Hvatningarverðlaun 2013

Dr. Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, hlaut Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs fyrir 2013, sem afhent voru á Rannsóknaþingi Rannís fimmtudaginn 5. desember. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti verðlaunin að þessu sinni.


Jón Gunnar fæddist árið 1973. Hann lauk BA prófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og doktorsprófi í sömu grein frá State University of New York í Albany. Hann var handhafi rannsóknastöðustyrks Rannís árin 2003 til 2005, en hefur kennt við Háskóla Íslands frá árinu 2002. Jón Gunnar var ráðinn lektor við félagsvísindadeild HÍ árið 2005, dósent við sömu deild árið 2007 og loks prófessor við félags- og mannvísindadeild árið 2009.  

Jón Gunnar er þegar kominn í fremstu röð íslenskra félagsvísindamanna. Eftir hann liggur fjöldi greina í virtum tímaritum. Rannsóknir Jóns Gunnars eru auk þess unnar í virku alþjóðlegu samstarfi. Niðurstöður rannsókna hans og samstarfsfólks hafa birst í gæðatímaritum eins og Sociology, Criminology og Journal of Research Crime and Delinquency. Hann hefur einnig gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir rannsóknarsamfélagið bæði innan lands og utan. 

Sérsvið Jóns Gunnars eru félagsleg frávik, afbrotafræði, skipulagsheildir og aðferðafræði.  Hann hefur sýnt að hann er óragur við að glíma við ólík viðfangsefni á sviði félagsfræði. Hann hefur einkum unnið mikilvægt starf á þremur fræðasviðum í rannsóknum á íslensku samfélagi.  Í fyrsta lagi er hann einn af leiðandi fræðimönnum á sviði stimplunarkenninga í félagsfræði (labeling theory). Í öðru lagi hefur hann látið að sér kveða í kenningum um siðrof. Loks hefur hann verið í fararbroddi rannsókna á áhrifum og gerð nærsamfélagsins og áhrifum þess á velferð barna og unglinga hérlendis. Þessar rannsóknir eru taldar hafa bæði mikið fræðilegt og hagnýtt gildi.  

Í störfum sínum hefur Jón Gunnar sýnt að hann er afbragðsfræðimaður, kennari og stjórnandi. Hann er brautryðjandi í sínu fagi, á gott með að vinna með öðrum og hefur haft áhrif á aðra fræðimenn í rannsóknum sínum. Það er álit dómnefndar hvatningarverðlaunanna að Jón Gunnar Bernburg uppfylli öll viðmið hennar og sé því verðugur handhafi Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs 2013.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica