Samtal um menntun til sjálfbærni
Menntamálaráðherrar Norðurlanda og forysta kennarasamtaka á Norðurlöndum ræddu menntun til sjálfbærni á öllum námsstigum í Hörpu 3. maí.
Þessi fundur um menntastefnu var í formi samtals milli norrænu menntamálaráðherranna og forystu kennarasamtakanna á Norðurlöndum um þemað: „Hvernig getum við aukið vitund um sjálfbærni í menntun“.
Þemað tengist áætlun Norðurlanda um
sjálfbærni (Nordic Vision 2030) og verkefni okkar Menntun til sjálfbærni sem og
formennskuverkefni Íslands 2019–2021.
Þetta var fyrsti fundur allra menntamálaráðherra á Norðurlöndum með forystu
kennarasamtaka um þetta þema.
Þrjár lykilspurningar voru ræddar:
1. Hvernig getum við aukið vitund um sjálfbærni í menntun barna og ungmenna?
2. Hvernig vinnum við með skólunum að markmiðum varðandi sjálfbærni?
3. Hvaða verkfæri þurfa kennarar til að hjálpa þeim í átt að sjálfbærnimenntun í framtíðinni?
Umræðum stjórnaði Bogi Ágústsson. Lýstu ráðherrar m.a. ýmsum leiðum sem þegar hafa verið innleiddar í þeirra löndum til að efla sjálfbærni í skólastarfi, eða eru í bígerð. Norrænt menntakerfi er öflugt og það er mikilvægt að samfélagið allt leggist á árarnar til að framtíðarsýn um að Norðurlönd verði sjálfbærasta svæði heims geti orðið að veruleika. Þar gegnir skólinn lykilhlutverki og fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að leitast við að innleiða sjálfbærni í skólastarf á öllum skólastigum.
Þar sem þetta voru óformlegar umræður var ekki samþykkt formleg ályktun, en sænsku kennarasamtökin hyggjast funda með ráðherrum á næsta ári, þegar Svíþjóð fer með formennsku í Norðurlandaráði.
Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands
Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og leiðir samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.
Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum.