Nýsköpun í opinberum rekstri

Fjármálaráðuneytið, í samvinnu við Félag forstöðumanna, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Rannís, veita verðlaun fyrir nýsköpun í opinbera geiranum, að undangengnu tilnefningarferli í samráði við forstöðumenn ríkisstofnana.

Þessi aðilar hafa tekið höndum saman um að draga athygli að nýsköpun og þróunarverkefnum í starfsemi hins opinbera og stuðla að nýsköpun í opinberum rekstri á Íslandi. Verðlaunin eru veitt á ráðstefnu um nýsköpun í opinberum rekstri.

Upplýsingar um verðlaunahafa 2018

Upplýsingar um verðlaunahafa 2015

Í nýrri norrænni rannsókn kemur fram að um 90% opinberra stofnana á Íslandi stunda nýsköpun af einhverju tagi. Þetta bendir til mikillar grósku og að mörg tækifæri séu nýtt til umbóta í opinberum rekstri. Þessi nýsköpunarverkefni þarf að gera sýnileg og kynna öðrum til eftirbreytni.

Opnuð hefur verið vefsíða um nýsköpunarverkefni, og veita þar með aðgang að umfangsmikilli reynslu, þekkingu og fyrirmyndum hérlendis sem erlendis til að nýta við innleiðingu nýrra hugmynda um bætta þjónustu og skilvirkni í opinberum rekstri. Verkefnin hafa því verulegt hagnýtt gildi fyrir stjórnendur opinberra stofnana. Fyrirhugað er að gera þeim verkefnum sem tilnefnd eru til nýsköpunarverðlaunanna góð skil á vefsíðunni.

Hugtakið "nýsköpun" hefur einna helst verið tengt starfsemi sprota- og frumkvöðlafyrirtækja á einkamarkaði. Nýsköpun í opinberum rekstri er hins vegar mjög þýðingarmikil, vegna umfangs hins opinbera og verkefna sem unnin eru í almannaþágu. Efnahagsástæður og niðurskurður í opinberum rekstri kallar á aukna þörf fyrir nýsköpun á þessu sviði. Til að efla nýsköpun í opinberum rekstri hefur fjármálaráðherra falið starfshópi með fulltrúum ráðuneyta og forstöðumanna að setja fram heildstæða stefnu um umbætur í ríkisrekstri með nýsköpun að leiðarljósi.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica