Kvikna hlýtur Vaxtarsprotann 2015

Fyrirtækið Kvikna ehf. hlaut Vaxtarsprotann 2015 sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis á síðasta ári.

Kvikna er gott dæmi um vaxtarsprota byggst hefur upp á nokkrum árum en tekur nú flugið með auknum umsvifum á erlendri grundu. Sölutekjur fyrirtækisins jukust úr tæplega 124 m.kr í rúmlega 209 m.kr. eða um 69%. Á sama tíma hefur starfsmannafjöldinn vaxið úr 12 í 15 og útflutningur nemur yfir 90% af veltu. 

Kvikna er gott dæmi um vaxtarsprota byggst hefur upp á nokkrum árum en tekur nú flugið með auknum umsvifum á erlendri grundu.

Fyrirtækin Valka og Meniga fengu einnig viðurkenningar en Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra afhenti fulltrúum fyrirtækjanna þær við sólríka athöfn í Grasagarðinum, Laugardal í morgun.

Kvikna var stofnað síðla árs 2008 af þeim Garðari Þorvarðssyni, Heiðari Einarssyni, Guðmundi Haukssyni og Hjalta Atlasyni en seinna bættist Stefán Péturrsson við sem meðeigandi. Kvikna sérhæfir sig í gerð lækningatækja og hugbúnaðar sem krefst mikillar tæknilegrar þekkingar. Fyrirtækið býður upp á hugbúnaðarþjónustu auk þess að þróa eigin vörur

„Kvikna hefur undanfarið unnið að þróun búnaðar fyrir upptöku og úrvinnslu á heilalínuriti sem er einkum ætlaður til greiningar á flogaveiki. Búnaðurinn er hannaður til þess að styðja dreifða vinnslu sem einfaldar og hvetur til samvinnu milli sjúkrastofnana. Kvikna hefur verið að hasla sér völl í Bandaríkjunum auk þess sem drefing er nú að fara af stað í nokkrum Evrópulöndum. Verkefnastyrkirnir sem við höfum fengið frá Tækniþróunarsjóði og endurgreiðsla skatta vegna rannsóknar og þróunar, hafa gert það að verkum að við höfum getað þróað vörulínuna hraðar en við hefðum annars getað gert. Við teljum að við séum nú þegar komnir með mjög góðar vörur til að sækja á nýja markaði þannig að starfsumhverfið hér á Íslandi hefur reynst okkur mjög vel.“

Heiðar Einarsson, þróunarstjóri og einn stofnenda 

Meniga náði þeim áfanga að velta meira en einum milljarði kr. á árinu 2014. SI veita sprotafyrirtækjum sem ná þessum áfanga sérstaka viðurkenningu til að fagna þeim fyrirtækjum sem komast í úrvalsdeild íslenskra tækni- og nýsköpunarfyrirtækja. Meniga var handhafi Vaxtarsprotans 2013.   

Meniga var stofnað árið 2009 af Georg Lúðvíkssyni framkvæmdastjóra, Ásgeiri Erni Ásgeirssyni og Viggó Ásgeirssyni. Meniga er hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í lausnum fyrir næstu kynslóð netbanka þar sem lögð er áhersla á notendavænleika, góða hönnun og að gera fólki auðvelt að stjórna heimilisfjármálunum.

„Meniga hefur borið gæfu til að vaxa hratt undanfarin ár og þetta er stór áfangi í okkar sögu. Það er að mörgu leyti gott að byggja upp fyrirtæki á Íslandi og við hjá Meniga erum mjög þakklát okkar frábæra starfsfólki, viðskiptavinum, fjárfestum og samfélaginu öllu fyrir þann góða stuðning og velvilja sem við höfum notið á þeim 6 árum sem hafa liðið síðan við hófum þessa vegferð. Uppbygging hávaxtafyrirtækis er nefnilega stórt samvinnu- og samfélagsverkefni þar sem margt þarf að ganga upp. Við erum afar stolt af árangrinum til þessa og vonum að hann verði öðrum hvatning til að setja markið hátt og byggja upp öflug fyrirtæki á Íslandi sem eru í fremstu röð á sínu sviði í heiminum.“ 

Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga og einn stofnenda 

Nánar um fyrirtækin:

Kvikna

Helstu viðskiptavinir hugbúnaðarþjónustunnar eru í Noregi og Bandaríkjunum og er þar um að ræða ýmsan hugbúnað tengdan olíuiðnaði og hugbúnað fyrir lækningatæki. Meðal annars hefur Kvikna þróað hugbúnað sem sýnir myndir innan úr olíurörum í þrívídd og hugbúnað sem sýnir olíuflekki á yfirborði sjávar í rauntíma.

Kvikna vinnur að þróun búnaðar fyrir upptöku og úrvinnslu á heilalínuriti sem er einkum ætlað til greiningar á flogaveiki. Búnaðurinn er hannaður til þess að styðja dreifða vinnslu sem einfaldar og hvetur til samvinnu milli sjúkrastofnana. Markaðssetning á þessum vörum er á frumstigum en er lengst komin í Bandaríkjunum þar sem notkun vex nú hratt.

Starfsmenn eru alls 15 í dag.  Fyrirtækið er í meirihlutaeigu frumkvöðlanna en einnig er Norbit AS hluthafi.

Meniga

Hjá Meniga starfa í dag rúmlega 100 manns. Meirihluti starfsmanna er á Íslandi þar sem rannsóknir og þróun fara fram en félagið rekur sölu- og markaðsstarfsemi frá London þar sem 10 starfa. Þá starfa 8 manns á þróunarskrifstofu félagsins í Stokkhólmi.

Meniga hefur vaxið hratt undanfarin ár og er án efa orðið leiðandi í heiminum á sviði heimilisfjármála- og snjallbankalausna fyrir fjármálafyrirtæki. Lausnir Meniga eru nú í notkun hjá rúmlega 20 fjármálastofnunum í 17 löndum og ná til 25 milljóna manna. Meniga gerir ráð fyrir áframhaldandi hröðum vexti enda hefur félagið byggt upp sterka stöðu á stórum og vaxandi markaði.

Valka

Fyrirtækið var stofnað árið 2003 af Helga Hjálmarssyni verkfræðingi sem er jafnframt framkvæmdastjóri fyrirtækisins en starfsmenn eru nú 32 talsins.

Valka ehf. er hátæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun á tækjum og hugbúnaði fyrir fiskvinnslur. RapidFish hugbúnaðurinn er einfalt en öflugt framleiðslustjórnar- og pantanakerfi fyrir fiskvinnslur og sölufyrirtæki. Framleiðsla á tækjum Völku er að miklu leyti unnin af íslenskum verktökum en samsetning og prófanir fara fram í húsnæði Völku að Víkurhvarfi 8 í Kópavogi.

Á árinu 2012 kynnti Valka nýja röntgen stýrða beinaskurðarlínu sem er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Eftirspurn eftir sjálfvirkum beinaskurði er mjög mikil og sú lína stutt enn frekar vöxt félagsins. Einnig hefur orðið mikil aukning í sölu á flokkunar- og pökkunarkerfum fyrir heilan lax.

Valka hlaut Nýsköpunarverðlaunin 2013 og Vaxtarsprota ársins 2012 þá í 2. deild. Fyrirtækið hlaut einnig viðurkenningu VAXTARSPROTANS á síðasta ári fyrir góðan vöxt milli áranna 2012 og 2013 og kemur því nú í þriðja sinn í topphópinn með góðan vaxtarsprett í fyrstu deildinni.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica