Úthlutanir 2023

Nánari lýsing á verkefnum er fengu styrk árið 2023:

Guðrún Rútsdóttir o.fl. – kr. 6.000.000 – Djasshátíð barnanna og Barnadjass um allt land

Nýtt verkefni á Íslandi, hluti af umfangsmiklu samnorrænu starfi, sem miðar að því að koma norrænum barnadjassi á kortið. Verkefninu er ætlað að kynna djasstónlist fyrir börnum um allt land. Börnunum er kennt að spila djass eftir eyranu og spinna. Nýstárlegar kennsluaðferðir verða kynntar kennurum á hverjum stað. Ný tónlist eftir Karl Olgeirsson verður með í farteskinu. Djasshátíð barnanna verður svo haldin í Mosfellsbæ, þar sem djasstónlistin hjómar í flutningi innlendra og erlendra gesta.

Listasafn Íslands – kr. 6.000.000 – Ísabrot - Jöklar í íslenskri náttúru

Listasmiðjur sem hverfast um jökla landsins út frá vísindalegri þekkingu og listrænni sköpun. Þær verða haldnar í samstarfi við skóla í öllum landshlutum og umsjón verður í höndum listamanna. Unnið verður með himingeiminn og rannsóknir á bráðnun jökla með gögnum frá gervitunglum, jurtir sem koma undan jöklum, form og áferð jökla, jökla sem vettvang gjörninga, minningar um jökla sem eru ekki lengur til, hljóðheima jökla, litaheim jökla, kortlagningu og hreyfingu þeirra.

Hringleikur – sirkuslistafélag og Pilkington Props – kr. 5.500.000 – Sæskrímslin í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík

Ferð Sæskrímslanna um landið. Sæskrímslin er götuleikhússýning af stærri gerðinni sem frumfluttverður á Listahátíð í Reykjavík 2024 og í framhaldi sýnd um land allt. Sæskrímsli rísa úr sæ og ganga á land í þessari draumkenndu og um leið ágengu sýningu sem höfðar til breiðsáhorfendahóps. Innblástur verksins verður fenginn úr þjóðsagnaarfi Íslendinga. Sýnendur verksins er sirkuslistafólk í samstarfi við börn á hverjum stað fyrir sig.

Austurbrú – kr. 5.000.000 – BRAS menningarhátíð fyrir börn og ungmenni á Austurlandi

BRAS menningarhátíð, er í samstarfi við fjölda listamanna og menningarstofnana á Austurlandi. Í ár er yfirskriftin „Hringavitleysa“. Nafnið er dregið af þema ársins sem er „hringurinn“ en hringurinn sem form hefur marga eftirsóknarverða eiginleika, hann hefur hvorki upphaf né endi, allt rúmast innan hans og utan. Allt fer í hringi; lífið, tískan, jörðin, sólin og tunglið. Á BRASinu í ár verða gleðin, sköpunarkrafturinn, hringrásarhagkerfið og lífsviljinn höfð að leiðarljósi. Fjölgað hefur verið stofnunum og söfnum á Austurlandi sem bjóða upp á viðburði í heimabyggð.

Náttúruminjasafn Íslands – kr. 5.000.000 – Eldur, ís og mjúkur mosi í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð o.fl.

Börn í nágrenni Vatnajökulsþjóðgarðs vinna fjölbreytt verkefni tengd listsköpun, náttúruvernd ogþjóðgarðinum í allri sinni dýrð. Grunnskólabörn umhverfis garðinn skipuleggja m.a.fræðslugöngur eða viðburði í gestastofum, setja upp sýningar og skipuleggja málþing til aðvelta upp spurningum eins og „Hvað er náttúruvernd og hvernig getum við komið betur fram viðnáttúruna?“ Verkefnið er samstarfsverkefni Náttúruminjasafn Íslands, Vatnajökulsþjóðgarðs,skóla og listafólks í nærumhverfi garðsins.

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands – kr. 5.000.000 – Burtu með fordóma

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands í samstarfi við hljómsveitina Pollapönk halda tónleika með tónlist Pollapönks undir yfirskriftinni „Burtu með fordóma“. Verkefnið snýst um að bjóða nemendum allra tónlistarskóla á Suðurlandi og nemendum leikskóla í Árborg að taka þátt í tónleikunum sem virkir flytjendur. Einnig verður leitað til leikskólabarna og þau beðin um að segja sitt álit á því hvernig sé best að reka fordómana burt. Þeirra ráð verða opinberuð og kynnt á tónleikadag.

Vestfjarðastofa – kr. 4.600.000 – Barnamenningarhátíð á Vestfjörðum

Barnamenningarhátíð á Vestfjörðum fer fram í fjórðungnum gervöllum, með virkri þátttöku barna og ungmenna, allt frá undirbúningi að framkvæmd og frágangi. Hátíðinni er ætlað að efla menningu barna og ungmenna á Vestfjörðum án tillits til uppruna, menningar eða kynvitundar. Henni er ætlað að kynna fjölbreytilega menningu og hvetja börn til dáða í skapandi greinum, efla lýðræðisvitund þeirra og forystuhæfileika, og þroska menningarvitund þeirra. Verkefnið er unnið í samstarfi allra grunnskóla og fjölda menningarstofnana á Vestfjörðum.

Heimildamyndahátíðin Skjaldborg – kr. 4.500.000 - Skjaldbakan

Skjaldbakan er fræðslu- og barnastarf Skjaldborgar — hátíðar íslenskra heimildamynda. Hún skríður um landið og býður upp á námskeið í heimildamyndagerð. Hún býður krökkum að horfa í kring um sig og skoða sitt nærumhverfi og sinn hversdagsleika í gegnum nýja linsu. Verkefnið gefur þeim tækifæri til þess að varpa sínum hugarheim á hvíta tjaldið og upplifa sig sem höfund verks í sal fullum af áhorfendum. Skjaldbakan vinnur með skólum á Patreksfirði, Seyðisfirði og í Reykjavík og býr þannig til tengingar þvert yfir landið.

Akraneskaupstaður – kr. 4.100.000 – Barnamanningarhátíð Vesturlands 2024

Barnamenningarhátíðin verður haldin á Akranesi 2024 og verður þemað á hátíðinni skrímsli. Unnið verður að því að endurheimta tengingar við náttúruna, þar sem búa furðuskepnur og forynjur. Börn eru móttækilegri fyrir þessum furðum og munu endurskapa þær með skúlptúrum, myndlist, tónlist og leikrænni tjáningu. Stofnanir Akraneskaupstaðar á borð við Akranesvita, bókasafn, byggðasafn og skóla verða undirlögð af skrímslum sköpuðum af börnum fyrir börn. 

Pera Óperukollektív – kr. 4.000.000 – Söng- og óperuverkefni á Óperudögum 2023

Verkefnið felst í að standa fyrir fjölbreyttri dagskrá fyrir börn og ungmenni á Óperudögum 2023, sem fram fara bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Ungbarnaóperan Hjertelyd, Óperubrölt í borgarlandslaginu og gagnvirkar óperusmiðjur fyrir börn og ungmenni er meðal þess sem boðið verður upp á.

Leikfélag Reykjavíkur – kr. 3.300.000 – Krakkaþing Fíusólar

Borgarleikhúsið efnir til tveggja krakkaþinga í tengslum við sýninguna Fíasól gefst aldrei upp sem byggir á samnefndri barnabók Kristínar Helgu Gunnarsdóttur. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna liggur til grundvallar bæði bókinni og leikgerðinni og með krakkaþingunum standa vonir til að kynna sáttmálann fyrir þeim börnum sem taka þátt í sýningunni og fyrir þeim börnum sem taka þátt í seinna krakkaþinginu. Þannig leggur verkefnið sitt af mörkum til að innleiða barnasáttmálann inn í daglegt líf barna.

Eyjólfur Eyjólfsson – kr. 3.000.000 – Langspilssmiðjur með Fab Lab-langspilum

Í langspilssmiðjunum kynnast börn heillandi heimi langspilsins. Þátttakendur fræðast um hljóðfærið í sögulegu, menningarlegu og alþjóðlegu samhengi og læra undirstöðuatriðin í langspilsleik, eins og stramm og plokk með álftafjöðrum. Einnig verður boðið upp á að strjúka strengina með hrosshársbogum. Því næst verða kennd vel valin lög úr þjóðlagasafni sr. Bjarna Þorsteinssonar sem verða að lokum flutt við langspilsleik þátttakenda. Markmiðið er að kynna langspilið sem aðgengilegt kennslugagn og sköpunartæki fyrir leik- og grunnskólabörn í öllum landshlutum.

Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús – kr. 3.000.000 – Fjölskyldudagskrá; inngildingar- og aðgengisátak

Harpa stendur fyrir metnaðarfullri fjölskyldudagskrá sem er opin öllum og ókeypis. Harpa vill gera enn betur í ná til allra barna sem búsett eru á Íslandi og markmið verkefnisins er átak í bættu aðgengi með því að bæta við og aðlaga fjölskyldudagskrána með tilliti til ólíkra tungumála, bakgrunns og fötlunar. Það verður gert í samráði við breiðan hóp félagasamtaka og listafólks. Dæmi um nýja dagskrárliði sem bætast við eru hljóðratleikurinn Hvaðan kemur tónlistin? og tónsmiðjuröðin Takthjólið.

Jóhann Guðmundur Jóhannsson – kr. 3.000.000 - Tumi fer til tunglsins

Verkið er frumsamið söguljóð fyrir börn, tónlistarævintýri fyrir baritónsöngvara, sögumann, barnakór og kammerhljómsveit ætlað til flutnings á tónleikasviði. Kórinn verður skipaður u.þ.b. fimmtíu börnum á breiðu aldursbili. Verkinu er ætlað að skapa grundvöll fyrir samræður og vangaveltur um umhverfið og náttúruna, lýðræði og jafnrétti, samhygð og gildi vináttunnar og um nauðsyn þess að við lítum á heimkynni okkar sem eina litla einingu - rétt eins og Tumi og vinir hans gera þegar jörðin blasir við þeim.

Reykjanesbær – kr. 2.900.000 – Listástundun sem jöfnunartæki og sýning barna í Reykjanesbæ

Listasafn Reykjanesbæjar setur upp nýtt verkefni fyrir Listahátíð barna og ungmenna í samstarfi við grunnskóla Reykjanesbæjar. Það felur annars vegar í sér að allir grunnskólar bjóði upp á valgrein fyrir elsta stig, þar sem nemendur fá tækifæri til þess að skapa verk og taka þátt í undirbúningi fyrir sýningu. Hins vegar mun 5. bekkur í öllum grunnskólum taka þátt í þematengdu verkefni sem unnið er sérstaklega fyrir Listahátíð. Verkefninu er ætlað að jafna aðgengi barna að myndlist.

Sprengjuhöllin – kr. 2.800.000 – Trúnaðarmál

Trúnaðarmál er nýtt sviðslistaverk eftir Ásrúnu Magnúsdóttir. Verkið er flutt af unglingum og samið í nánu samstarfi við unglinga. Verkið fjallar um leyndarmál unglingsins og listrænt teymi verkefnisins ætlar að safna 1000 leyndarmálum frá unglingum á Íslandi. Þessi leyndarmál verða svo gerð opinber í Þjóðleikhúsinu á Reykjavík Dance Festival. Gætt verður nafnleyndar um öll leyndarmálin svo þau verði órekjanleg til einstaklinga, en þau verða gerð opinber í gegnum tónlist, dans og texta.

Menningarfélagið MurMur – kr. 2.270.000 – Twisted Forest

Twisted Forest, eftir danska leikhópinn Wunderland, er þátttökuverk fyrir ungmenni, sett upp í Heiðmörk. Verkið byggir á virkri þátttöku og líkamlegri skynjun áhorfenda og er upplifun hvers og eins því einstök. Verkið er ganga, þar sem áhorfendur eru leiddir áfram af hljóðverki og á földum svæðum í skóginum bíða þeirra óvæntar og nýstárlega upplifanir. Það rannsakar vistkerfi náttúrunnar og hvernig við, mannfólkið erum hluti af vistkerfi heimsins.

ASSITEJ á Íslandi – kr. 2.000.000 – UNGI – Sviðslistahátíð allra barna

Í ár verður Sviðslistahátíðin UNGI aðlöguð að ólíkum þörfum barna. Ungum áhorfendum gefst áfram tækifæri til að upplifa nýjar íslenskar sviðslistasýningar og margverðlaunaðar erlendar sýningar án endurgjalds, en í ár verða gerðar markvissar stefnubreytingar sem miða að því að öll börn geti notið, óháð kyni, stétt, uppruna eða fötlun svo að UNGI geti orðið sviðslistahátíð allra barna. M.a. verður boðið upp á sýningu fyrir fötluð börn, sýningu eftir fatlaða listamenn, táknmálstúlkun, hljóðlýsingu og rýmið aðlagað ólíkum þörfum barna.

Ásthildur Ákadóttir – kr. 2.000.000 – Máfurinn tónlistarsmiðja

Tónlistarsmiðja á höfuðborgarsvæðinu og á Stöðvarfirði, ætluð 8 – 12 ára börnum sem hafa áhuga á tónlist og tónsköpun. Þemað í smiðjunni er sögur og skoðað er hvernig segja má sögur í gegnum tóna. Samin verða tónverk út frá frumsömdum sögum, farið í spunaleiki og börnin spila bæði saman og fyrir hvert annað á ýmis hljóðfæri. Lokatónleikar með afrakstri starfsins verða haldnir í lok hverrar smiðju.

Borgarbókasafn Reykjavíkur – kr. 2.000.000 – Hinsegin prentfélagið

Í Hinsegin prentfélaginu taka ungmenni á aldrinum 15-18 ára virkan þátt í gerð sjálfstæðrar útgáfu, allt frá hugmyndavinnu til útgáfufögnuðar. Klúbburinn samanstendur af tólf ungmennum sem tengja við hinseginleikann á einhvern hátt og vinna þau að útgáfunni í samtali við leiðbeinendur og hönnuð yfir nokkurra mánaða ferli. Klúbbastarfið og útgáfufögnuðurinn á sér stað í húsakynnum Borgarbókasafnsins Grófinni þar sem leitað verður innblásturs í bókakosti safnsins.

Reykjavíkurborg – kr. 2.000.000 – Sögur – Skapandi skrif og verðlaunahátíð barnanna

Við erum umvafin Sögum, þær eru í tónlistinni sem við hlustum á, leiknar á leiksviðum landsins, til sýninga í kvikmyndahúsum og sjónvarpi og auðvitað í bókum sem við lesum og sögunum sem við segjum. Markmið Sagna er að lyfta verkum barna og sýna þeim hvað getur orðið úr hugmyndum þeirra. Hefja upp íslenskuna sem skapandi tungumál og styrkja börn í að nýta tungumálið á fjölbreyttan hátt. Gefa börnum rödd til að velja það sem þeim finnst vel gert á sviði barnamenningar.

STEM Ísland – kr. 1.800.000 – Náttúruvísindakrakkar – Sumarnámskeið á Húsavík

Náttúruvísindakrakkar býður 10-12 ára börnum að setja upp vísindagleraugun og gera rannsóknir ínærumhverfi sínu. Um er að ræða tveggja vikna námskeið, sem haldið er tvisvar yfir sumarið, þar sem börnum gefst færi á að læra um náttúruna og nærumhverfið á áhugaverðan hátt, heimsækja rannsóknarstofnanir og eiga stefnumót við listafólk og kanna hvernig náttúran veitir þeim innblástur. Í lok námskeiðs fá börnin stuðning við að tjá niðurstöður rannsókna sinna á listrænan máta.

Miðnætti - leikhús – kr. 1.650.000 – Á eigin fótum - leiksýning og námskeið

Verkið er brúðusýning fyrir yngstu áhorfendurna, túlkuð án orða með brúðuleik og lifandi frumsaminni tónlist. Sýningin fjallar um unga stúlku sem er send í sveit og þarf að sýna hugrekki í óþekktum aðstæðum og læra að standa á eigin fótum. Sýnd verður sérstök boðssýning fyrir flóttafjölskyldur og samhliða haldið einstakt námskeið þar sem þátttakendur fá að læra japanska Bunraku brúðutækni og kynnast þverfaglegum þáttum í töfraheimi leikhússins. Námskeiðið er gjaldfrjálst og óháð móðurmáli.

LungA Listahátíð ungs fólks – kr. 1.480.000 – Fjölskylduhátíð LungA og smiðjur fyrir krakkaLungA

Listahátíð ungs fólks er alþjóðleg listahátíð á austurlandi með áherslu á frumsköpun og jafningjafræðslu. Hátíðin er skipulögð og henni stýrt af ungu fólki, sem leitast við að sinna og vekja áhuga hjá upprennandi kynslóðum á myndlist og á menningu. Hátíðin samanstendur af listasmiðjum, sýningum og tónleikum og í ár mun LungA kynna sérstakar listasmiðjur fyrir börn og ungmenni, sem enda með lokasýningu fyrir alla gesti hátíðarinnar.

Hlutmengi – kr. 1.360.000 – Mengi MIX

Vinnustofur fyrir börn á aldrinum 12 – 15, sem eru forvitin um tónlist, tónsmíðar, tækni og tjáningaraðferðir. Umsjón hafa reyndir tónlistarmenn, sem eru fastir flytjendur í Mengi, og verður áherslan á þverfaglega nálgun við listsköpun og tilaraunakenndar aðferðir við að skapa tónlist. Gerðar verða tilraunir með form, hljóð og áhrif tónlistar. Vinnustofurnar verða gjaldfrjálsar og engin krafa gerð um fyrri reynslu af tónlist. Tungumálið verður jöfnum höndum íslenska og enska.

Nanna Gunnarsdóttir – kr. 1.350.000 – Tíst tíst! Tweet tweet! Cwir cwir!

Gagnvirk ævintýraleg sýning og sögustund ætluð 5 – 12 ára börnum, þar sem flogið er í hópi farfugla á vit ævintýranna. Fjölskylduvænn og fjöltyngdur viðburður, á íslensku, pólsku, ensku og fuglamáli. Boðið verður upp á ókeypis aðgang að sýningunni á RVK Fringe hátíðinni og á ferðalagi um landið; á Hvammstanga, Svalbarðsströnd, Seyðisfirði, Egilsstöðum, Stöðvarfirði, Selfossi, Hveragerði, Hvolsvelli og í Vestmannaeyjum.

Sequences – Myndlistarhátíð – kr. 1.300.000 – Myndlistarmiðlunarátak til barna og ungmenna

Sequences er myndlistarhátíð sem haldin er annað hvert ár í Reykjavík. Hátíðin verður haldin í Reykjavík dagana 13.- 22. október nk. Verkefnið beinir sjónum að komandi kynslóðum ungmenna og hvetur til virkrar þáttöku þeirra í myndlist. Verkefnið er þríþætt: a) kortlagning, kynning og markaðssetning, b) myndlistarsýning gerð af börnum fyrir börn, og c) smiðjur, viðburðir og leiðsagnir.

Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk – kr. 1.000.000 – Krakka-barokk í Breiðholti

Krakka-Barokk í Breiðholti eru fjölskyldutónleikar þar sem flutt verða tónverk eftir tónskáldin Lucrezia Vizzana, Elisabeth de la Guerre, Isabella Leonarda og íslensk kvæðalög við vísur eftir íslensku skáldkonuna Látra-Björgu. Flytjendur ásamt kammerhópnum verða tónlistarnemar úr Tónskóla Sigursveins og Kór Hólabrekkuskóla. Tónleikarnir eru viðburður á tónlistarhátíðinni Kona Forntónlistarhátíð 2023 og eru afrakstur kvæða- og tónsmiðja fyrir kórbörn og tónlistarnema.

Leikfélag Hornafjarðar – kr. 1.000.000 – Spunasmiðjur fyrir börn með Imrpov Ísland

Námskeið í spunaaðferðum Improv Ísland, í samstarfi við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu og Grunnskóla Hornafjarðar. Spunaleikarar Improv Ísland kenna börnum tæknina á bak við spunavinnu. Smiðjurnar eru liður í uppbyggingarstarfi Leikfélags Hornafjarðar, sem vinnur markvisst að því að efla leiklistaráhuga barna innan sveitarfélagsins og bjóða upp á annarskonar leiklistarkennslu.

Steingrímur – Listfélag Steingrímsfjarðar – kr. 1.000.000 – Ísleifur á heimaslóðum

Listfélagið Steingrímur sýnir valin verk Ísleifs Konráðssonar í gamla bókasafninu á Drangsnesi haustið 2023. Málverk eftir listamanninn sem hann málaði af heimahögunum verða til sýnis. Haldið verður verkstæði í tengslum við sýninguna og börnum í Steingrímsfirði gefið tækifæri til að kynnast verkum Ísleifs og skapa sjálf þematengd listaverk í mismunandi miðla. Nemendur á Drangsnesi og Hólmavík njóta góðs af verkefninu í formi fræðslu og skapandi verkstæðavinnu. Sýning á verkum barna haldin í lokin.

Listasafn Ísafjarðar – kr. 970.000 – Einn, tveir og skapa! Listasmiðjur og námskeið

Í samstarfi við Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar, Safnahúsið á Ísafirði o.fl. heldur Listasafn Ísafjarðar utan um listasmiðjur fyrir börn samhliða haustsýningu safnsins. Börnin fá tækifæri til að vinna á skapandi og sjálfbæran hátt undir leiðsögn listamanna sýningarinnar auk annarra menntaðra listamanna. Áhersla er lögð á að þau sæki innblástur í sýninguna, umhverfi og safneign safnsins sem þau túlka á sinn hátt. Að lokum setja þau saman eigin sýningu á gangi Safnahússins.

Norðurslóðanet Íslands – kr. 900.000 – Að alast upp þar sem „ekkert gerist“

Ungmennum sem alast upp fjarri hringiðu menningarlífs verður gefin rödd á ráðstefnunni Arctic Arts Summit, sem fram fer í Hofi á Aukureyri í júní 2024. Ungmennaráð Akureyrar sér um eina málstofu á ráðstefnunni og velur listamenn til að annast listflutning. Til ráðstefnunnar verður boðið ungmennum frá öðrum þjóðum Norðurslóða til að ræða menningu, listir, skapandi greinar og menningararfinn út frá ólíkum sjónarhornum fræðimanna, stjórnmálafólks, embættismanna, listafólks og almennings.

Borgarbókasafn Reykjavíkur Gerðubergi – kr. 800.000 – Við matarborðið

Við matarborðið er óhefðbundinn samtalsvettvangur um umhverfismál, listirnar, samfélagið og
hlutverk almenningsbókasafnsins sem tengslavettvangs, í samstarfi við myndlistarbraut FB. Nemendur brautarinnar hittast mánaðarlega veturinn 2023 – 2024 og eiga samtal við matarborðið. Elduð verður diskósúpa úr grænmetisafgöngum sem annars hefðu endað í ruslinu. Utanaðkomandi gestur leiðir umræðurnar í hvert sinn. Afraksturinn birtist m.a. í formi sýningar nemenda og verður 9. og 10. bekk í Fellaskóla, Seljaskóla, Breiðholtsskóla og Hólabrekkuskóla boðið á leiðsagnir um sýninguna.

Mýrin – kr. 800.000 – Alþjóðleg barnabókmenntahátíð

Mýrin er alþjóðleg barnabókmenntahátíð sem haldin verður í Norræna húsinu, 12. til 14. október
næstkomandi. Á hátíðinni koma fram erlendir og innlendir höfundar og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá fyrir fagfólk á sviði barnabókmennta, skólahópa og fjölskyldur. Yfirskrift hátíðarinnar í ár er Á kafi út í mýri: Hafið og fantasían í barnabókmenntum, þar sem kafað verður í hafsjó ævintýra, í frásagnir af sjávardýrum og hafmeyjum, og velt fyrir sér hvernig við getum stuðlað að verndun hafsins.

Akureyrarbær – kr. 760.000 – Samspil, listvinnustofur ungmenna af erlendum uppruna

Verkefnið er unnið í samstarfi Listasafnsins á Akureyri og Velferðarsviðs Akureyrarbæjar og felst í að bjóða ungmennum af erlendum uppruna að sækja listvinnustofur í Listasafninu á Akureyri.
Þátttakendur skapa listaverk undir handleiðslu listamanna og sýna svo afraksturinn á sérstakri sýningu í Listasafninu. Verkefnið hvetur til virkrar þátttöku í menningarlífi bæjarins og minnir fólk á að öll eru velkomin í Listasafnið.

Sumartónleikar í Skálholtskirkju – kr. 650.000 – Óður til tómatsins

Verkefnið er þverfagleg nálgun tónlistar og matreiðslu í myndlistarkennslu. Um er að ræða smiðju sem býður þátttakendum uppá þverfaglega nálgun í listrænni vinnu. Unnið verður með tónlist, myndlist og matreiðslu en jafnframt tekið þeim mikilvægu samtímaáskorunum sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fjalla um. Smiðjunni er ætlað að vekja athygli á neyslumenningu og þjálfa gagnrýna hugsun og lýðræðislega nálgun.

Borgarbókasafn Reykjavíkur – kr. 550.000 - Hvað er ljóðaslamm? – undirbúningsnámskeið

Um er að ræða námskeið fyrir ungt fólk 16 ára og eldra. Námskeiðin eru fjögur og hefur hvert þeirra sínar sérstöku áherslur. Þátttakendur fá leiðsögn reyndra einstaklinga á ólíkum sviðum lista og öðlast þannig aukinn styrk í ljóðagerð, flutningi og sviðsframkomu. Markmið námskeiðanna er að efla ungt fólk í notkun tungumálsins, vekja áhuga á ljóðlist og styrkja það í sviðsframkomu og undirbúa þátttöku í Ljóðaslammi Borgarbókasafnsins á Safnanótt 2024.

Foreldrafélag Drengjakórs Reykjavíkur – kr. 500.000 – Samhljómur - The Boys are Singing II

Verkefnið er samstarf Drengjakórs Reykjavíkur og Sofia Boys Choir. Kórarnir vinna saman að efnisskrá sem þeir flytja á tónleikum í Reykjavík, í Skálholti og í Ytri-Njarðvík í júníbyrjun 2023. Verkefnið er annar hluti stærra verkefnis, alþjóðlega drengjakóramótsins „The Boys are Singing“, en fyrsti hluti þess fór fram í Búlgaríu haustið 2022. Markmiðið er að skapa tengsl milli drengjanna, kynna íslenska tónlist fyrir erlendum áheyrendum og efla starfsemi Drengjakórs Reykjavíkur á Íslandi.

Stelpur rokka! – kr. 420.000 – Tónleikasmiðja Stelpur rokka!

Tónleikasmiðja Stelpur rokka! er nýtt 10 vikna námskeið fyrir 15-20 ára ungmenni þar sem áhersla er lögð á undirbúning og framkvæmd tónleika, kennslu í hljóðblöndun og kynningu á hljóðkerfum.
Þátttakendur fara saman á tónleika, bóka hljómsveitir, vinna og dreifa markaðsefni fyrir tónleikana og taka virkan þátt í framkvæmd tónleikanna og hljóðblöndun þeirra. Afraksturinn verður aðgengilegur og áfengislaus tónleikaviðburður þar sem grasrót ungmennasveita verða í forgrunni.

Gríma – rekstrarfélag – kr. 320.000 – Klippimyndir - samskeytingar – skúlptúr

Listasafni Sigurjóns Ólafssonar býður upp á gæðastundir fyrir börn á aldrinum 7 – 12 ára og foreldra þeirra. Tilgangur verkefnisins er að örva hugmyndaflug barnanna með því að þau skoði skúlptúra eftir Sigurjón Ólafsson og í framhaldi af því skapi eigin verk undir leiðsögn sérmenntaðs myndmenntakennara. Áhersla verður lögð á að greina milli tvívíddar og þrívíddar í myndlistinni.

Amtsbókasafnið á Akureyri – kr. 200.000 – Vísindasmiðjur unga fólksins

Fimm vísindasmiðjur fyrir börn á aldrinum 8-12 ára í samstafi við Audrey Louise Matthews. Allar
smiðjurnar eru með mismundandi áherslur: verkfræði, eðlisfræði, líffræði, náttúruvísindi og umhverfið okkar. Í smiðjunum fléttast saman sköpun, tilraunir, rýni og fræðsla, Vísindasmiðjurnar fara allar fram á ensku og að þeim loknum verður sett upp sýning með vinnu barnanna.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica