Kortlagning norðurslóðarannsókna á Íslandi

 • Mynd af ísjaka

Styrkveitingar til íslenskra aðila í norðurslóðarannsóknum úr innlendum og erlendum sjóðum síðastliðinn áratug. 

Lesa á ensku (EN)

 Skoða fulla útgáfu (3.520 KB)

Norðurslóðarannsóknir hafa aukist talsvert á Íslandi undanfarinn áratug og hefur rannsóknastyrkjum til norðurslóðaverkefna einnig fjölgað. Í skýrslunni er að finna yfirlit um norðurslóðastefnu íslenskra stjórnvalda og lýsingu á íslenskum aðilum sem stunda norðurslóðarannsóknir, en þeirra á meðal eru háskólar, stofnanir, fyrirtæki og fleiri. Meginefni skýrslunnar er greining sem gerð var á innlendum og erlendum sjóðum sem hafa veitt styrki til íslenskra aðila til norðurslóðarannsókna. Megináhersla er lögð á að greina styrki Rannsóknasjóðs sem úthlutað hefur verið til norðurslóðarannsókna, svo og styrki sem hafa fengist til málaflokksins úr rannsóknaáætlunum Evrópusambandsins, einkum Horizon 2020. Þá er gerð grein fyrirvöldum rannsóknaverkefnum með íslenskum þátttakendum auk alþjóðlegra vettvanga sem þjóna málefnum norðurslóða.

Meginniðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:

Innlendir sjóðir

 • Heildarfjármagn veitt til norðurslóðarannsókna úr öllum innlendum sjóðum árin 2009-2019 var 1.493.200.788 krónur.

 • Rannsóknasjóður er stærstur innlendra sjóða og veitti samtals 1.180.897.000 krónum til norðurslóðarannsókna, sem er 79,1% af öllu fjármagni veitt til málaflokksins.
 • Úthlutað fjármagn til norðurslóðarannsókna úr Rannsóknarsjóði á umræddu tímabili nam 6,93% af heildarúthlutun sjóðsins.
 • Háskóli Íslands fékk í sinn hlut 70,1% fjármagnsins sem veitt var til norðurslóðarannsókna úr Rannsóknarsjóði á tímabilinu.
 • Afgerandi meirihluti, eða 94,3% af verkefnum á sviði norðurslóðarannsókna sem styrkt voru úr Rannsóknarsjóði voru á raunvísindasviði. Þar af voru 71,9% á sviði náttúru- og umhverfisvísinda og 22,3% á sviði verkfræði og tækni. Einungis 5,7% var úthlutað til verkefna á sviði hug- og félagsvísinda.

Alþjóðlegar samstarfsáætlanir

 • Áhersla var lögð á að skoða Horizon 2020, rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins. Íslenskir aðilar fengu alls 120.398.311 evrur úr Horizon 2020 á tímabilinu 2014-2020 og þar af var 7.322.932 evrum (992.914.422 krónum) veitt til íslenskra þátttakenda í norðurslóðarverkefnum.
 • Hlutfall fjármagns til norðurslóðarannsókna var 6,08% af heildarfjármagni úr Horizon 2020 til íslenskra aðila á umræddu tímabili.
 • Dreifing heildarfjármagns til íslenskra þátttakenda í norðurslóðarannsóknum sem styrktar voru af Horizon 2020 reyndist vera jafnari meðal stofnana og fyrirtækja samanborið við innlenda samkeppnissjóði. ICEWIND og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar fengu rúmlega 20% fjármagns hvor í sinn hlut fyrir norðurslóðarannsóknir í Horizon 2020.
 • Íslenskir þátttakendur sem hafa flest þátttökutilvik í norðurslóðarannsóknum í Horizon 2020 eru Norðurslóðagáttin (sex tilvik), Landbúnaðarháskóli Íslands (fjögur tilvik) og Háskóli Íslands (þrjú tilvik).
 • Umfangsmestu norðurslóðaverkefnin innan Horizon 2020 með íslenskum þátttakendum eru NJORD, JUSTNORTH og INTERACT, sem öll fengu yfir 10% fjármagns verkefnanna í sinn hlut.
 • Í sjöundu rannsóknaráætlun Evrópusambandsins 2007-2013 (FP7) var heildarúthlutun til íslenskra þátttakenda í norðurslóðarannsóknum 2.038.363 evrur (328.244.676 krónur) sem reyndist vera 3,02% af heildarfjármagni til íslenskra aðila úr áætluninni, sem var 67.591.003 evrur. Í sjöttu rannsóknaráætlun Evrópusambandsins (FP6) var ekkert norðurslóðaverkefni með íslenskri þátttöku fjármagnað. Þessar niðurstöður sýna að þátttaka íslenskra aðila í norðurslóðarannsóknum hefur aukist umtalsvert í síðustu samstarfsáætlunum Evrópusambandsins. Samanlagt heildarfjármagn til norðurslóðarannsókna á Íslandi úr FP7 og Horizon 2020 nam 9.361.295 evrur (1.321.159.098 krónur).

Lykilatriði

 • Samanlagt heildarfjármagn til norðurslóðaverkefna 2009-2019 úr innlendum sjóðum og rannsóknaráætlunum ESB (FP7 og Horizon 2020) var 2.814.359.886 krónur. ISK.

 • Stærstur hluti styrkja til norðurslóðarannsókna á Íslandi hefur komið úr síðustu tveimur rannsóknaáætlunum ESB (FP7 og Horizon 2020). Meðalársúthlutun úr stærsta innlenda sjóðnum, Rannsóknarsjóði 2009-2019, var 118.089.700 krónur, samanborið við meðalársúthlutun úr FP7 og Horizon 2020 á árunum 2009-2020 sem var 120.105.373 krónur.
 • Hlutfall veittra styrkja til norðurslóðarannsókna er sambærilegt fyrir tvo helstu sjóðina, 7% úr Rannsóknasjóði og 6% úr Horizon 2020. Þá er úthlutun fjármagns úr Horizon 2020 dreifðara samanborið við Rannsóknasjóð. Saman mynda þessir tveir sjóðir breiðan vettvang fyrir íslenskar rannsóknarstofnanir og fjölbreyttan hóp rannsakenda.
 • Styrkir úr innlendum sjóðum fara að mestu leyti til háskóla og stofnana sem staðsett eru á höfuðborgarsvæðinu, á meðan stofnanir á landsbyggðinni, oft á Akureyri, fá fleiri styrki úr alþjóðlegum samstarfsáætlunum.
 • Aðgengi að öflugum samkeppnissjóðum er bæði mikilvægt og nauðsynlegt fyrir vísindamenn á norðurslóðum en er ekki fullnægjandi. Markmiðið með norðurslóðarannsóknum er að leita þekkingar á örum samfélagslegum- og náttúrulegum breytingum, þannig er einnig þörf á stöðugu eftirliti, mælingum og athugunum svo hægt sé að skapa heildstæða og samfellda tímaröð athugana. Rannsóknastofnanir og innviðir þeirra gegna mikilvægu hlutverki í langtímavöktun og því geta þau ekki reitt sig einungis á fjárveitingar til skamms tíma. Þörf er á sértækri stefnu í þeim efnum.

Fletta skýrslu
Þetta vefsvæði byggir á Eplica