Súrefnis- og hjartsláttarnemi hlýtur Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2010

Verkefnið sem hlaut verðlaunin að þessu sinni heitir Súrefnis- og hjartsláttarnemi og vinningshafinn er Ásgeir Bjarnason sem stundar meistaranám í heilbrigðisverkfræði í Finnlandi en var nemandi við Háskólann í Reykjavík þegar hann vann að verkefninu.  Leiðbeinendur Ásgeirs voru þeir Sigmar Guðbjörnsson og Hákon Óli Guðmundsson hjá Stjörnu-Odda.

Verkefnið fólst í því að hanna frumgerð súrefnismettunar- og hjartsláttarnema sem nota á við dýrarannsóknir og kanna hvaða vandamál koma upp við smíði og prófun á slíkum tækjum. Lokatakmark verkefnisins var að þróa örsmátt og ígræðanlegt mælitæki fyrir tilraunadý þar sem einungis er þörf á smávægilegri aðgerð en hefur þann kost að draga mikið úr áhrifum vegna hegðunar dýrsins. Í þessum fyrsta áfanga verkefnisins var lögð áhersla á finna út hvaða rafeindatæknileg vandamál koma upp við notkun á slíkum mælum og hvernig best er að leysa þau. Ásgeir náði vel þeim markmiðum sem lagt var upp með í verkefni sínu og gott betur en það, því niðurstöður úr verkefni hans eru nær raunverulegtri vöruþróun en lagt var upp með.

Verkefnið og starf Ásgeirs mun hjálpa þróunarteymi Stjörnu-Odda við að taka næstu skrefin og flýta fyrir vöruþróun og hanna vöru sem er fyrst og fremst ætluð fyrir erlendan markað. Þar með hefst leiðangur verkefnisins í að þróa seljanlega vöru til útflutnings, sem spennandi verður að fylgjast með í framhaldinu. Verkefni Ásgeirs er þannig komið í fyrirmyndarflokk nemendaverkefna með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna sem þróast hafa í fullvaxin rannsóknar- og þróunarverkefni fyrirtækja með vöruþróun og útflutning að leiðarljósi.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica