyLab GMBH (AT), Limewharf Annexe (UK), Makea Industries GMBH (DE), Nýsköpunarmiðstöð Íslands (IS), Politecnico Di Milano (IT), Republica GmbH (DE), Stichting Pakhuis de Zwijger (NL) og Stichting Peer to Peer Alternatives - Greece (EL).

Bókmenntaþýðingar


Bókaútgefendur geta sótt um allt að 100.000 evrur til að þýða 3-5 bækur yfir á íslensku. Ein umsókn fór inn frá íslenskum umsækjenda en hún fékk ekki vilyrði. 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica