Gallar í litningaendum í BRCA tengdu brjóstakrabbameini - verkefni lokið í Rannsóknasjóði

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

24.2.2017

Í fyrsta hluta verkefnisins var markmiðið að mæla telomere-lengd í blóði arfbera BRCA stökkbreytinga, bæði þeirra sem greinst hafa með krabbamein og þeirra sem ekki hafa greinst, einnig brjóstakrabbameinssjúklinga án BRCA stökkbreytinga (sporadísk tilfelli) og viðmiðunarhópi heilbrigðra einstaklinga með nýrri og nákvæmri qPCR aðferð. 

Heiti verkefnis: Gallar í litningaendum í BRCA tengdu brjóstakrabbameini
Verkefnisstjóri: Jórunn E. Eyfjörð, Háskóla Íslands

Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrktímabil: 2013-2015
Fjárhæð styrks: 20 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís:  130232

Fljótlega eftir einangrun brjóstakrabbameins áhættugenanna, BRCA1 og BRCA2, var sýnt fram á að próteinafurðir þeirra gegndu lykilhlutverki í viðgerð á tvíþátta DNA brotum. Síðar komu í ljós fleiri hlutverk, þar á meðal í verndun og viðhaldi litningaenda, svokallaðra telomera. Telomerar eru kjarnsýruraðir bundnar sérhæfðum próteinum sem mynda eins konar lykkjur á endum allra okkar litninga og verja þá niðurbroti og tengingum við aðra litningaenda. Telomerar styttast með aldri og eru því eins konar lífsklukka. Komið hefur í ljós að ýmislegt getur hraðað þessari styttingu og skaðað telomera.  Stytting telomera hefur þannig verið tengd áhættu á ýmsum sjúkdómum, þar með talið krabbameinum.

Í fyrsta hluta verkefnisins var markmiðið að mæla telomere-lengd í blóði arfbera BRCA stökkbreytinga, bæði þeirra sem greinst hafa með krabbamein og þeirra sem ekki hafa greinst, einnig brjóstakrabbameinssjúklinga án BRCA stökkbreytinga (sporadísk tilfelli) og viðmiðunarhópi heilbrigðra einstaklinga með nýrri og nákvæmri qPCR aðferð. Helstu niðurstöður eru að telomere-lengd í eðlilegum blóðfrumum spáir fyrir um brjóstakrabbameinsáhættu hjá arfberum BRCA2 stökkbreytinga. Einnig var mæld telomere-lengd og tíðni telomere-galla í vefjasýnunum brjóstakrabbameinssjúklinga, bæði arfberum BRCA2 stökkbreytingar og sporadískum tilfellum. Sýnin voru útbúin í samstarfi við Meinafræðideild Landspítalans og voru bæði úr æxlisvef og aðlægum heilbrigðum brjóstavef úr sömu einstaklingum. Sýni voru lituð með mótefnalitunum og Q-FISH aðferð og mynduð í flúrsmásjá. Birna Þorvaldsdóttir, doktorsnemi, vann þetta verkefni á rannsóknarstofu dr. Elizabeth Blackburn við UCSF háskóla í Bandaríkjunum. Þessar vefjasýnarannsóknir sýna mesta styttingu telomera og einnig flesta telomere-galla, svokallaða TIFs, í innri þekju brjóstkirtils. Eimitt í því frumulagi (frumugerð) þar sem flest brjóstakrabbamein eiga uppruna sinn. Niðurstöður þessara Q-FISH greininga á telomere-lengd og mótefnalitanir fyrir tvíþátta brotum úr vefjasýnum brjóstakrabbameinssjúklinga lofa góðu, en þarfnast frekari úrvinnslu og tenginga við sjúkdómsframvindu. 

Frumulínur, einangraðar úr brjóstavef, bæði arfblendnar BRCA2999del5 frumulínur og línur án BRCA breytinga voru notaðar til að rannsaka samspil BRCA2 og annarra DNA viðgerðarpróteina og viðbrögð við sértækum lyfjum. Arfblendnar BRCA2 999del5 frumur sýndu væg viðbrögð við meðhöndlun með PARP hindra (olaparib), en lentiveiru BRCA2 bæling (knock-down) jók þessi áhrif marktækt.  Nú er unnið að því að búa til stöðugra frumulínumódel til þessara rannsókna fyrir BRCA2999del5 stökkbreytingu (þ.e. BRCA2+/+, BRCA2999del5/+, BRCA2999del5/999del5) með því að nota CRISPR/Cas9 aðferð.

Mikilvægi (impact) þessara rannsókna okkar felst í sértækum nýjum aðferðum og ennfremur stóru og mjög vel skilgreindu rannsóknaþýði. Þetta gerir okkur m.a. mögulegt að skýra nokkuð mótsagnakenndar niðurstöður sem áður hafa birst um efnið.  


Þetta vefsvæði byggir á Eplica