Áhrif upplýsingatækni á vinnuumhverfi og persónuvernd - rannsóknarverkefni í markáætlun um U&U lokið
Meginmarkmið rannsóknarinnar var að greina umfang rafræns einstaklingseftirlits hér á landi, birtingarform þess og afleiðingar fyrir vinnuskipulag, réttarstöðu og líðan starfsmanna.
Verkefnisstjóri var Guðbjörg Linda Rafnsdóttir.
Heiti verkefnis: Áhrif upplýsingatækni á vinnuumhverfi og persónuvernd, nr. 023030003
Verkefnisstjóri: Guðbjörg Linda Rafnsdóttir
Þátttakendur: Margrét Lilja Guðmundsdóttir, Vinnueftirlit ríkisins, Landlæknisembættið og Verslunarmannafélag Reykjavíkur
VERKEFNIÐ FÉKK STYRK ÚR MARKÁÆTLUN UM UPPLÝSINGATÆKNI OG UMHVERFISMÁL.
Vinnueftirlit ríkisins, Verslunarmannafélag Reykjavíkur og Landlæknisembættið hafa síðastliðin tvö ár staðið að rannsóknarverkefninu - Áhrif upplýsingatækni á vinnuumhverfi og persónuvernd. Fyrrnefndir aðilar hafa ásamt fulltrúum frá Persónuvernd og Rafiðnaðarsambandi Íslands átt aðila í stýrihóp verkefnisins. Rannsóknin hlaut styrk frá Rannsóknaráði Íslands; markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál. Starfsmaður verkefnisins er Margrét Lilja Guðmundsdóttir og verkefnisstjóri dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir.
Í kjölfar framfara á sviði upplýsingatækni hefur það færst í vöxt að stjórnendur fyrirtækja og stofnana nýti sér tæknina til að hafa eftirlit með starfsmönnum. Upplýsingatæknin hefur þannig að nokkru leyti breytt samskiptum stjórnenda og starfsmanna og gert stjórnendum betur kleift að fylgjast með og halda skrá yfir afköst, vinnuferla og hegðun starfsmanna. Á sama tíma og þetta eftirlit hefur að einhverju leyti aukið skilvirkni í rekstri fyrirtækja þá hefur það jafnframt vakið upp nýjar spurningar um persónuvernd og líðan starfsmanna sem í hlut eiga.
Markmið rannsóknarinnar var að greina umfang rafræns einstaklingseftirlits, birtingarform og áhrif þess á vinnuumhverfi, réttarstöðu og líðan starfsmanna. Með rafrænu eftirliti er átt við vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með tilteknum einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði. Þessi vöktun getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga. Hér er t.d. átt við
nákvæma rafræna tölvuskráningu á verkferlum starfsmanna og afkastamælingum, myndbandsupptökur í vinnurými, eftirlit með tölvupósti, netnotkun og símtölum starfsmanna.
Rannsóknin sýnir að u.þ.b. 18% fólks hér á landi vinnur undir rafrænu eftirliti og það er algengast meðal yngra fólks. Þeir sem vinna undir rafrænu eftirliti eru almennt jákvæðari í garð þess en aðrir. Þó er meirihluti starfsmanna ósammála þeirri fullyrðingu að rafræn upplýsingasöfnun af slíkum toga veiti starfsmönnum öryggi. Meirihluti starfsmanna er sammála fullyrðingunni að slík rafræn upplýsingasöfnun á vinnustöðum valdi starfsmönnum óþægindum. Þrátt fyrir þetta, treystir meirihluti starfsmanna samkvæmt rannsókninni, yfirmönnum sínum til að fara með og varðveita upplýsingar sem safnað er um þá með rafrænum hætti.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að starfsmenn sem vinna undir rafrænu eftirliti eru líklegri en aðrir til að; finna mjög eða frekar mikið fyrir vinnutengdri streitu, vera mjög oft eða alltaf andlega úrvinda eftir vinnudaginn, vera óánægðir í starfi, hafa lítið sjálfræði, telja andlega líðan sína slæma og vera ósáttir við vinnuna.
Nauðsynlegt er að meta þá hagsmuni sem atvinnurekendur hafa af rafrænni vöktun með starfsmönnum annars vegar og hins vegar lögvarðan rétt starfsmanna til friðhelgi einkalífs og vellíðunar í starfi. Rannsóknin sýnir að stjórnendur og starfsmenn virðast þekkja illa til réttarstöðu starfsmanna á þessu sviði.
Rannsóknin sýnir mikilvægi umræðna um líðan og réttarstöðu starfsmanna sem vinna undir rafrænni vöktun við stefnumótun á sviði vinnu- og persónuverndar. Þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir hvað skilur á milli rafrænnar vöktunar sem veldur öryggistilfinningu og vellíðan, og þeirri sem veldur tortryggni og vanlíðan.
Ör þróun tækninnar og ríkjandi tæknihyggja veldur því að slík umræða þarf stöðugt að vera til staðar. Því er mikilvægt að horfa fram á veginn, nýta sóknarfæri upplýsingatækninnar til eflingar öryggis og aukins árangurs í rekstri fyrirtækja, án þess þó að missa sjónar af því, að vinnufyrirkomulagið getur haft veruleg áhrif á líðan starfsmanna og þar með afköst þeirra og árangur í stafi.
Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit:
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Margrét Lilja Guðmundsdóttir (2004). Upplýsingatækni - Eftirlitsþjóðfélag. Í Úlfar Hauksson (Ritstj.), Rannsóknir í félagsvísindum V (bls. 181-193). Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Rafnsdottir, G. L & Gudmundsdottir M. L. (2004). New technology and its impact on well being. Work: A Journal of Prevention, Assessment & Rehabilitation 22, 31-39
Rafnsdóttir, G. L. (2004) Reproducering av könsmakt genom ny teknologi. Könsmakt i Norden, NIKK http://www.kjonn.maktutredningen.no/aktuelt/752
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir
Margrét Lilja Guðmundsdóttir (2004). Áhrif upplýsingatækni á vinnuumhverfi og persónuvernd - Fræðileg samantekt og niðurstöður tveggja spurningakannana. Óbirt skýrsla (131 bls).
Sigrún Kristjánsdóttir (2003) Áhrif upplýsingatækni á vinnuumhverfi og persónuvernd - Lögfræðileg úttekt http://www.vinnueftirlit.is/page/research
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Margrét Lilja Guðmundsdóttir (2003). Rafrænt eftirlit á íslenskum vinnumarkaði. Í Friðrik H. Jónsson (Ritstj.), Rannsóknir í félagsvísindum IV (bls. 61-70).Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir (2003). Information technology and the increased surveillance in modern workplaces. Mind and Body in a Technological World Ráðstefnurit sem gefið var út í tengslum við ráðstefnuVinnís í ágúst 2003.
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Margrét Lilja Guðmundsdóttir. (2002). Information or Surveillance. NIKK magasin 3, 36-39.
Sigrún H. Kristjánsdóttir (2004) Rafrænt eftirlit á vinnustöðum. Tímarit lögfræðinga 2. hefti 54. árgangur. (bls. 265-289).