COST verkefni

Fyrir hverja?

Vísindafólk og fyrirtæki sem hafa áhuga á að komast í alþjóðlegt rannsóknasamstarf á sínum fræðasviðum.  

Til hvers?

Tilgangur COST verkefna er að byggja upp samstarfsnet á ákveðnum rannsóknasviðum. Þátttakendur í COST verkefnum skiptast á reynslu og niðurstöðum í gegnum fundi og ráðstefnur, vinnusmiðjur, skammtíma vísindaverkefni, þjálfunarskóla, miðlunarverkefni og vettvangsheimsóknir. 

COST áætlunin fjármagnar ekki rannsóknir en veitir stuðning við verkefni sem eru framkvæmd innan áætlunarinnar.

Umsókn um aðkomu að COST verkefni


EN

Kynningarmynband um COST sem gert var í tilefni 50 ára afmæli COST og 30 ára þátttöku Íslands árið 2021

Hvert er markmiðið?

Tilgangur COST verkefna (COST Actions) er að byggja upp samstarfsnet á ákveðnum rannsóknasviðum. Þátttakendur í COST verkefnum skiptast á reynslu og niðurstöðum í gegnum fundi og ráðstefnur, vinnustofur og heimsóknir.  COST áætlunin fjármagnar ekki rannsóknir.

Hverjir geta sótt um?

COST er þverfaglegt rannsóknarnet sem sameinar rannsakendur og frumkvöðla til að rannsaka ákveðin viðfangsefni í 4 ár. COST verkefni eru venjulega skipaðar vísindafólki og tækni - allt frá reyndara vísindafólki að doktorsnemum. Einnig er COST opið litlum og meðalstórum fyrirtækjum (SME), opinberum stofnunum og öðrum viðeigandi samtökum eða hagsmunaaðilum.

Hægt er að taka þátt í COST á ýmsan hátt:

  1. Gerast stjórnarmeðlimur í COST verkefnum sem hafa þegar hlotið styrk. Árlega berst tilkynning um þau verkefni sem hafa hlotið styrk og er þá opnað fyrir þátttöku allra landa í verkefnin. Hvert land getur tilnefnt 2 stjórnarmeðlimi. Stjórn verkefnisins fundar um tvisvar á ári og unnið er þess á milli að sameiginlegum markmiðum. Hér má lesa nánar um hvernig maður sækir um að taka þátt í COST verkefnum. Á vefsvæði Cost er hægt að leita að samþykktum COST verkefnum.
  2. Skrá sig í vinnuhóp COST verkefnis. Slíkt er ekki gert í gegnum Rannís heldur á vef COST. Viðkomandi er þá ekki fulltrúi Íslands í verkefninu.
  3. Taka þátt í ýmsum viðburðum tengdum COST verkefnum. Dæmi um slíkt er þjálfun, styttri vísindaverkefni (Short-term scientific mission) og vinnstofur. Nánar á vef COST.
  4. Leiða verkefni og/eða taka þátt í að skrifa umsókn. Auglýst er eftir umsóknum 1-2 svar á ári. Farið er fram á samstarf a.m.k. 7 samstarfslanda. Lesa nánar um umsóknaferlið.
  5. Skrá sig sem matsmann (External expert) á heimasíðu COST. Matsmenn skulu vera reynslumiklir vísindamenn á sínu sviði og eru þeir hugsanlega kallaðir til ef að inn koma umsóknir sem falla að þeirra fræðasviði. 

Hvað er styrkt?

Verkefnið greiðir fyrir kostnað vegna ferða og ráðstefnuhalds en greiðir ekki kostnað við rannsóknavinnuna sjálfa.  COST verkefni hafa oft leitt til áframhaldandi samstarfs á milli þátttakenda, t.a.m. styrkumsóknir í stærri rannsóknarverkefni innan Horizon Europe.

Fulltrúar Íslands

Fulltrúar Íslands eru Úlfar Kristinn Gíslason, sérfræðingur hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu sem situr í yfirnefnd COST (CSO - Committee of Senior Officials) og Bylgja Valtýsdóttir hjá Rannís sem gegnir hlutverki landsfulltrúa (CNC - COST National Contact). Auk þess á Ísland fulltrúa í vísindanefnd COST, Dr. Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.

Frekari upplýsingar á vefsíðu COST

Þátttökulönd

Alls tekur 41 ríki þátt í COST en auk þess er Ísrael samstarfsland (Cooperation Member) og Suður Afríka sem þáttakandi (Partner Member).

Nánari upplýsingar um þátttökulönd
Þetta vefsvæði byggir á Eplica