Innviðir á vegvísi 2021

Efnagreining – frá frumefnum til lífsameinda (EFNGREIN)

Háskóli Íslands – Heilbrigðisvísindasvið (Óttar Rolfsson), Raunvísindastofnun (Snorri Þór Sigurðsson).

Efnagreining – frá frumefnum til lífsameinda (EFNGREIN) miðar að uppbyggingu, viðhaldi og bættu aðgengi að innviðum í efnagreiningum. Á fyrsta ári EFNGREIN verða innviðir til efnagreininga styrktir með kaupum á skimunarmassagreini, háþrýstivökvagreini, stöðugleikamælitæki, kjarnsegulómunartæki, sérhæfðra litrófsmæla og leifturskiljunargreini. Þessir innviðir betrumbæta til muna aðstöðu til efnagreininga sem rannsakendum stendur til boða á Íslandi í dag.

EPOS Ísland

Veðurstofa Íslands (Kristín Sigríður Vogfjörð), ÍSOR (Ásdís Benediktsdóttir), Landmælingar Íslands (Guðmundur Þór Valsson), Náttúrufræðistofnun Íslands (Skafti Brynjólfsson), Raunvísindastofnun (Bryndís Brandsdóttir).

EPOS Ísland er samstaf íslenskra jarðvísindastofnana um uppbyggingu rafrænna innviða í jarðvísindum til að veita FAIR opið aðgengi að mikilvægum og áður óaðgengilegum jarðvísindagögnum frá Íslandi. Innviðirnir munu efla innlenda og alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks vísindavísindafólks til rannsóknarstyrkja. Verkefnið tengist evrópsku innviðasamtökunum EPOS ERIC sem miða að uppbyggingu rafrænna innviða til að tengja saman rannsóknarinnviði í jarðvísindum sem dreifðir eru um álfuna.

Frá sameindum til sniðlækninga: heildstæð aðstaða fyrir nútíma lífvísindi

Háskóli Íslands (Hans Tómas Björnsson), ArcticLAS ehf. (Bergþóra Eiríksdóttir), Háskóli Íslands - Heilbrigðisvísindasvið (Eiríkur Steingrímsson), Háskóli Íslands - VON (Sigríður Rut Franzdóttir), Háskólinn á Akureyri (Oddur Þór Vilhelmsson), Landspítali-háskólasjúkrahús (Jóna Freysdóttir), Tilraunastöðin að Keldum (Sigurbjörg Þorsteinsdóttir), Vísindagarðar Háskóla Ísl ehf. (Hrólfur Jónsson).

Vegna mikilla framfara í tækni er að verða bylting í lífvísindum. Í umsókninni “Frá sameindum til sniðlækninga” lýsum við sýn okkar á þá uppbyggingu sem þarf til að tryggja að íslensk lífvísindi geti tekið þátt í þessari byltingu. Í fyrsta fasa höfum við forgangsraðað svipgerðargreiningu á tilraunadýrum en þetta mun hjálpa mörgum rannsakendum að auka vægi sinna rannsókna og opna tækifæri fyrir preklínískar rannsóknir fyrir sprota.

Íslenskir rafrænir innviðir til stuðnings við rannsóknir (IREI)

Háskóli Íslands (Guðmundur H. Kjærnested), Háskólinn í Reykjavík - Verkfræðideild (María Óskarsdóttir), Matís (Sæmundur Sveinsson), Veðurstofa Íslands (Jón Elvar Wallevik).

Vegvísis verkefnið IREI snýst um uppbyggingu á öflugum innviðakjarna upplýsingatækni sem er sérsniðinn fyrir íslenskt vísindastarf. Í ár er lagt til að fjárfest verði í gagnageymslu lausnum og búnaði til breikka út notkunarsvið IHPC þannig að nýir möguleikar opnast gagnvart HPC keyrslum á stóru gagnamagni. Enn fremur er lagt til að reiknigeta IHPC verði efld með kaupum á bæði CPU og GPU nóðum.

Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista (MSHL) - fyrsta stig

Háskóli Íslands – Hugvísindasvið (Guðmundur Hálfdánarson), Háskólinn í Reykjavík - Tölvunarfræðideild (Hannes Högni Vilhjálmsson), Landsbókasafn -Háskólabókasafn (Ingibjörg St Sverrisdóttir), Listaháskóli Íslands (Fríða Björk Ingvarsdóttir), Listasafn Íslands (Auður Harpa Þórsdóttir), Listasafn Reykjavíkur (Ólöf Kristín Sigurðardóttir), Ríkisútvarpið ohf. (Helga Lára Þorsteinsdóttir), Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (Guðrún Nordal), Þjóðminjasafn Íslands (Margrét Hallgrímsdóttir), Þjóðskjalasafn Íslands (Hrefna Róbertsdóttir).

Fyrsta stig í uppbyggingu Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista. Annars vegar verður smíðaður nýr þekkingarbrunnur um einstaklinga og staði sem tengir upplýsingar í gagnagrunnum sem þegar eru til. Þekkingarbrunnurinn samanstendur af nýjum gagnagrunni og verkfærakistu til að vinna með gögnin. Hins vegar verða keyptir þrívíddarskannar til að mynda muni í hárri upplausn. Þrívíddarskönnunin mun gerbreyta aðgangi að gögnum, möguleikum til rannsókna og til miðlunar þeirra.

Vegvísir í efnisvísindum og efnisverkfræði

Raunvísindastofnun (Unnar Bjarni Arnalds), Háskóli Íslands - VON (Sigrún Nanna Karlsdóttir), Háskólinn í Reykjavík - Verkfræðideild (Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir), Nýsköpunarmiðstöð Íslands (Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir).

Efnisvísindi og efnisverkfræði eru meginundirstaða tækniframfara í nútíma samfélagi. Í vegvísinum verður skapaður öflugur vettvangur fyrir rannsóknir og þróun á þessum sviðum sem ekki er á færi einstakra aðila að byggja upp. Má þar nefna innviði á borð við greiningartæki, hreinherbergi, húðunartæki, tækjabúnað til nákvæmissmíða, þrívíddarmálmprentara og rafefnafræðitæki. Setrið verður samstarf rannsóknastofnana og háskóla auk þess að vera aðgengilegt nýsköpunarfyrirtækjum.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica