Þátttaka Íslands í áætlunum ESB í rannsóknum, menntun og menningu

Styrkveitingar Íslands frá upphafi þátttöku árið 1995 sem og árangur af sókn í yfirstandandi áætlanir sem hófust árið 2014 og gilda til ársins 2020.

Hlutverk Rannís er meðal annars að styðja þekkingarsamfélagið á Íslandi með aðstoð og kynningu á alþjóðlegum sóknarfærum og samstarfsmöguleikum. Evrópskt og norrænt samstarf er umfangsmikið í starfsemi Rannís sem er helsta þjónustustofnun á Íslandi á þessu sviði. Alþjóðasvið Rannís hefur umsjón með fjölmörgum evrópskum og norrænum styrkjaáætlunum og verkefnum sem miða að því að styðja við alþjóðlegt samstarf íslensks vísindasamfélags. Stærsta einstaka verkefni sviðsins er Horizon 2020, rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins (ESB), og hefur Rannís umsjón með starfi stjórnarnefndarfulltrúa og landstengiliða áætlunarinnar fyrir Íslands hönd. Mennta- og menningarsvið Rannís hefur umsjón með Erasmus+ mennta- og æskulýðsáætlun Evrópusambandsins og Creative Europe kvikmynda- og menningaráætlun Evrópusambandsins. Einnig annast sviðið tvær aðrar alþjóðlegar áætlanir.

Framþróun samfélagsins byggir á alþjóðlegu samstarfi, markaðir eru erlendis, þekking og aðföng eru einungis í litlu mæli aðgengileg hér á landi og því mikilvægt að stuðla að umfangsmiklu samstarfi og tengslaneti alþjóðlega, en slíkt styrkir samkeppnisstöðu landsins. Ísland hefur aðgang að fjármagni í alþjóðlegri samkeppni á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Árangur í alþjóðlegum samkeppnissjóðum er mikilvægur prófsteinn á getu innlendra aðila og er árangurinn góður í samkeppni við aðrar Evrópuþjóðir. Fjármagn til íslenskra aðila er þó alls ekki eini mælikvarðinn á gagnsemi alþjóðlegs samstarfs, heldur er ávinningurinn margþættur.

Í þessari samantekt eru birtar upplýsingar um árangur Íslands í þeim þremur áætlunum ESB sem Rannís hefur umsjón með: Horizon 2020 (rannsóknir og nýsköpun), Erasmus+ (menntun og æskulýðsstarf) og Creative Europe (kvikmyndir og menning). Er þetta önnur útgáfa samantektarinnar sem var fyrst gefin út árið 2017. Tilgangur hennar er að gera aðgengilegar upplýsingar um sókn, árangur og samanburð sem gæti nýst íslenskum stjórnvöldum og hagaðilum við stefnumótun og skipulag á sínu sviði. Umfang evrópsks samstarfs hefur farið vaxandi á síðustu árum og mun sá vöxtur halda áfram fram til ársins 2020. Er því mikilvægt að sem flestir séu upplýstir um umfang og tækifæri sem í því felast.

Hér eru fyrst teknar saman heildarupplýsingar um þróunina frá upphafi þátttöku Íslands í áætlununum árið 1995 og gerð grein fyrir styrkveitingum til Íslands og jafnframt kostnaði Íslands vegna þátttökunnar. Þá er gerð ítarlegri grein fyrir árangri af sókn í yfirstandandi áætlanir sem hófust 2014 og gilda til ársins 2020. Þar sem þess er kostur er leitast við að bera saman þátttöku Íslands við aðrar þjóðir, sem hafa verið valdar til samanburðar, þ.e. nágrannaþjóðir og smáríki.

Heildaryfirlit yfir þátttöku

Þátttaka Íslands í samstarfsáætlunum ESB hefur verið umfangsmikil frá 1995. Árangur af sókn íslenskra aðila í evrópskar samkeppnisáætlanir hefur verið góður í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir og fjárhagslegt umfang þátttökunnar hefur aukist í takt við stækkandi áætlanir á hverju tímabili. Fjárhagslegur ávinningur Íslands af þátttökunni er mun meiri en það sem lagt er til áætlunarinnar; fyrir hverja evru sem lögð er til koma rúmlega tvær evrur til baka, eins og mynd 1 sýnir. Á sömu mynd má sjá heildarstuðning til Íslands frá árinu 1995 til ársins 2017, annars vegar styrkveitingar til Íslands og hins vegar skuldbindingar Íslands vegna þátttöku. Af þeim þremur áætlunum sem Rannís hefur umsjón með er Horizon 2020 stærst, en hún er um 76% af umfangi þess samstarfs sem Ísland tekur þátt í á grundvelli EES samningsins. Erasmus+ er um 15% af umfangi og Creative Europe er um 1,5%. Þessar þrjár áætlanir eru stærri á yfirstandandi tímabili en fyrri áætlanir og er heildarfjárveiting ESB til þeirra á tímabilinu 2014–2020 um 100 milljarðar evra.

Mynd 1. Stóra myndin: Styrkveitingar til Íslands og skuldbindingar Íslands frá 1995.

Ein leið til að meta árangur er samanburður við aðrar þjóðir. Mynd 2 sýnir styrki í evrum á hvern íbúa í þeim samanburðarlöndum sem valin hafa verið í þessa tölfræðisamantekt. Myndin sýnir að styrkveitingar á hvern íbúa eru hæstar á Íslandi og munar þar umtalsverðu. Af myndinni má álykta að árangur af sókn í áætlanirnar hafi verið góður. Rétt er að taka fram að í Erasmus+ er ekki samkeppni á milli landa, úthlutun styrkja fer að mestu leyti fram í löndunum sjálfum og byggist hún á ákveðnum reiknireglum. Njóta þar smærri ríkin fámennisins eins og myndin sýnir glöggt.

Mynd 2. Rannsóknir, menntun og menning: Styrkir í evrum á hvern íbúa 2014–2017.

Árangur eftir áætlunum

 ""Horizon 2020 - Rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun  ""Erasmus+ - Menntun, þjálfun og æskulýðstarf  ""Creative Europe - Kvikmyndir og menning

 








Þetta vefsvæði byggir á Eplica