Nýsköpunarverðlaun 2018
Verkefnið ALFA – rafrænt lyfjaumsjónarkerfi hlaut nýsköpunarverðlaunin í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2018 sem veitt voru á ráðstefnu föstudaginn 8. júní 2018. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, afhenti verðlaunin. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Betri opinber þjónusta með öflugu samstarfi og nýtingu stafrænna lausna“.
Alls voru 33 verkefni tilnefnd til nýsköpunarverðlaunanna.
Verkefnið sem bar sigur úr býtum er samvinnuverkefni Öldrunarheimila Akureyrar, Akureyrarkaupstaðar, Lyfjavers ehf. og Þulu – Norræns hugvits. ALFA er stafræn lausn á lyfjaumsjónarkerfi sem þróuð var í þeim tilgangi að einfalda lyfjaskráningu, utanumhald á lyfjalager og samskipti á milli öldrunarheimila og birgja. Verkefnið hefur leitt til mikillar hagræðingar og umbóta í rekstri öldrunarheimila.
Fjögur verkefni hlutu sérstaka viðurkenningu á ráðstefnunni: Vatnajökulsþjóðgarður fyrir „Sjálfvirk innheimta og aðgangsstýring“; Ísafjarðarbær fyrir „Blábankinn, samfélagsmiðstöð á Þingeyri“; Kópavogsbær fyrir „Social Progress Portrait; Mælikvarði á félagslegar framfarir í Kópavogi og MÆLKÓ“ og Skútustaðahreppur fyrir „Umbótaáætlun í fráveitumálum í Mývatnssveit“.