Á döfinni

Mennta­rannsókna­sjóður mennta- og barnamálaráðherra

  • 23.11.2023 - 15:00, Umsóknarfrestur
  • 26.11.2025 - 15:00, Umsóknarfrestur

Úthlutunarreglur og skilmálar

Umsækjendur skulu kynna sér vel úthlutunarreglur og skilmála menntarannsóknasjóðs undir nytsamlegum tenglum hér á síðunni.

Rannsóknaráherslur 2025

Áherslur sjóðsins eru eftirfarandi:

Verkefni:

  • 1. Gæði kennslu – Rannsóknum í þessum flokki er ætlað að varpa ljósi á árangursríka kennsluhætti sem reynast vel til að styðja við byrjendalæsi í leikskólum og bæta lestrarfærni, námsárangur og námsáhuga barna og ungmenna í grunn- og framhaldsskólum.
  • 2. Líðan barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi - Rannsóknum í þessum flokki er ætlað að varpa ljósi á hvernig við getum best eflt félags-, tengsla og tilfinningafærni meðal barna og ungmenna.
  • 3. Stafrænt umhverfi barna og ungmenna - Rannsóknum í þessum flokki er ætlað að varpa ljósi á hvernig við getum betur stutt við hæfni barna og ungmenna til að athafna sig í umhverfi þar sem gervigreind og aðrar stafrænar lausnir eru notaðar á fjölbreyttan og oft ófyrirsjáanlegan hátt.
  • 4. Skapandi og gagnrýnin hugsun - Rannsóknum í þessum flokki er ætlað að varpa ljósi á hvernig við getum best stutt við skapandi og gagnrýna hugsun barna og ungmenna.
  • 5. Náms- og félagsumhverfi barna og ungmenna – Rannsóknum í þessum flokki er ætlað að varpa ljósi á þá þætti í námsumhverfi barna og ungmenna sem skipta mestu máli fyrir líðan og nám þeirra.

Sunnusjóður:

  • 6. Menntun fatlaðra barna – Í samræmi við markmið Sunnusjóðs er rannsóknum í þessum flokki er ætlað að stuðla að umbótum í kennslu og þjálfun fjölfatlaðra barna á grunnskólastigi og efla tækifæri þeirra til áframhaldandi náms og þroska.

Sjá nánar um rannsóknaráherslur undir Nytsamlegir tenglar hér á síðunni.

Hvert er markmiðið?

Menntarannsóknasjóður mennta- og barnamálaráðherra styrkir hagnýtar menntarannsóknir á sviði leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og frístundastarfs sem byggja á samstarfi rannsakenda og fagfólks í skóla- og frístundastarfi. Markmið menntarannsóknasjóðs er að styrkja stoðir hagnýtra menntarannsókna, auka tækifæri til að skapa og miðla þekkingu til framþróunar og farsældar í skólastarfi og styðja við framkvæmd menntastefnu.

Hverjir geta sótt um?

Rannsakendur á sviði menntavísinda við íslenska háskóla og rannsóknastofnanir geta sótt um verkefnisstyrki. Rannsakendur geta myndað rannsóknarhóp með samstarfsfólki við aðrar rannsóknastofnanir og/eða fagfólki á sviði menntamála, s.s. við leik-, grunn- og framhaldsskóla, sveitarfélög, félagasamtök og fyrirtæki.

Styrkflokkar og umsækjendur

Styrkflokkar eru tveir:

  • Verkefnisstyrkir (áhersla 1 til 5) 
  • Sunnusjóður (áhersla 6). 

Alls eru 142 m.kr. til úthlutunar í Verkefnaflokki; 25 m.kr. í Sunnusjóði. 

Styrkflokkur Áherslur Tími Upphæð Samrekstur Alls
Verkefni 1 til 5 24 25.000.000 6.250.000 31.250.000
Sunnusjóður 6 24 20.000.000 5.000.000 25.000.000

Rannsakendur þurfa að hafa lokið að lágmarki MEd/MA/MS gráðu til að geta leitt verkefni. Það styrkir umsóknir um verkefnisstyrki ef gert er ráð fyrir þjálfun ungra vísindamanna með þátttöku framhaldsnema og/eða nýdoktora; verkefni skulu fela í sér samstarf við fagfólk á sviði menntamála, s.s. við leik-, grunn- og framhaldsskóla, sveitarfélög, félagasamtök og fyrirtæki. Styrkir eru veittir í allt að 24 mánuði.

Samþykktur kostnaður

Eftirfarandi kostnaður er samþykktur. Samrekstur og aðstaða leggst sjálfkrafa ofan á umsótta upphæð, að undanskilinni aðkeyptri þjónustu.

Laun

Sjóðurinn styrkir laun framhaldsnema og rannsóknamanna. Ekki þurfa allir þátttakendur að vera nafngreindir þegar umsóknarfrestur rennur út en vinnuframlag allra þátttakenda sem sótt er um laun fyrir verður að vera skilgreint í umsókn. Hægt er að sækja um laun í allt að 12 mánuði fyrir meistaranema. Menntarannsóknasjóður styrkir ekki greiðslu launa til þeirra sem eru á fullum launum í öðrum störfum (þ.m.t. lífeyrisþega), greiðslu á yfirvinnu vegna rannsókna eða til kaupa á kennsluafslætti.

Ferðakostnaður

Hægt er að sækja um kostnað vegna ferða sem eru nauðsynlegar fyrir framgang verkefnisins. Í skýringum skal færa rök fyrir öllum ferðum og á hvern hátt þær tengjast verkefninu. 

Samrekstur og aðstaða

Að undanskilinni aðkeyptri þjónustu, leggjast 25% sjálfkrafa ofan á sóttan styrk til að fjármagna samrekstur og aðstöðu. Um er að ræða kostnað vegna skrifstofu- og rannsóknaraðstöðu svo sem leigu, hita, rafmagn, stjórnun rekstrareininga, bóka- og tímaritakaup, kaup og rekstur á tölvubúnaði o. fl. Upphæðin leggst sjálfkrafa ofan á sóttan styrk.

Rekstrarkostnaður

Hægt er að sækja um kostnað vegna nauðsynlegra aðfanga fyrir verkefnið. Gera þarf grein fyrir öllum rekstrarkostnaði sundurliðað í viðeigandi reitum í rafræna umsóknareyðublaðinu. Ekki er hægt að sækja um kostnað vegna liða sem falla undir samrekstur og aðstöðu, þar með talinn almennan skrifstofubúnað svo sem tölvur. Óútskýrður kostnaður verður ekki samþykktur.

Aðkeypt þjónusta

Undir þennan lið fellur vinna sem ekki er unnin af þátttakendum í verkefninu, en er nauðsynleg fyrir framgang þess. Gera þarf grein fyrir öllum kostnaði vegna aðkeyptrar þjónustu sundurliðað í viðeigandi reitum í rafræna umsóknareyðublaðinu. Tilboð vegna aðkeyptrar þjónustu skal liggja fyrir við undirskrift samninga. Fjármögnun samrekstrar og aðstöðu er ekki reiknuð vegna aðkeyptrar þjónustu.

Útgáfukostnaður

Hægt er að sækja um allt að 500 þúsund krónur vegna birtingarkostnaðar. Upphæðinni má dreifa yfir samningstímann.

Hvernig er sótt um?

Umsóknum skal skila inn í rafrænt umsóknarkerfi Rannís. Umsóknir geta verið á íslensku eða ensku.

Nánari upplýsingar

Frekari upplýsingar er að finna í úthlutunarreglum og skilmálum sjóðsins.

Hlutverk Rannís

Rannís sinnir stuðningi við umsækjendur, tekur á móti umsóknum í gegnum rafrænt umsóknakerfi, og stýrir matsferli umsókna.

nánari upplýsingar

  • Sendið fyrirspurnir til Menntarannsóknasjóðs á netfangið:
  • menntasjodur (hjá) rannis.is







Þetta vefsvæði byggir á Eplica