Dr. Anton Karl Ingason, lektor í íslenskri málfræði og máltækni, hlýtur Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs 2017

  • Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs, afhenti Antoni Karli verðlaunin.

Hvatningarverðlaun Vísinda-og tækniráðs voru afhent við hátíðlega athöfn á Rannsóknaþingi Rannís sem fram fór á Grand Hótel í morgun. 

Dr. Anton Karl Ingason, lektor í íslenskri málfræði og máltækni við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, hlýtur viður-kenninguna að þessu sinni. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs, afhenti Antoni Karli verðlaunin. Í ræðu sinni sagði ráðherra:

Anton Karl Ingason er fjölhæfur og þverfaglegur fræðimaður sem hefur komið miklu í verk, þrátt fyrir ungan aldur. Störf hans í íslenskri málfræði og máltækni hafa verið mikil innspýting fyrir fagið og það má mikils af honum vænta í rannsóknum á þessu sviði í framtíðinni.

Anton Karl Ingason er fæddur árið 1980. Að loknu stúdentsprófi vann hann við forritun og tölvukennslu, en lauk síðan BA-prófi í almennum málvísindum og íslensku árið 2010. Haustið 2011 hélt Anton til doktorsnáms við eina virtustu málvísindadeild Bandaríkjanna við University of Pennsylvania og lauk þaðan doktorsprófi vorið 2016. Hann hóf störf sem nýdoktor við Háskóla Íslands í stóru rannsóknaverkefni um stöðu íslensks máls og hlaut verkefnið öndvegisstyrk úr Rannsóknasjóði árið 2016. Hann var ráðinn lektor í íslenskri málfræði og máltækni við Íslensku- og menn­ingar­deild Háskóla Íslands frá ársbyrjun 2017.

Anton sameinar málfræði, máltækni og forritunarkunnáttu einstaklega vel og hefur fetað nýjar slóðir í rannsóknum. Rannsóknarsvið hans er vítt, það spannar setningafræði, orðhlutafræði, félagsmálfræði og máltækni. Hann hefur kynnt rannsóknir sínar á alþjóðlegum ráðstefnum í hæsta gæðaflokki og birt greinar í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum, m.a. í einu fremsta málvísindatímariti heims, Linguistic Inquiry. Fyrir tilstilli Antons mun Háskóli Íslands hýsa 48. ársráðstefnu North Eastern Linguistic Society í lok næsta mánaðar. Hefur hún um árabil verið ein eftirsóttasta málvísindaráðstefna í Norður Ameríku og er þetta í fyrsta sinn sem hún er haldin utan Bandaríkjanna eða Kanada. Það er mikil viður­kenning og heiður fyrir íslenska málfræði og íslenska málfræðinga að fá þessa ráðstefnu hingað, auk þess að vera mikil lyftistöng fyrir íslenska málfræðisamfélagið.

Anton hefur mikinn áhuga á kennslu og hefur sinnt henni vel, samhliða vísindastörfum. Hann hefur þegar þróað tvö ný námskeið í máltækni og samið kennsluefni til nota í þeim, auk þess sem hann hefur notað nýjar kennsluaðferðir með góðum árangri.

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1987, í fyrsta sinn á 50 ára afmæli atvinnudeildar Háskóla Íslands. Markmiðið með veitingu Hvatningarverðlaunanna er að hvetja vísindamenn til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindamanna.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica