Innviðasjóður vinnur að gerð Vegvísis um rannsóknarinnviði

Í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs vinnur stjórn Innviðasjóðs að útgáfu Vegvísis um rannsóknarinnviði á Íslandi. Vegvísar (e. roadmaps) um rannsóknarinnviði hafa verið gefnir út í mörgum ríkjum Evrópu og má finna hlekki á norræna Vegvísa á heimasíðu Innviðasjóðs. Auk þess má finna á heimasíðu sjóðsins skýrsluna Drög að vegvísi , sem liggur til grundvallar þeirri vinnu sem nú er unnin.

Ein af lykilstoðum framúrskarandi árangurs í vísindum og rannsóknartengdri nýsköpun er gott aðgengi að rannsóknarinnviðum. Í rannsóknarinnviðum felst oft mikil fjárfesting og rekstur yfir lengri tíma. Mikilvægt er að slík fjárfesting byggi á faglegri ákvarðanatöku, heildarsýn og stefnu. Markmið Vegvísis er að:

  • efla framtíðarsýn um heildaruppbyggingu rannsóknarinnviða á Íslandi
  • efla aðgengi vísindamanna á Íslandi að rannsóknarinnviðum innanlands og erlendis, til að styðja við gæði í rannsóknum og efla færni í vísindasamfélaginu til að takast á við samfélagslegar áskoranir
  • efla og samhæfa innlenda rannsóknarinnviði og skapa þannig rannsóknarumhverfi sem laðar að færa vísindamenn, stuðlar að öflugu umhverfi fyrir rannsóknarnám og alþjóðlegt samstarf
  • hámarka nýtingu rannsóknarinnviða, stuðla að samstarfi um þá og gera þá aðgengilega notendum utan þeirrar stofnunar sem hýsir þá
  • skapa rannsóknarumhverfi hér á landi sem er samkeppnishæft á alþjóðavettvangi, þar sem aðgengi er að hágæða innlendum rannsóknarinnviðum og jafnframt samstarf um nýtingu rannsóknarinnviða erlendi

Á Vegvísi verða tilgreindir viðameiri rannsóknarinnviðir sem uppfylla kröfur um að styðja við gæði í rannsóknum og samræmast áherslum Vísinda- og tækniráðs á árunum 2018-2021. Við mat á Vegvísaverkefnum verður horft til þess hversu vel verkefnið fellur að innviðastefnu stofnunar sem hýsir innviðinn og hvort kostnaðaráætlun sé raunhæf, þar með talið áætlun um rekstur til framtíðar. Horft verður til aðgengis og nýtingar innviðarins auk þess sem litið verður til alþjóðlegs samstarfs þar sem við á, t.d. þátttöku í evrópskum ESFRI verkefnum.

Árið 2020 verður hefðbundið umsóknarferli í Innviðasjóð líkt og verið hefur undanfarin ár. Auglýst verður eftir umsóknum í mars eða apríl 2020, og verður nákvæm dagsetning auglýst síðar. Jafnframt verður opnað fyrir umsóknir um verkefni á nýjan Vegvísi um rannsóknarinnviði. Fólk er hvatt til þess að senda inn forumsóknir sem leiða til endurgjafar og samtals við sjóðinn. Haustið 2020 verður auglýst eftir umsóknum á nýjan Vegvísi sem gefinn verður út í lok árs 2020. Árið 2021 verður síðan litið sérstaklega til Vegvísaverkefna við úthlutun stærri styrkja úr sjóðnum.

Til stóð að stjórn Innviðasjóðs efndi til samtals um Vegvísi á opnu málþingi þ. 30. mars 2020 kl. 14 á hótel Sögu og gestur þar átti að vera Lars Christensen sérfræðingur um vegvísa. Ljóst er að vegna aðgerða tengdum útbreiðslu COVID-19 veirunnar þá verður málþing ekki haldið á Sögu. Stefnt er að því að halda fjarfund þar sem vegvísishugmyndin verður kynnt og spurningum fundargesta svara. Í kjölfarið verður kallað eftir tillögum um innviði á vegvísi. Nánar upplýsingar verða veittar um leið og þær liggja fyrir.

Frekari upplýsingar um vinnuna veitir Steinunn S. Jakobsdóttir

Nytsamir tenglar

Þetta vefsvæði byggir á Eplica