Heiti verkefnis: Þróun á veiruferjum til bólusetninga gegn sumarexemi í hestum - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

13.3.2017

Markmið verkefnisins „Development of viral vectors for immune therapy of horses with insect bite“ var að hanna veiruferjur með ofnæmisvakagen úr Culicoides spp. smámýi og nota til forvarnabólusetninga eða afnæmingu gegn SE. 

Heiti verkefnis: Þróun á veiruferjum til bólusetninga gegn sumarexemi í hestum
Verkefnisstjóri: Vilhjálmur Svansson

Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrktímabil: 2013-2015
Fjárhæð styrks: 18,559 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís:  130446

Sumarexem (SE) er árstíðarbundið Th2 miðlað ofnæmi af gerð 1, sem orsakast af biti Culicoides ssp. smámýs. Sjúkdómurinn er óþekktur á Íslandi en með aukinni útbreiðslu íslenska hestsins í Evrópu á 20. öld, var eftir því tekið að hross af íslensku kyni fengu SE umfram önnur. Faraldursfræðilegar rannsóknir hafa sýnt að ríflega helmingur hesta frá Íslandi fær ofnæmið séu þeir á flugusvæðum og lítið gert að verja þá biti. Aftur á móti fá einungis 5-10% hesta af íslensku kyni sem fæddir eru erlendis SE. Sú tíðni er svipuð því sem þekkt er frá öðrum hestakynjum.

Markmið verkefnisins „Development of viral vectors for immune therapy of horses with insect bite“ var að hanna veiruferjur með ofnæmisvakagen úr Culicoides spp. smámýi og nota til forvarnabólusetninga eða afnæmingu gegn SE. Ónæmisviðbrögð við veirusýkingum eru vanalega Th1-miðluð. Því má ætla að veiruferjur (viral vectors) megi nýta til bólusetninga gegn Th2-miðluðum ofnæmissjúkdómum. Litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar fram til þessa sem byggja á veiruferjum til lækninga eða forvarna gegn ofnæmi.

Þar sem fáar veirur eru í hestum hérlendis var ákveðið byggja verkefnið á veiru sem er landlæg hérlendis og ekki leiddi til mótefnamyndunar sem truflaði faraldursfræðilegar rannsóknir ef nýjar veirur bærust til landsins. Íslensk gammaherpesveira EHV-2-Bj sem ræktuð var frá heilbrigðum hesti var notuð til smíða á veiruferjum.

Til að auðvelda rannsóknavinnuna voru gerðar frumulínur úr hestafósturfrumum með aukinn líftíma. Slíkar frumulínur hafa ekki verið tiltækar þeim sem vinna við veirurannsóknir á hrossum. Samningur var gerður um sölu á frumulínunum við Applied Biological Materials Inc. og mun vera fyrsti sölusamningur sem gerður hefur verið á frumum frá Háskóla Íslands.

Margt er enn órannsakað í smitferli og ónæmisviðbrögðum við sýkingum með gammaherpesveirum (gEHV) í hestum. Þegar unnið er með veiruferjur sem byggja á gEHV er góð þekking á ferli gEHV sýkinga og ónæmisviðbrögðum nauðsynleg. Fylgst var með smitferli gEHV í 15 folöldum og mæðrum þeirra í tvö ár eftir köstun. Niðurstöðurnar nýtast við val á heppilegum aldri til bólusetninga auk þess að veita nýjar upplýsingar um smitferil veiranna í folöldum og tryppum. 

Hönnuð var veiruferja, rBac-gB-Cul n 2, sem byggir á baculoveiru sem sýkir skordýr. Í ferjunni var geni glýkópróteins B (gB) úr EHV-2-Bj veirunni komið fyrir undir polyhedrin stýrli baculoveirunnar til að auka innleiðslu ferjunnar í hestafrumur. Baculoveiruferjan er auk þess með Cul n 2 -tjáningakasettu til framleiðslu á próteininu í hestafrumum. Hægt var að sýna var fram á að Cul n 2 próteinið var tjáð í hestafrumum sem innleiddar voru með veiruferjunni. Við bólusetningar í folöldum með veiruferjunni tókst ekki að sýna fram á Cul n 2 sértækt mótefnasvar þrátt fyrir ítrekaðar bólusetningar. Frekari rannsókna er þó þörf til að meta endanlega áhrif bólusetningar með ferjunni.

Í rannsókninni var að útbúin veira sem tjáir grænflúorlýsandi prótein sem mun vera kærkomin viðbót frekari rannsókna á gEHV veirum.


Afrakstur verkefnis:

  • Hestafósturfrumulínur með lengdan líftíma sem munu m.a. nýtast við veirurannsóknir í hrossum.
  • Samningur við Applied Biological Materials Inc. um sölu á hestafósturlínunum.
  • Ný þekking á smitferli gammaherpesveira í folöldum og tryppum.
  • Grænflúorljómandi EHV-2 veira sem nýtast mun við frekari rannsóknir á gammaherpesveirum.


Ritrýndar greinar (opinn aðgangur):


Þetta vefsvæði byggir á Eplica