Mats- og úthlutunarferlið

Leiklistarráð gerir tillögu til mennta- og menningarmálaráðuneytisins um úthlutun fjár sem veitt er í fjárlögum til stuðnings atvinnuleikhópum, sbr. leiklistarlög

Sviðslistaráð fer yfir allar umsóknir sem berast á tilsettum tíma. Ráðið getur kallað eftir frekari upplýsingum frá umsækjendum.

Afstaða er tekin til skiptingar fjárins eftir eðli umsókna og framlagi á fjárlögum hverju sinni.

Allir sem koma að afgreiðslu og mati umsókna hjá sviðslistaráði eru bundnir þagnarheiti. Þegar úthlutun liggur fyrir er öllum umsækjendum svarað með tölvupósti. Auk þess birtist fréttatilkynning um styrkþega á heimasíðu Rannís.

Umsækjendur fá svar í janúar.

Við bendum á að samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ber stjórnvaldi ekki að veita rökstuðning þegar um er að ræða úthlutun styrkja á sviði lista, menningar eða vísinda.

Greiðslufyrirkomulag

Fyrsti hluti styrkupphæðar, 45%, er inntur af hendi þegar greiðsluupplýsingar/samningur hefur borist, næstu 45% við frumsýningu og 10% við skil skýrslu. Styrkþegar skulu að jafnaði nýta styrki sína innan 14 mánaða frá úthlutun. Athugið að leikhópurinn þarf að framvísa eigin kennitölu við útgreiðslu styrks.

Skýrsla um verkefnið og fjárhagsuppgjör berist leiklistarráði eigi síðar en 3 mánuðum eftir lok þess. Áfangaskýrslu skal þó skilað ef sótt er um styrk úr sjóðnum að nýju áður en lokaskýrsla fyrri styrks hefur borist leiklistarráði. Í uppgjöri skal tiltaka kostnað og tekjur vegna verkefnisins. Greinargerðin og fjárhagsuppgjörið skulu staðfest af styrkþega og óháðum einstaklingi/skoðunarmanni eða endurskoðanda. Styrkþegi ber ábyrgð á að skila skattayfirvöldum fjárhagsuppgjöri.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica