Vaxtarsproti ársins er Eimverk sem framleiðir viskí, gin og ákavíti

  • Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, afhenti Vaxtarsprotann

Sprotafyrirtækið Eimverk ehf. hefur verið valið Vaxtarsprotinn 2016 sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis á síðasta ári. Iðnaðar- og viðskipta­ráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, afhenti Vaxtar­sprotann.

Sprotafyrirtækið Eimverk ehf. hefur verið valið Vaxtarsprotinn 2016 sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis á síðasta ári. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, afhenti Vaxtarsprotann þann 1. júní sl. í Kaffi Flóru Grasagarðinum í Laugardal.

Sölutekjur Eimverks jukust úr tæplega 16,2 milljónum króna í 70,2 milljónir króna eða um 333,3%. Á sama tíma hefur starfsmannafjöldinn vaxið úr 5 í 8 en auk fastra starfsmanna hafa tveir sumarstarfsmenn að jafnaði komið að framleiðslunni. Útflutningur og sala í fríhöfn hefur á undanförnum árum numið yfir 95% af veltu. Sögu Eimverks má rekja til ársins 2009 þegar tilraunir á framleiðslu á viskíi úr íslensku byggi hófust en fyrirtækið var síðan stofnað sumarið 2011. Fyrstu vörur fyrirtækisins komu síðan á markað 2013 eftir 4 ára starf við rannsóknir og vöruþróun. Eimverk hefur sérhæft sig í framleiðslu á Single Malt viskíi, gini og ákavíti undir vörumerkjunum Flóki, Vor og Víti.  Afurðirnar sem eru allar unnar úr íslensku hráefni eru nú seldar um allan heim á sérhæfðum mörkuðum þar sem meira er lagt upp úr gæðum en magni. Vörurnar eru meðal annars seldar í Þýskalandi, Ítalíu, Danmörku, Belgíu, Hong Kong, Ástralíu og Mexíkó auk þess sem dreifing er nýhafin í Bandaríkjunum. Nokkrar af afurðum fyrirtækisins hafa þegar unnið til alþjóðlegra viðurkenninga í sínum flokkum. Fyrirtækið er fjölskyldufyrirtæki en stofnendur voru fimm í upphafi, þau Haraldur Þorkelsson,  Sigrún Barðadóttir,  Egill Þorkelsson,  Eva María Sigurbjörnsdóttir, Hlynur Þorkelsson og Þorkell Jónsson.

Þrjú önnur sprotafyrirtæki, Lauf Forks, ORF-Líftækni og Valka, hlutu einnig viðurkenningar fyrir vöxt í veltu en Eimverk sem sýndi mestan hlutfallslegan vöxt milli áranna 2014 og 2015 auk þess að uppfylla önnur viðmið dómnefndar fær nafnbótina Vaxtarsproti ársins. Í dómnefnd voru Lýður Skúli Erlendsson fyrir Rannsóknarmiðstöð Íslands, Páll Kr. Pálsson fyrir Háskólann í Reykjavík og Davíð Lúðvíksson fyrir Samtök iðnaðarins og Samtök sprotafyrirtækja.

Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Þetta er í 10. skiptið sem viðurkenningarnar eru veittar en tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica