Á döfinni

Evrópuverðlaunin fyrir nýsköpun í kennslu 2025 - nú með Evrópumerkinu

  • 15.6.2025, Umsóknarfrestur

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins veitir árlega Evrópuverðlaunin fyrir nýsköpun í kennslu (European Innovative Teaching Award – EITA) sem viðurkenningu fyrir framúrskarandi og nýstárlegt starf á sviði kennslu og náms á mismunandi skólastigum. Verðlaunin eru liður í því að gera gæðum í menntun hátt undir höfði og stuðla að innleiðingu nýrra aðferða, með áherslu á alþjóðlegt samstarf og framtíðarhæfni nemenda.

Evrópumerkið í tungumálum verður hluti af verðlaununum

Í ár verður sérstök nýjung innleidd í tengslum við verðlaunin: Evrópumerkið (European Language Label) verður hluti af EITA og þar með hlýtur eitt verkefni sem hefur skarað fram úr á sviði nýbreytni í tungumálanámi og tungumálakennslu þessi Evrópuverðlaun. Evrópumerkið hefur um árabil verið veitt fyrir verkefni sem ýta undir fjöltyngi, nýsköpun og gæði í tungumálakennslu og -námi – og með þessari sameiningu fá tungumálaverkefni nú aukinn sýnileika og áhrif.

Fjárstyrkur fylgir viðurkenningunni

Verðlaunin árið 2025 verða veitt í október (nákvæm dagsetning verður auglýst síðar) og í ár fylgir þeim einnig sérstakur fjárstyrkur að upphæð 500.000 krónur. Styrkurinn skal nýttur til kynningar og frekari þróunar á verkefnunum sem hljóta verðlaunin, þannig að þau geti orðið öðrum innblástur og haft áhrif til framtíðar.

Þema Evrópuverðlaunanna 2025

Þema verðlaunanna fyrir árið 2025 er lýðræðismenntun - þátttaka í lýðræðislegu samfélagi, sameiginleg gildi og borgaraleg þátttaka (Citizenship education – participation in democratic life, common values and civic engagement). Í því felst að fólk sé stutt til virkrar og félagslegrar þátttöku í samfélaginu og þannig stuðlað að því að fjölbreyttar raddir móti umhverfið.

Hverjir geta sótt um?

Kennarar og skólastofnanir á öllum skólastigum geta sótt um viðurkenninguna, óháð stærð skóla eða staðsetningu. Lögð er áhersla á verkefni sem:

  • hófust á árunum 2020 til 2024 og er þegar lokið,
  • styðja við markmið Erasmus+ áætlunarinnar,
  • hafa alþjóðlega vídd,
  • stuðla að nýsköpun og gæðum í kennsluháttum,
  • og – þegar um Evrópumerkið er að ræða – efla tungumálakennslu á fjölbreyttan og árangursríkan hátt.

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur er til og með 15. júní 2025. Við hvetjum öll sem hafa unnið að nýstárlegum verkefnum á sviði kennslu og skólaþróunar að nýta tækifærið til að fá viðurkenningu og styrk til að miðla og þróa áfram starf sitt.

Sæktu um Evrópsku nýsköpunarverðlaunin í kennslu hér








Þetta vefsvæði byggir á Eplica