Vel heppnaður fundur um áskoranir samtímans, leiðangra innan Horizon Europe

4.3.2022

Þann 24. febrúar sl. stóð Rannís fyrir kynningar- og samráðsfundi með stjórnendum lykilráðuneyta, forsvarsmönnum stofnana og hagaðila til að fjalla um leiðangra, rannsókna- og nýsköpunaráætlunar ESB sem beinast að loftslags- og umhverfisbreytingum

Óhætt er að segja að fundurinn hafi tekist vel og tók þátt í honum breiður hópur fólks úr mismunandi geirum sem öll eiga það sammerkt að vinna að loftslags- og umhverfisbreytingum með einum eða öðrum hætti.

Leiðangrar ESB eru nýlunda og af öðrum toga en hefðbundnar samstarfs­áætlanir eða átaksverkefni sem Evrópusambandið hefur ráðist í til þessa. Í fyrsta lagi er horft heilan áratug fram í tímann og eru hverjum leiðangri sett markmið sem stefnt er að því að náist árið 2030. Í öðru lagi þá er lagt upp með víðtækt samráð og aðkomu fjölmargra aðila að framkvæmd og fjármögnun til að ná mjög metnaðarfullum markmiðum. Í þriðja lagi gera allir leiðangrar ráð fyrir því að ráðist verði í 100-150 leiðandi stórverkefni sem eiga að sýna hvernig hægt er að takast á við þessar áskoranir og vera þannig öðrum (svæðum) fyrirmynd. Gert er ráð fyrir að heildar fjárveiting úr Horizon Europe til leiðangranna verði 3-5 milljarðar evra á næstu 7 árum (400-700 ma.kr.).

Tilgangur fundarins var að hefja þetta virka samráð og samhæfingu milli stjórnsýslunnar, stofnana, sveitarfélaga, rannsóknaumhverfisins og hagaðila sem nær út fyrir hið hefðbundna rannsókna- og þróunarsamstarf. Kynna fyrir hlutaðeigandi hvað felst í leiðöngrum, hver eru markmið þeirra og umfang og hvernig staðið verður að framkvæmdinni.

Lagt af stað í leiðangra ( glærur frá fundi)

Opnunarávörp fluttu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra. Báðir ráðherrar hvöttu alla sem málið varðar hvort sem um er að ræða frjáls félagasamtök, fyrirtæki eða stjórnsýsluna að taka þátt með stjórnvöldum í því stóra verkefni sem loftslags- og umhvernisbreytingar eru.

Kveðju frá ESB flutti Lucie Samcová - Hall Allen, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi sem ræddi m.a. um góðan árangur Íslands í fyrri rannsókna- og nýsköpunaráætlunum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkurborgar sagði frá áformum um að Reykjavík verði valin sem ein af 100 kolefnishlutlausum snjallborgum Evrópu árið 2030, en tæplega 400 borgir keppast um að komast í þann hóp.

Að framsögum loknum voru líflegar umræður og fram kom mikill metnaður og áhugi á að Ísland verði virkur þátttakandi í leiðandi stórverkefnum á næstu árum. Rannís mun í framhaldinu setja af stað bakhópa um hvern leiðangur sem munu kortleggja nánar tækifæri íslenskra aðila. 

Nánari upplýsingar um leiðangra innan Horizon Europe
Þetta vefsvæði byggir á Eplica