Horizon 2020

Rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun

Horizon 2020 er langstærsta og umfangsmesta rannsóknaáætlun ESB hingað til. Áætlunin gildir 2014–2020 og er heildarfjármagn hennar nærri 80 milljarðar evra.

Horizon 2020 er ætlað að styðja við rannsóknir og nýsköpun á öllum sviðum vísinda og fræða með það að markmiði að auka samkeppnishæfni Evrópu, skapa störf og stuðla að því að fleiri góðar viðskiptahugmyndir komist á markað. Í áætluninni er lögð áhersla á þátttöku fyrirtækja, ekki síst lítilla og meðalstórra. Áætlunin endurspeglar grundvallarmarkmið stefnu ESB til 2020 um að styðja sjálfbæran hagvöxt í Evrópu.

Horizon 2020 skiptist í fimm stoðir, sem skiptast síðan í undiráætlanir eftir viðfangsefnum. Rúmlega 90% af fénu er ráðstafað í Öndvegisrannsóknir (Excellent science), Forystu í atvinnulífi (Industrial leadership) og Samfélagsáskoranir (Societal challenges). Fjárfesting ESB í verkefnum styrktum af Horizon 2020 sem íslenskir aðilar hafa tekið þátt í á árunum 2014 til mars 2018 nemur um 637 milljónum evra en þar af nema beinir styrkir til íslenskra aðila um 61 milljón evra.

Frá upphafi áætlunarinnar hafa borist 770 umsóknir með íslenskri þátttöku í Horizon 2020. Ísland hefur fengið stuðning við 139 verkefni eða 18,1% umsókna. Framlög til íslenskra aðila á þessum rúmum fjórum árum eru um 61 milljón evra sem dreifast til 80 aðila hérlendis. Þátttaka Íslands hefur náð til allra stoða áætlunarinnar nema Víðtækari þátttöku (Widening participation) en þeirri stoð er ætlað að styrkja rannsókna- og nýsköpunarumhverfi nýrra aðildarríkja sambandsins.

Almennt hafa íslenskir aðilar verið virkir í Horizon 2020, dreifing umsókna er nokkuð góð en ljóst má vera að bæði virkni og árangur er breytilegur eftir sviðum (sjá töflu 1). Í Samfélagsáskorunum hafa sóknarþungi og árangur íslenskra aðila farið saman og þá sérstaklega í undiráætlununum Fæðuöryggi, landbúnaður og sjávarrannsóknir (Food Security, Sustainable Agriculture and Forestry, Marine, Maritime and Inland Water Research and the Bioeconomy), Heilbrigði og lýðheilsa (Health, Demographic Change and Wellbeing) og Orkuáætlun (Secure, Clean and Efficient Energy). Virkni Íslendinga hefur einnig verið töluverð í Öndvegisrannsóknum og Forystu í atvinnulífi en þar hefur ásókn verið mest í undiráætlanirnar Upplýsinga- og samskiptatækni (Information and Communication Technologies) og mannauðsáætlunina Marie Skłodowska Curie Actions (MSCA), þar hefur árangurshlutfall hins vegar verið lægra enda samkeppni mikil. Heilt yfir má segja að Íslendingar fari vel af stað í Horizon 2020 áætluninni og séu virkir í flestum hlutum hennar. Í samanburði við fyrri rannsóknaáætlanir ESB vekur þó athygli að töluverð aukning hefur verið á virkni og árangri Íslendinga í Orkuáætluninni og Samgönguáætluninni (Smart, Green and Integrated Transport). Ásókn í Heilbrigðis- og lýðheilsuáætlunina er enn góð en árangurshlutfall hefur dregist saman frá því sem áður var.

Ef heildarárangur Íslendinga er skoðaður út frá því hve margar evrur renna til hvers íbúa, sjá mynd 3, kemur í ljós að það fjármagn sem borist hefur hingað til lands nemur um 182,5 evrum á hvern Íslending (m.v. fólksfjölda árið 2016). Árangur Íslands er því töluvert betri en þeirra samanburðarlanda sem litið er til; á eftir Íslandi kemur Danmörk með 127,6 evrur á hvern íbúa og Lúxemborg með 123,2 evrur á hvern íbúa. Meðaltal ESB er svo umtalsvert lægra eða 52,9 evrur á hvern íbúa. 

Mynd 3. Horizon 2020: Styrkir í evrum á hvern íbúa.

Sé litið til þess hvernig styrkir í evrum skiptast niður á þrjár stoðir áætlunarinnar, sjá mynd 4, má sjá að árangur Íslands í heild sinni stenst vel samanburð við önnur ríki. Árangur Íslands er afgerandi þegar litið er til framlaga í Samfélagsáskoranir, en undir þeirri stoð hafa styrkirnir numið um 38,5 milljónum evra eða um 115 evrur á hvern Íslending. Árangur Íslands hefur verið góður í nokkrum undiráætlunum Samfélagsáskorana og þar munar mestu um Orkuáætlunina, en um 18,8 milljónir evra af þeim 61 milljón evra sem runnið hafa til íslenskra aðila gera það í gegnum hana, eða 31%.

Mynd 4. Horizon 2020: Styrkir í evrum á hvern íbúa skipt eftir stoðum áætlunarinnar.

Í töflu 1 má sjá yfirlit þar sem fram kemur fjöldi umsókna, fjöldi styrktra verkefna, árangurshlutfall miðað við umsóknir, heildarupphæð stuðnings frá ESB í viðkomandi verkefnaflokkum og hlutfallsleg skipting fjármagns á milli áætlana.

Tafla 1. Horizon 2020: Árangur Íslands eftir undiráætlunum 2014–2017.*

*Tölur eru frá mars 2018, úr gagnagrunni Horizon 2020.

Virkni og árangur Íslands í Samfélagsáskorunum stenst vel samanburð við viðmiðunarþjóðir. Um 63% af því fjármagni sem fallið hefur íslenskum aðilum í skaut hefur komið til vegna þátttöku þeirra í stoðinni. Flestar umsóknir með íslenskri þátttöku berast einnig í þessa stoð, þ.e. 387 af 760, sem nemur 51% umsókna. Stuðningur fékkst við 83 af þessum 387 umsóknum sem gerir 21% árangur. Íslenskir umsækjendur hafa átt umsóknir í allar undiráætlanir innan Samfélagsáskorana. Flestar umsóknir eða 119 eru í Fæðuöryggi, landbúnað og sjávarrannsóknir, þar sem styrktar umsóknir eru 28 (24% árangurshlutfall), næstflestar umsóknir bárust svo í Orkuáætlunina eða 75 umsóknir, þar af voru styrktar 21 umsókn (28% árangurshlutfall). Heilbrigði og lýðheilsa kemur svo þar á eftir en í hana bárust 60 umsóknir og eru styrkt verkefni 11 talsins sem gerir 18% árangurshlutfall.

Næstflestar umsóknir eru í Öndvegisrannsóknum eða 205, stuðningur fékkst við 29 verkefni eða um 14%. Í þessari stoð er virknin mest í Marie Sklodowska Curie Actions áætluninni, 141 umsóknir bárust og þar af voru 15 umsóknir samþykktar sem gerir um 11% árangurshlutfall. Fjórar umsóknir fengu stuðning Evrópska rannsóknaráðsins (ERC) af 25 eða 16% árangurshlutfall. 22 umsóknir bárust í áætlunina Stuðningur við framtíðartækni (Future and Emerging Technologies) og fékk ein þeirra stuðning eða um 5%. Árangur í Öndvegisrannsóknum er ágætur en í stoðinni hafa styrkirnir numið rúmum 13,6 milljónum evra eða um 25,2 evrum á hvern Íslending. Árangur Íslands er sambærilegur við árangur Finna en nokkuð betri en árangur Noregs, Lúxemborgar, Möltu og yfir meðaltali ESB. Ísland er þó eftirbátur Danmerkur og Svíþjóðar hvað þennan þátt varðar.

Undir Forystu í atvinnulífi hafa borist 134 umsóknir með þátttöku Íslands frá upphafi Horizon 2020 áætlunarinnar og 24 verkefni hafa fengið stuðning eða 18% árangurshlutfall. Ísland hefur verið þátttakandi í umsóknum í öllum undiráætlunum. Árangur Íslands á þessu sviði er sambærilegur við árangur samanburðarþjóða og hafa styrkirnir úr stoðinni numið rúmum 8 milljónum evra eða um 24 evrum á hvern Íslending.

Íslenskir aðilar hafa verið þátttakendur í 30 umsóknum í Vísindi í þágu samfélagsins, þar af hafa þrjár fengið stuðning og er árangurshlutfall 10%.

Mynd 5. Horizon 2020: Árangurshlutfall umsókna.

Í því skyni að varpa ljósi á þátttöku Íslands í Horizon 2020 getur verið villandi að líta á fjölda umsókna sem eina mælikvarðann á virkni Íslendinga. Ástæðan fyrir því er sú að fjöldi íslenskra aðila á bak við hverja umsókn getur verið mjög mismunandi, allt frá því að vera einn aðili yfir í það að vera fimm aðilar í einni og sömu umsókninni. Í Horizon 2020 eru 980 íslensk þátttökutilfelli á bak við þær 770 umsóknir sem borist hafa með íslenskri þátttöku. Ef litið er á fjölda íslenskra umsóknaraðila í samanburði við helstu samanburðarþjóðir má sjá að ásókn Íslands í áætlunina er góð og virðist því rannsókna- og vísindaumhverfið á Íslandi vera vel meðvitað um tækifærin í áætluninni, sjá mynd 6.

Mynd 6. Horizon 2020: Heildarþátttökutilvik á hverja tíu þúsund íbúa.

Í töflu 2 má sjá helstu samstarfslönd Íslands í Horizon 2020 og 7. rannsóknaáætluninni. Þýskaland, Bretland og Frakkland eru með flestar tengingar við Ísland í verkefnum í Horizon 2020. Úr tölunum má lesa að tenging Íslands við rannsóknaumhverfi þessara landa er ágæt en þó verður að hafa í huga að stærð landanna og þróuð rannsóknaumhverfi gera stóru löndin áberandi í áætluninni í heild sinni. Norðurlöndin Svíþjóð, Noregur og Danmörk eru meðal 10 algengustu samstarfslanda Íslands. Ef litið er á samanburðartölur frá 7. rannsóknaáætluninni má sjá mjög sambærilegt mynstur en það sem vekur athygli er áberandi samstarf við Bretland, það virðist ekki eins áberandi í Horizon 2020, og er dreifingin á milli landa mun jafnari en hún var áður.

Tafla 2. Horizon 2020 og 7. rannsóknaáætlunin: Helstu samstarfslönd Íslands.

Horizon 2020 7. rannsóknaáætlunin
Samstarfslönd Fjöldi tenginga Samstarfslönd Fjöldi tenginga
1.   Þýskaland 187 1.   Bretland 531
2.   Bretland 184 2.   Þýskaland 380
3.   Frakkland 181 3.   Spánn 281
4.   Spánn 138 4.   Holland 279
5.   Ítalía 136 5.   Frakkland 275
6.   Noregur 127 6.   Ítalía 254
7.   Holland 123 7.   Noregur 182
8.   Danmörk 92 8.   Svíþjóð 177
9.   Belgía 86 9.   Danmörk 159
10. Svíþjóð 83 10. Belgía 138

Dæmi um verkefni

Samfélagsáskoranir - Orka: DEEPEGS er stærsta verkefnið undir íslenskri forystu sem hefur fengið styrk úr Horizon 2020. Styrkurinn nemur í heild sinni tæpum 20 milljónum evra en þar af mun um 8,6 milljón evrur nýtast beint til rannsókna á Íslandi. HS Orka leiðir verkefnið en Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Landsvirkjun og Georg taka þátt í verkefninu hérlendis, sem og þátttakendur frá Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Noregi. Snýst verkefnið um rannsóknir og þróun á jarðhitanýtingu á Reykjanesi og suður Frakklandi þar sem borað er niður allt að 5 km dýpt eftir jarðhita. Markmiðið er að sýna á fram á að framleiða megi orku úr djúplægum jarðhitakerfum. Verkefnið hófst í lok árs 2015 og nú þegar hefur verið boruð djúp rannsóknarhola á Reykjanesi. 

Öndvegisrannsóknir - Styrkir evrópska rannsóknaráðsins: Hópur vísindamanna undir forystu Sigurðar Yngva Kristinssonar, prófessors við Læknadeild Háskóla Íslands, fékk styrk að upphæð 1,5 milljón evra úr Öndvegisrannsóknum. Verkefnið MGUS screening RCT snýr að rannsóknum á forstigi mergæxla og afdrif einstaklinga sem greinast með forstig mergæxlis. Liður í rannsókninni er verkefnið Blóðskimun til Bjargar – Þjóðarátak gegn mergæxlum, en til stendur að bjóða 140 þúsund einstaklingum á Íslandi í skimun.

Forysta í atvinnulífi - Nýsköpun í litlum og meðalstórum fyrirtækjum: Íslenska fyrirtækið Nox Medical hlaut styrk að upphæð 2 milljónir evra til áframhaldandi rannsókna og tækniþróunar. Styrkurinn kom úr Forystu í atvinnulífi, undiráætlun sem ber heitið Nýsköpun í litlum og meðalstórum fyrirtækjum (SME) og er hún sérstaklega ætluð fyrirtækjum af þeirri stærðargráðu. Samkeppni innan þeirrar undiráætlunar er jafnan mjög hörð og árangurshlutfall umsókna lágt. Styrkurinn mun hjálpa til við að ýta undir áframhaldandi vöxt og árangur fyrirtækisins á næstu árum.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica